Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Hef ég nú í huga fjall. Harla þung er byrði. Á vanga þessi skæður skall. Skóli í Borgarfirði. Hér er lausnin mín, segir Knútur H. Ólafsson: Hestur er í huga mínum fjall

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Hef ég nú í huga fjall.

Harla þung er byrði.

Á vanga þessi skæður skall.

Skóli í Borgarfirði.

Hér er lausnin mín, segir Knútur H. Ólafsson:

Hestur er í huga mínum fjall.

Hestburður er eflaust mjög þung byrði.

Kinnhestur á köldum vanga skall.

Kennsla var á Hesti í Borgarfirði.

Þessi lausn varð til, segir Helgi R. Einarsson:

Birtist fjallið Hestur hér.

Hestburð drýldimennið bar.

Kinnhest enginn bróður ber.

Bændaskóli að Hesti var.

Guðrún B. svarar og vísar til nemenda við LbHÍ, sem hafa sem kennslustað fjárbú á Hesti í mynni Lundarreykjadals:

Sé Hestfjall í Grímsnesi gnæfa,

Gunnu títt hestburði þæfa

og kinnhesta kinn flestra slæva!

Með kindum á Hesti skal æfa!

Harpa á Hjarðarfelli leysir gátuna þannig:

Hests ber fjallið heiti.

Hestur, byrði hér.

Kinnhest kjálka veiti.

Kennt á Hesti er.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna svona:

Hestur vestra heitir fjall.

Hestur þung er byrði.

Á kinn sá hestur harður skall.

Hestur í Borgarfirði.

Þá er limra:

Gráni var gæðinga bestur,

gráðugur át sá hestur

guðsorðabækur

og gerðist þá sprækur,

því hann var biblíuhestur.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Veröld dagsins vitrast mér,

víkur draumsins glýja,

losa svefn, á fætur fer

og fæst við gátu nýja:

Hér má spor í sandi sjá.

Siglir gnoð um höfin blá.

Fagurt hrundar hár ég sá.

Hreyfing skýja til og frá.

Þessi limra fylgdi lausn Helga R. Einarssonar:

Vandlifað í henni veröld

Konan er sögð var hin sæta,

siðprúða, blíðlynda, mæta

á umliðnum öldum

af einhverjum völdum

tókst grannkonurnar að græta.


Lára leyndi á sér
ef leik á borði sá sér,
boðorð braut,
blessun hlaut
samt hún fór aldrei hjá sér.
Halldór Blöndal