Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Hljóðið í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum er nokkuð gott um þessar mundir og greinileg bjartsýni innan greinarinnar. „Heilt á litið er ekki yfir miklu að kvarta og víða gengur reksturinn mjög vel, þrátt fyrir áskoranir eins og mikinn niðurskurð í þorski á umliðnum árum, válegum tíðindi af gullkarfa og djúpkarfa og stríði í Úkraínu. Allt hefur þetta sett svip sinn á rekstur í sjávarútvegi,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
„Við erum líka að stefna inn í haustið þar sem nokkur stór mál verða til umfjöllunar á vettvangi stjórnmálanna. Fyrirhuguð er skýrsla matvælaráðuneytis á næstu misserum sem tengist stefnumótun í sjávarútvegi undir heitinu Auðlindin okkar og þar verður vafalaust sitthvað jákvætt en annað varasamt, eins og gengur og gerist. Við höfum séð æði margar skýrslu í sjávarútvegi og tökum þessu eins og hverju öðru verkefni, en umræða um sjávarútveg er alltaf af hinu góða.“
Þau mál sem Heiðrún er að vísa til hafa að gera með samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar sem m.a. tæpir á stöðu sjávarútvegsins. „Í sáttmálanum er tiltekið að setja skuli á laggirnar starfshóp sem hefur það hlutverk að meta þjóðhagslegan ávinning af íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu og bera saman við þau kerfi sem aðrar þjóðir nota. Enn sem komið er hefur þessi grunnvinna ekki farið fram, að ég best veit, en það er hins vegar nauðsynlegt að fá þennan samanburð og mat á ávinningi eða kostnaði ólíkra kerfa innan fiskveiðistjórnunarkerfisins svo að byggja megi næstu ákvarðanir um lagaumhverfi fiskveiða á réttum forsendum. Ef við ætlum að stefna fram á við, þá verðum við að vita hvar við stöndum í dag.“
Innbyrðis ósamræmi í sumum tillögum
Í þessu sambandi nefnir Heiðrún að matvælaráðherra hafi fyrr á þessu kjörtímabili skipað fjóra vinnuhópa sem starfað hafa undir formerkjum fyrrnefnds verkefnis, Auðlindin okkar. Hver hópur einblínir á tiltekið svið: samfélag, aðgengi, tækifæri og umhverfi. „Hóparnir hafa skilað um 60 bráðabirgða tillögum sem snerta sjávarútveg og eru margar þeirra mjög góðar, en aðrar síðri,“ útskýrir Heiðrún. „Síðan eru sumar tillögurnar ætlaðar til útfærslu og aðrar til frekari umræðu, en það er óljóst í mínum huga hver munurinn á þessu er og hvernig verði þá unnið að útfærslum eða frekari umræðum. Þá er reyndar líka ljóst að innbyrðis ósamræmi er í mörgum tillögunum. Í mínum huga er af þessum sökum mikil vinna eftir.“
Til að vinna nánar úr þessum tillögum, tryggja vandaða ákvarðanatöku, segir Heiðrún að fyrst þurfi að ljúka þeiri mats- og samanburðarvinnu sem stjórnarsáttmálinn fjallar um. „Við verðum að hafa sem gleggsta mynd af því hvar við stöndum í dag, og hvað reynsla annarra þjóða kennir okkur um hvernig við getum þokað greininni fram á við. Í samræmi við markmið fiskveiðistjórnunarkerfisins ber okkur að stuðla að því að hámarka verðmætasköpun í sjávarútvegi á grunni þriggja stoða sjálfbærni; umhverfis, efnahags og samfélags. Það er nokkuð flókin jafnvægislist að láta þessa þætti vinna saman og þess vegna þarf að ígrunda vel allar breytingar sem fyrirhugað er að gera á kerfinu. Þar sem markmiðið er að skila auðlindinni í sama eða betra ásigkomulagi til næstu kynslóða, þá verðum við alltaf að hafa í huga hver áhrif einstakra breytinga kunna að verða – ekki aðeins í dag, heldur líka hvaða áhrif kunna að koma fram eftir tíu, fimmtán eða tuttugu ár. Við megum aldrei falla í þá gryfju að taka ákvarðanir sem aðeins duga fram yfir næstu alþingiskosningar. Þá erum við einfaldlega að fara gáleysislega með lífskjör komandi kynslóða. Ég hygg að það vilji enginn. “
Keppt við ríkisstyrktar fiskvinnslur í öðrum löndum
Spurð um það hvað ítarlegur samanburður við aðrar fiskveiðiþjóðir kunni að leiða í ljós segir Heiðrún að flest bendi til að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið sé í hópi þeirra bestu í heimi. „Í öllu falli kvíði ég ekki samanburðinum. Að sjálfsögðu er alltaf eitthvað sem má bæta, og eitthvað sem læra má af reynslu annarra þjóða, og höfum við verið að lagfæra og eiga við íslenska kerfið allt síðan því var komið á í sinni frumstæðustu mynd snemma á 9. áratugnum,“ segir hún. „Ef það er síðan eitthvað eitt sem mér finnst mikilvægara en annað að við lærum í þessari vinnu allri, þá er það líklega tengt rekstrarskilyrðum fyrir fiskvinnslu, en áhersla íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hefur verið á aukna verðmætasköpun með frekari vinnslu afurða hér á landi. Þarna stöndum við frændþjóðum okkar framar, en sem dæmi þá flytja Norðmenn nær allan þorsk óunninn úr landi. Verðmætasköpun í frekari vinnslu á norskum þorski á sér því stað á láglaunasvæðum, eins og í Asíu og Austur-Evrópu. Þarna finnst mér íslenskur sjávarútvegur hafa sýnt ábyrgð við nýtingu auðlindarinnar, þannig að samfélagið í heild njóti. Þetta gleymist æði oft.“
Ítrekar Heiðrúna að bæta þurfi samkeppnishæfni fiskvinnslu á Íslandi, þannig að þessi staða verði tryggð. „Samkeppnin við fiskvinnslur í öðrum löndum sem njóta ríkulegra styrkja úr opinberum sjóðum og greiða til muna lægri laun er einfaldlega ósanngjörn og það þarf lítið út af að bregða til þess að við verðum undir í þessari keppni. Ég vona að vinna matvælaráðuneytis við samanburð á milli landa varpi ljósi á þessa stöðu og að við finnum leiðir til þess að tryggja áframhaldandi – og aukna – verðmætasköpun í fullvinnslu afurða hér heima. Hvað frekari væntingar til þessarar miklu stefnumótunar varðar, þá verður líka að nefna hafrannsóknir. Þær þarf einfaldlega að bæta til muna. Áralangur niðurskurður í vöktun nytjastofna og auknar kröfur neytenda hafa leitt til þess að við erum komin í ákveðið öngstræti, eiginlegt hættuspil ef svo má kalla.“
Kerfi sem skapar hvata til nýsköpunar
Sennilega tekst það seint að skapa fullkomna sátt um íslenska fiskveiðistjórnunarfélagið eru fáir sem andæmæla því að að það fyrirkomulag sem varð fyrir valinu skapaði mjög sterka hvata til að hámarka verðmætasköpun. „Það er vel þess virði að reyna að skilja vel hvað það er við íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið sem veldur því að sjávarútvegstengd nýsköpun er jafn blómleg og raun ber vitni,“ segir Heiðrún.
Í þessu sambandi nefnir hún nýlegar fréttir af sölu lækningavörufyrirtækisins Kerecis sem erlendir fjárfestar keyptu fyrir fúlgur fjár fyrr í sumar. Bendir Heiðrún á að starfsemi Kerecis byggi á hugmynd sem gengur út á að fullnýta hliðarafurðir sem verða til í fiskvinnslum, og að gæði hliðarafurðanna ráðist siðan af framförum sem hafa orðið í vinnslu og kælingu. „Grunnstoðir greinarinnar hafa orðið til þess að leysa úr læðingi mikla nýsköpun í iðnaði og tækni. Þessi nýsköpun verður ekki til í tómarúmi. Snar áhrifaþáttur er sú staðreynd að fiskveiðistjórnunarkerfið byggir á varanlegum og framseljanlegum aflaheimildum. Með því móti hefur tekist að flétta saman hagsmuni eigenda auðlindarinnar og hagsmuni þeirra sem nýta auðlindina, þar sem báðir þessir hagaðilar hafa langtímasýn að leiðarljósi í allri ákvarðanatöku. Það er af þessum sökum sem sjávarútvegur hefur verið tilbúinn að taka áhættu með fjármagni og þekkingu til þess að stuðla að nýsköpun, þannig að meiri verðmæti verði til í framtíð. Væru veiðiheimildirnar ekki varanlegar og ekki framseljanlegar þá er hætt við því að mun minni hvatar væru innan greinarinnar um að ráðast í fjárfestingar til langs tíma, og skammtímagróðinn yrði meira heillandi. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar kemur að auðlindum sem nýtast eiga kynslóð fram af kynslóð.“
Klára þarf kjarasamninga
Eitt af þeim verkefnum sem SFS standa frammi fyrir á næstu misserum er að ljúka kjarasamningsgerð við stéttarfélög sjómanna. Kom það mörgum á óvart að sjómenn skyldu fella kjarasamning sem borinn var undir atkvæði snemma á árinu. „Skipstjórnarmenn samþykktu samninginn og hafa unnið á grundvelli hans síðan í febrúar, og heyri ég ekki annað en að almenn ánægja sé með þann samning. En verkefnið fer ekki frá okkur og hinum stéttafélögunum og þurfum við að halda dampi og halda áfram samtali um hvernig sigla megi nýjum samningi í höfn,“ segir Heiðrún.
Blessunarlega hefur það ekki valdið truflunum þó samningar sjómanna hafi verið lausir um langt skeið. „Það er góður gangur í sjávarútveginum og þar af leiðandi hafa kjör sjómanna verið fádæma góð á undanförnum árum. Ég skynja það þannig, að það sé takmarkaður þrýstingur af hálfu stéttarfélaganna að klára kjarasamningsgerðina. Ég hef klórað mér aðeins í kollinum yfir því og ekki gott að vera með lausa samninga til lengri tíma. Okkur hefur verið falið að klára kjarasamninga og þar skorumst við ekki undan ábyrgð. Staðan er auðvitað erfið þegar sjómenn hafa þegar fellt einn samning nokkuð afgerandi, en verkefnið fer ekki frá okkur. Við sem sitjum við samningaborðið, SFS og stéttarfélög sjómanna, skuldum sjómönnum og útgerðum einfaldlega samning. Það þarf því að slá í klárinn og finna lausn sem allir geta fellt sig við.“
Markaðsverkefnifer vel af stað
Fyrir nokkrum misserum hleypti SFS, í samstarfi við Íslandsstofu, af stokkunum nýju verkefni sem snýr að sameiginlegri markaðssetningu íslensks sjávarfangs á erlendum mörkuðum. Heiðrún segir markaðsmál greinarinnar vera að breytast og þróast í takt við breytta tækni og neyslumynstur. Áhersla greinarinnar hafi að miklu leyti verið á sölu til birgja, verslana og veitingastaða, en síður unnið að beinni markaðssetningu til neytenda. Þeirri vinnu hafi nú verið bætt við, þó áfram sé að sjálfsögðu lögð áhersla á það sem hefur virkað í viðskiptum með íslenskar sjávarafurðir í gegnum áratugina.
„Með frekari verðmætasköpun og vinnslu hér heima erum við óneitanlega að færa okkur nær neytandanum. Þetta kallar á að við fræðum neytandann betur um hina íslensku afurð, til þess að auka líkurnar á því að hann mæti í verslun eða á veitingastað og spyrji þar hvort að fiskurinn á matseðlinum eða í kæliborðinu er íslenskur. Með aukinni neytendavitund erum við þannig að stuðla að aukinni eftirspurn verslana og veitingastaða eftir íslenskum fiski.“
Kórónuveirufaraldurinn brast á skömmu eftir að SFS og Íslandsstofa settu markaðsverkefnið af stað og segir Heiðrún að það sé núna fyrst sem að komin er almennileg reynsla af átakinu. „Það er ekki tjaldað til einnar nætur í þessum málum. Um er að ræða flókið samspil margra þátta, svo það er ekki hlaupið að því að mæla árangurinn á skömmum tíma. Þó benda fyrstu tölur til þess að verkefnið Fishmas, sem við keyrðum í Bretlandi í faraldrinum, hafi vissulega skilað sér í töluvert aukinni vitund, og bættri þekkingu markhópsins á íslenskum fiski og íslenskum sjávarútvegi. Við höldum því ótrauð áfram. Það er allt að vinna í þessum efnum.“