Onni HU gerður út frá Skagaströnd var sviptur veiðileyfi í átta vikur, lengst allra sjófara sem svipt voru leyfi á fiskveiðiárinu 2022/2023.
Onni HU gerður út frá Skagaströnd var sviptur veiðileyfi í átta vikur, lengst allra sjófara sem svipt voru leyfi á fiskveiðiárinu 2022/2023. — Ljósmynd/Ríkarður Ríkarðsson
Birtar hafa verið 23 ákvarðanir um veiðileyfissviptingu. Þar af eru 16 ákvarðanir um leyfissviptingu, eða 70%, vegna brottkastsmála. Þrjár ákvarðanir snúa að aflaskráningarbrotum, tvær eru vegna vigtunarbrota og tvær vegna annars konar brota

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Birtar hafa verið 23 ákvarðanir um veiðileyfissviptingu. Þar af eru 16 ákvarðanir um leyfissviptingu, eða 70%, vegna brottkastsmála. Þrjár ákvarðanir snúa að aflaskráningarbrotum, tvær eru vegna vigtunarbrota og tvær vegna annars konar brota. Sviptingarnar ná til 22 sjófara sem samanlagt hafa verið svipt veiðileyfi í 49 vikur.

Tíu leyfissviptingar eru í eina viku, tíu í tvær vikur, ein í þrjár vikur, tvær í fjórar vikur og ein nær heilum átta vikum.

Tímabundin veiðileyfissvipting er líklega harðasta verkfæri Fiskistofu til að refsa fyrir brot í sjávarútvegi, en slík aðgerð hefur víðtæk áhrif á efnahag þeirra einstaklinga sem málið varðar, ekki bara verður tekjutap hjá útgerð heldur einnig hjá sjómönnum og starfsfólki í vinnslum í landi. Löng veiðileyfissvipting getur því haft veruleg áhrif á allt atvinnulíf í smærri byggðarlögum og áhrif á efnahag fjölda fjölskyldna.

Lengsta sviptingin í máli Onna

Lengsta staka veiðileyfissviptingin nær til dragnótarbátsins Onna HU sem gerður hefur verið út frá Skagaströnd, en báturinn var sviptur leyfi til veiða í atvinnuskyni í átta vikur vegna brottkasts, frá og með 4. nóvember á síðasta ári. Útgerðin var jafnframt kærð til lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Snýr málið að tveimur atvikum árið 2021 en í því fyrra sést til skipverja sleppa fullum poka af fiski út í sjó og áætlar Fiskistofa að um hafi verið að ræða tvö tonn. Skipstjórinn á Onna HU bar fyrir sig að „ofurtogið hefði slitnað frá pokanum og vír sem fer í blökkina hafi farið í gegn. Ekki hafi verið hægt að þræða vírinn aftur og bóman (kraninn) hafi verið soðin föst og því ekki verið hægt að taka pokann um borð,“ að því er segir í gögnum málsins.

Þrisvar hjá sama fyrirtæki

Þrjú skip Nesfisks voru svipt veiðileyfi á fiskveiðiárinu sem er að líða. Fyrst var Sigurfari GK sviptur veiðileyfi í fjórar vikur frá og með 20. janúar síðastliðnum vegna brottkasts sem Fiskistofa skilgreindi sem „meiriháttar brot“.

Þá var dragnóta- og netabáturinn Siggi Bjarna GK-5 sviptur leyfi til veiða í atvinnuskyni í þrjár vikur vegna „meiriháttar brota“ sem Fiskistofa flokkar undir „refsinæmt athafnaleysi“ og hefur málið verið kært til lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Síðast í júlí var birt ákvörðun Fiskistofu um að svipta nýjan togara Nesfisks, Baldvin Njálsson GK, veiðileyfi í tvær vikur fyrir að landa 104 kössum fram hjá vigt 4. nóvember 2022. „Voru þrír álkassar (bretti með álgrind) hífðir upp úr skipinu og lagðir beint á hafnarbakkann þar sem skipverjar affermdu kassana. Í þeim voru hvítir kassar merktir Nesfiski ehf. með frystum fiskafurðum (ýsuflök) úr skipinu. Voru kassarnir hífðar í land og færðu skipverjar þá beint í einkabifreiðar sem þar var lagt á hafnarbakkanum. Voru kassarnir færðir í bifreiðarnar án þess að vera vigtaðir á hafnarvog í löndunarhöfn eins og reglur kveða á um,“ segir í ákvörðuninni.

Einn bátur sviptur í þrígang

Á fiskveiðiárinu hefur Emilía AK hlotið næst lengstu leyfissviptinguna en hefur einnig fengið þær fleiri en nokkuð annað sjófar. Alls hefur Emilía AK verið svipt veiðileyfi þrisvar á fiskveiðiárinu og samanlagt í sjö vikur.

Fiskistofa svipti bátinn fyrst leyfi til veiða í eina viku vegna vigtarbrots sem átti sér stað í september á síðasta ári, með ákvörðun 10. febrúar síðastliðinn. Svo tilkynnti stofnunin 23. mars að Emilía yrði svipt leyfi í fjórar vikur tl viðbótar fyrir að hafa ekki skilað aflaupplýsingum í 71 aðgreindu tilviki og of seint í níu á síðasta ári. Í júlí var síðan ákveðið að svipta bátinn leyfi til veiða í atvinnuskyni í tvær vikur frá og með 1. ágúst síðastliðnum fyrir að hafa ekki skilað aflaupplýsingum í átta veiðiferðum í apríl á þessu ári.

Böðvar Ingvason, sem gerir Emilíu út, hefur sagt útgerðina hafa „mátt þola gríðarlega hörku, embættismannahroka og valdníðslu af hálfu Fiskistofu. […] Fiskistofa hefur níðst á útgerð Emilíu AK með ærumeiðandi ummælum á opinberum vettvangi,“ að því er segir í skriflegri yfirlýsingu hans vegna ákvarðana Fiskistofu.

Aukið gagnsæi

Ákveðið var á síðasta ári að hefja birtingu ákvarðana um veiðileyfissviptingar og gera þannig almenningi innsýn í ákvarðanir stofnunarinnar. Þegar ákvörðun um birtingar var tekin fengust þær upplýsingar frá Fiskistofu að markmiðið væri að auka gagnsæi í starfsemi stofnunarinnar. Þónokkrar líkur eru á að birtingu ákvarðananna sé einnig ætlað fælingarhlutverk og þannig að draga úr brotum í sjávarútvegi.