Arthur Bogason formaður LS segir baráttuna fyrir smábátaveiðum vera mannréttindabaráttu.
Arthur Bogason formaður LS segir baráttuna fyrir smábátaveiðum vera mannréttindabaráttu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er alveg mökkur af fiski á miðunum og það er eins og stjórnsýslan og vísindin eigi rosalega erfitt með að viðurkenna að það sé staðan. Við upplifðum það í þessu góðæri, sem svo sannarlega er, að Hafrannsóknastofnun mælir þorskstofninn 6% stærri…

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Það er alveg mökkur af fiski á miðunum og það er eins og stjórnsýslan og vísindin eigi rosalega erfitt með að viðurkenna að það sé staðan. Við upplifðum það í þessu góðæri, sem svo sannarlega er, að Hafrannsóknastofnun mælir þorskstofninn 6% stærri en í fyrra en leggur engu að síður til einungis 1% aukningu. Það er hjákátlegt að fylgjast með þessu, því að það er alveg útilokað að þeir geti mælt þetta með svona mikilli nákvæmni,“ segir Arthur.

Hann segir það engu máli skipta hvaða veiðarfæri sé verið að nota eða hvar veiðar eru framkvæmdar, um allt séu sjómenn að upplifa mikinn þorsk á miðunum. „Ég held ég hafi aldrei upplifað svona mikinn samhljóm meðal þeirra sem sækja sjóinn. Þeir upplifa ekkert í líkingu við það sem Hafrannsóknastofnun er að leggja til. Þegar veigaminnsta veiðarfærið er að veiða sífellt meira á hverja sóknareiningu um allt land, er eitthvað annað að gerast en að stofninn hafi bara orðið eitthvað örlítið stærri.“

Miðin fyllast ekki af smábátum

Óánægja smábátasjómanna með ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er ekki ný af nálinni og virðist vera árlegur viðburður, eitthvað sem Arthur viðurkennir. En hvað þarf til að hægt verði að höggva á þennan þráláta hnút?

„Þetta er ekki bara óánægja smábátasjómanna. Við heyrum í skipstjórum stóru skipanna og manna sem eru að veiða á stórum skipum og þeir eru hjartanlega sammála þessu. Það er hins vegar miklu sjaldgæfara að þeir gefi sitt álit á þessu opinberlega. Fyrir stuttu hitti ég mæta menn sem eru í stórútgerð og þeir eru algjörlega sammála því sem við höfum verið að segja hjá LS en þeir sögðust jafnframt ekki ætla að básúna það út um borg og bý.

Ég myndi gjarnan vilja hafa einhverja töfralausn á þessu, en maður þarf ekki að vera Einstein til að sjá að þetta er kolfast í ákveðnum hjólförum. Við höfum bent á það í langan tíma að þorskveiðin getur verið miklu meiri við landið, en það er ekkert að breytast, það er ekkert að fara upp í þær tölur sem talað var um að myndi nást [með ráðgjöf vísindamanna]. Ég veit ekki hvað þarf til að breyta þessu, en það hlýtur að þurfa að koma til einhver kerfisbreyting eða viðhorfsbreyting hjá stofnuninni. Einhverjar tilraunir eða nýjar aðferðir virðast ekki vera í sjónmáli hjá þeim.“

Arthur bendir á að lögð hafi verið fram tillaga að nýrri aðferð í tilraunaskyni á fundi fulltrúa LS og Strandveiðifélags Íslands með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra 14. ágúst. Hugmyndin gengur út á að gera þriggja til fimm ára tilraun þar sem strandveiðibátum verði heimilt að veiða tólf daga í þá fjóra mánuði eins og lagt er upp með (maí, júní, júlí og ágúst), alls 48 daga, án þess veiðarnar verði háðar aflaheimildum sem veiðunum er ráðstafað eins og nú. Að loknu tilraunatímabili yrði síðan lagt mat á fiskifræðileg áhrif veiðanna og þróun í fjölda strandveiðibáta.

„Við höfum haldið því fram að veiðar þessara báta hafi engu skipt í sambandi við afkomu þorskstofnsins og þó þessar veiðar yrðu festar í sessi með 48 dögum – eins og við höfum farið fram á – þá er engin hætta á því að það verði komnir einhverjir fimm þúsund strandveiðibátar á miðin. Nú hafa þessar veiðar verið frá 2009 og hefur mesti fjöldi báta verið 2012 þegar þeir voru 761 og svo eru 750 bátar í ár. Ég man að þegar þetta kerfi fór af stað að þingmenn þutu upp og höfðu miklar áhyggjur af því að miðin myndu fyllast af smábátum. Það gerist ekki, þetta er erfið atvinnugrein og þetta er ekki fyrir alla.“

Skíthræddir við breytingar

Arthur segir ljóst að það séu margir kostir við að styðja frekar við veiðar smábáta, ekki síst handfærveiðar. „Á sama tíma og verið er að tala um umhverfismál, bæði varðandi orkunotkun og áhrif veiðarfæra á lífríki hafsins, hafa handfærin alltaf vinninginn. Það væri því sjálfsagt og eðlilegt mál að auka þeirra hlut í þessum potti.“

Fram hafa komið vísindarannsóknir sem benda til þess að tilefni sé til að vernda frekar lífríki á hafsbotni en nú er gert, til þess meðal annars að vernda uppvaxtarsvæði nytjastofna. Slík vernd gæti m.a. falið í sér bann við togveiðum á ákveðnum svæðum. Arthur segir ljóst að það séu öfugmæli við yfirlýsta stefnu um að tryggja betri umgengni við umhverfið að skapa ekki frekari hvata og leita leiða til þess að auka vægi veiða þar sem nýtt eru veiðarfæri sem skaða síður lífríkið.

Arthur er eldri en tvævetur þegar kemur að baráttu fyrir hagsmunum smábátasjómanna og var formaður LS þegar samtökin voru stofnuð 1985. Það er því vert að spyrja hvort hann hafi orðið þess áskynja að árangur hafi náðst í baráttunni síðustu ár.

„Ég verð að viðurkenna að mér þykir þetta hafa verið mjög mikið status quo. Ég finn að það er vilji meðal einhverra á Alþingi til breytinga, en það er líka eins og með ýmislegt í lífinu að menn eru skíthræddir við breytingar. Ég held að það hamli verulega.

Pólitíkin er líka misjöfn. Við höfum upplifað það að hlusta á æðstu ráðamenn tala meðal annars niður til strandveiðanna og meðan við búum við svoleiðis er kannski ekki mikilla viðhorfsbreytinga að vænta, því miður. En við ætlum að halda áfram og mikilvægt að menn á Alþingi og í ríkisstjórn viti að það skiptir engu máli hvernig hlutirnir þróast, við erum ekki að fara að gefast upp. Við teljum okkur vera með mjög góðan málstað sem er þess virði að berjast fyrir.“

Mikill stuðningur

Þá segir Arthur skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir matvælaráðuneytið um viðhorf Íslendinga til sjávarútvegsmála í tengslum við stefnumótunarverkefnið „Auðlindin okkar“ hafi sýnt mikinn stuðning við málstað smábátasjómanna meðal almennings. Vísar hann meðal annars til þess að 72,3% svarenda í könnuninni sögðust telja að hlutfall strandveiða af heildarkvóta ætti að vera hærra en í dag, þar af sagði 31,1% að þetta hlutfall ætti að vera mun hærra.

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta kemur fram í skoðanakönnun. Það er dálítið langt síðan við létum gera stóra könnun hjá Gallup og þar kom nákvæmlega sami stuðningurinn út. Það er ekki nýtt að í hjarta Íslendinga þá er hluti af sjávarútvegsmenningu að viðhalda útgerð lítilla báta. Ég hef litið svo á að baráttan fyrir smábátaveiðum sé hluti af mannréttindabaráttu. Hinn almenni Íslendingur á að hafa glugga inn í fiskveiðarnar til að geta haft tækifæri til framfærslu.“

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson