Hér syngur Jóhannes á afmælistónleikum í Langholtskirkju árið 2020.
Hér syngur Jóhannes á afmælistónleikum í Langholtskirkju árið 2020.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hinn ellefu ára gamli Jóhannes Jökull Zimsen mun standa á stóra sviðinu í Eldborg í dag sunnudag þegar Mótettukórinn, ásamt kammersveitinni Elju og einvalaliði einsöngvara, mun flytja Sálumessu Mozarts og Chichester-sálma eftir Bernstein

Hinn ellefu ára gamli Jóhannes Jökull Zimsen mun standa á stóra sviðinu í Eldborg í dag sunnudag þegar Mótettukórinn, ásamt kammersveitinni Elju og einvalaliði einsöngvara, mun flytja Sálumessu Mozarts og Chichester-sálma eftir Bernstein. Jóhannes hefur sungið frá því hann man eftir sér.

„Ég syng aðalhlutverkið í einu af lögunum og hef æft það mikið. Ég hef áður staðið á sviði í Eldborg þegar ég söng með Björgvini í Jólastjörnum. Það var ágætt fyrir utan stressið,“ segir Jóhannes.

„Ég er að læra í Söngskólanum í Reykjavík og ég mæli mjög mikið með því, það er mjög gaman. Svo finnst mömmu líka gaman að skrá mig á söngnámskeið, en fjölskyldan er mikið í tónlist. Systur mínar eru í kórum og pabbi semur vísur og ég er líka að læra á fiðlu.“

„Það er líklegast að ég verði söngvari þegar ég verð stór. Klassísk tónlist er í uppáhaldi, eins og Mozart,“ segir hann og segist örlítið stressaður fyrir að syngja nú um helgina.

„En það er gott að vita af mömmu og pabba úti í sal,“ segir hann og segir það veita sér öryggistilfinningu. „Ég er langyngstur á sviðinu, um að minnsta kosti fimm ár,“ segir hann og hlær.