Brúðkaupsnóttin Áhugasamir gestir á CHART skoða vatnslitaverk eftir Ragnar Kjartansson hjá i8 galleríinu.
Brúðkaupsnóttin Áhugasamir gestir á CHART skoða vatnslitaverk eftir Ragnar Kjartansson hjá i8 galleríinu. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er mjög mikill áhugi á verkum Ragnars í Danmörku í dag og því fannst okkur vel við hæfi að leggja stóran hluta sýningar okkar undir þau frábærlega skemmtilegu verk sem hann hefur unnið með okkar góðu grafíkmeisturum,“ sagði Lone…

Einar Falur Ingólfsson

einarfalur@gmail.com

„Það er mjög mikill áhugi á verkum Ragnars í Danmörku í dag og því fannst okkur vel við hæfi að leggja stóran hluta sýningar okkar undir þau frábærlega skemmtilegu verk sem hann hefur unnið með okkar góðu grafíkmeisturum,“ sagði Lone Weigelt stjórnandi hjá Borch Editions um sýningu á nær tuttugu grafíkverkum Ragnars Kjartanssonar á CHART-listakaupstefnunni í Charlottenborg í Kaupmannahöfn. Þúsundir gesta hafa þyrpst á kaupstefnuna síðustu tvo daga en hún stendur út helgina. Danir eru vissulega meirihluti gesta en fjöldi listáhugamanna og safnara mætir frá hinum Norðurlöndunum að skoða það sem galleríin 37 sem taka þátt hafa fram að færa í ár, auk alls kyns hliðarsýninga og viðburða.

Viðamikil yfirlitssýningin sem stendur nú yfir á verkum Ragnars í Louisiana-safninu norðan við Kaupmannahöfn hefur fengið mikið lof og gríðargóða aðsókn og því er fylgt eftir af galleríi hans, i8, og öðrum samstarfsaðilum á CHART. Óhætt er að segja að af þeim hundruðum listamanna sem eiga verk á sýningum kaupstefnunnar nú fari hvað mest fyrir Ragnari. Hann mætti í gær í stappfullan fyrirlestrasal í Charlottenborg og ræddi um listsköpun sína. Og eins og fyrr segir notaði Borch Edition tækifærið og lagði meginhluta síns rýmis undir verkin sem þetta virta grafíkverkstæði hefur gert með honum í þrígang frá 2020. Og Weigelt segir upplagsverkin hafa fengið mikla athygli og mörg hafa ratað til kaupenda.

Í næsta sal stendur Börkur Arnarson galleristi Ragnars í i8 vaktina og hefur lagt allt sitt rými undir verk listamannsins. Á stærsta veggnum er á þriðja tug vatnslitamynda af næturhimni, nýtt tvískipt vídeóverk á öðrum endaveggnum og svo eru einnig á sýningunni ljósaskilti með texta og önnur málverk eftir Ragnar.

„Það kom ekkert annað til greina en að sýna nú bara verk eftir Ragnar einan,“ segir Börkur. „Við erum ekki beint að bæta við sýninguna í Louisiana en erum þó með verk sem eru ekki þar.“ Vatnslitamyndaröðina af næturhimni segir Börkur heita „Brúðkaupsnóttina“ og hefur Ragnar unnið að þeim frá árinu 2015. „Í Louisiana er stór svona grúppa af næturhimninum – og það er gaman að geta sýnt hér saman þessa einstaklinga úr þeirri seríu,“ segir Börkur.

„Það er gríðarlegur áhugi á verkum Ragnars hér. Mér finnst eins og helmingur gestanna hér sé þegar búinn að sjá s ýninguna í Louisiana. Núna veit Daninn hver Kjartansson er.“

– Og eru safnarar hér að næla sér í verk eftir hann?

„Já, sumir eru að bæta í safnið heima hjá sér,“ svarar Börkur.

Þrjú íslensk gallerí taka þátt í CHART í ár. Auk i8 eru það BERG Con temporary, sem sýnir ljósmyndaverk eftir Katrínu Elvarsdóttur, og Þula sem tekur nú þátt í þriðja sinn. Þá taka Prent & vinir þátt í bók- og prentverkasýningu.

Hjá BERG Contemporary tekur Kristína Aðalsteinsdóttir á móti gestum og segir blaðamanni að verk Katrínar séu afrakstur ferðalags til Kúbu. „Þau hafa vakið athygli hér,“ segir Kristína. „Við höfum verið uppteknar á spjalli við gesti í allan dag, við listamenn, safnara og sýningarstjóra og allir hafa áhugaverð og ólík sjónarhorn á verkin.

Heima eru alltaf sýningar í sýningarrýmum okkar en svo erum við líka að kynna listamennina okkar erlendis, og taka þátt í alþjóðlegu listasenunni. Það er mjög mikilvægt að viðhalda því samtali.“

Listamenn sem Ásdís Þula Þorláksdóttir galleristi í Þulu starfar með eru áberandi, ekki bara í sýningarrými gallerísins. Auður Lóa Guðnadóttir á verk á samstarfssýningu CHART og Tívolígarðsins, kvikmyndin „Koss“ eftir Önnu Maggý er sýnd í kvikmyndahluta kaupstefnunnar, málverk eftir Kristínu Morthens er sýnt í nýju verkefni, „Start Collecting“, og loks er flennistórt málverk eftir Guðmund Thoroddsen í sérstakri kynningu og tekur á móti gestum þar sem þeir ganga inn á kaupstefnuna.

„Það gengur vonum framar,“ segir Ásdís Þula lukkuleg þar sem sést hefur til hennar pakka inn verkum eftir Guðmund, Auði Lóu og Kristínu sem hún tók með sér til Danmerkur auk þeirra sem var stillt fram á sýningunni.

„Það er mjög vel látið með verk allra listamannanna sem ég sýni hérna og klárlega mikill áhugi. Mér finnst mjög mikilvægt að geta kynnt mína listamenn erlendis. Svo er mikilvægt að kynnast nýju fólki og fá ólíka kaupendur,“ segir hún.

Höf.: Einar Falur Ingólfsson