Ásta Norðmann fæddist á Akureyri 26. ágúst 1904, dóttir hjónanna Jóns Steindórs Norðmann kaupmanns og Jórunnar Einarsdóttur, og var næstyngst sjö systkina. Hún varð fyrst allra Íslendinga til að læra listdans en aðeins sautján ára gömul fór hún í…

Ásta Norðmann fæddist á Akureyri 26. ágúst 1904, dóttir hjónanna Jóns Steindórs Norðmann kaupmanns og Jórunnar Einarsdóttur, og var næstyngst sjö systkina. Hún varð fyrst allra Íslendinga til að læra listdans en aðeins sautján ára gömul fór hún í nám til Leipzig í Þýskalandi og sótti einkatíma hjá sólódansara við Óperuna í Leipzig. Ári síðar kom hún heim og sýndi listdansverk í Iðnó, sem var fyrsta sýningin þeirrar tegundar á Íslandi. Um þá sýningu var haft eftir dr. Helga Pjeturs: „Nú er vorið komið.“

Ásta stofnaði dansskólann Báruna 1922 og kenndi þar bæði fullorðnum og börnum dans en lengst af kenndi hún dans í Iðnó. Hún fór í framhaldsnám til Kaupmannahafnar og 1929 setti hún upp ballettskóla í Reykjavík. Hún samdi dansa fyrir flestar revíur sem sýndar voru í Iðnó á þessum tíma. Hún var fyrsti formaður Félags íslenskra listdansara sem stofnað var 1947 og var gerð að fyrsta heiðursfélaga árið 1958.

Ásta giftist Agli Árnasyni, stórkaupmanni í Reykjavík, 1932 og þau áttu fjögur börn. Ásta lést í Reykjavík árið 1985.