Réttsýnisritskoðun virðist vera á góðri leið með að ná fótfestu í listheiminum. Bókum og sviðsverkum er breytt og tónlist og myndlist skákað út af borðinu í því augnamiði að móðga ekki hóp eða hópa fólks. Hin gamalgróna og goðsagnakennda rokkhljómsveit Queen fann fyrir þessu á dögunum þegar metsöluplata hennar, Greatest Hits, var endurútgefin. Platan kom fyrst út árið 1981 og þá var lagið Fat Bottomed Girls, sem upphaflega var á breiðskífunni Jazz 1978, í öndvegi, nánar tiltekið númer fjögur á lagalistanum. Á nýju útgáfunni er téð lag hins vegar hvergi að finna.
Fyrst datt manni í hug að fulltrúar útgáfunnar, Yoto, hefðu verið á ferðalagi á sömu slóðum og Bakkabræður í Borgarfirði og botninn hreinlega orðið eftir, eins og forðum daga. Svo var víst ekki. Yoto er veita sem sérhæfir sig í að halda forvitnilegu efni að börnum og ungu fólki og á vefsíðu hennar kemur fram að Greatest Hits sé upplögð til að kynna tónelsku ungu fólki tónlist Queen, auk þess sem skífan sé tilvalin í eldhúspartíið og í hópsönginn í bílnum eða bara þegar lúftgítarinn fer á loft inni í herbergi fyrir svefninn. Hver kannast ekki við það? Hvort þetta er akkúrat það sem Brian May og þá eftirlifandi Queenliða dreymdi um að heyra er svo annað mál. Hvað sem því líður þá blasir við að Yoto þótti ekki forsvaranlegt að halda lagi að nafni Fat Bottomed Girls að ungviði þessa heims.
Lagið er þekkt stærð, náði 11. sæti breska vinsældalistans þegar það kom út sem smáskífa og 24. sæti þess bandaríska. Um það var raunar deilt á þeim tíma, ekki út af textanum, heldur vegna þess að plötuumslagið fór fyrir brjóstið á sumum en þar gat að líta berrassaða fyrirsætu, sem glímdi greinilega ekki við átröskun, á reiðhjóli. Einhverjar plötubúðir neituðu að selja plötuna af þessum sökum og fyrir vikið var gripið til þess ráðs að klæða fyrirsætuna í rauðar nærbuxur. Það var tekið gott og gilt þannig að málið snerist greinilega fremur um nekt en þyngd á þeim tíma.
Nú eða pilta
Lag og texti eru eftir Brian May sem trúði tímaritinu Mojo fyrir því á sínum tíma að hann hefði samið lagið með Freddie heitinn Mercury, þáverandi söngvara Queen, í huga. „Eins og maður gerir, einkum og sér í lagi ef maður er með mergjaðan söngvara sem kann að meta breiðbotna stúlkur … nú eða pilta.“
Þar segir meðal annars, með leyfi höfundar:
I was just a skinny lad.
Never knew no good from bad.
But I knew life before I left my nursery,
left alone with big fat Fanny,
she was such a naughty nanny,
big woman, you made a bad boy out of me.
Dæmi nú hver fyrir sig.
Segjum sem svo að einhverjum þyki hér um smánun að ræða, að verið sé að gera lítið úr feitu fólki, en réttlætir það inngrip útgefanda eða dreifingaraðila, eins og hér um ræðir? Lagið kom út á sínum tíma og var hluti af heild, bæði á Jazz og Greatest Hits, sem til eru á ófáum heimilum, meðal annars hér á Íslandi. Hvað gefur mönnum vald til að hrófla við þeirri heild?
Þeim Yoto-mönnum er augljóslega annt um velferð ungu kynslóðarinnar, því auk þess að aftengja Fat Bottomed Girls þá eru hlustendur varaðir efnislega við textum í öðrum lögum á Greatest Hits, enda geti þeir snert á málum sem aðeins varða fullorðna, svo sem ofbeldi og fíkniefnum. „Þetta eru upprunalegar og óklipptar útgáfur. Enda þótt engin blótsyrði sé þar að finna er mælst til þess að foreldrar séu viðstaddir þegar efnið er leikið fyrir eða í kringum yngri börn.“
Sótt að rokkheimum
En alla vega. Hér er sumsé hermt af pilti sem alinn er upp af holdgóðri konu sem gerir hann að óknyttastrák og fyrir vikið leggur hann lag sitt fremur við konur í efri stærðum en neðri. „You make the rocking world go round,“ margsyngur Freddie í laginu. Þýðir það þá núna, þegar búið er að slaufa laginu, að gamli góði rokkheimurinn hætti að snúast? Guð sé oss næstur og þeir feðgar báðir!
Það sem gerir málið enn dularfyllra er sú staðreynd að breiðbotna konur hafa sennilega sjaldan eða aldrei verið í meiri tísku í mannkynssögunni en einmitt nú. Nægir þar að nefna Kim Kardashian, Cardi B, Megan Thee Stallion og hvað þær ágætu stúlkur nú allar heita. Við erum að tala um konur sem lagt hafa sérstaka rækt við botn sinn og eru stoltar af – og hafa verið konum og stúlkum út um allar koppagrundir fyrirmynd. Fat Bottomed Girls kemur ábyggilega ekki við kaunin á þeim.
Breska blaðið Daily Mail skoðaði málið og ræddi meðal annars við innanbúðarmann í tónlistarbransanum, sem ekki vildi láta nafns síns getið. „Það eru allir að tala um þetta í bransanum,“ sagði hann. „Enginn botnar neitt í því hvers vegna svona velmeinandi og hresst lag er ekki lengur boðlegt í samfélaginu. Þetta er „woke“ gengið af göflunum. Hvers vegna fögnum við ekki fólki af öllum stærðum og gerðum, eins og samfélagið er að segja okkur, frekar en að varpa því fyrir róða?“
Fyrst goðsagnakennd hljómsveit eins og Queen er ekki hafin yfir ritskoðun, nú eða tónskóðun, af þessu tagi hljóta fleiri að vera farnir að skjálfa á beinunum. Þeirra á meðal hafnfirska gleðisveitin Kátir piltar en þeirra frægasta og vinsælasta lag heitir einmitt Feitar konur.
Það á í öllu falli ekki breik á Yoto.
Komust inn bakdyramegin
Hvort húsbændum hjá Yoto er það ljóst eður ei þá eru breiðbotna stúlkurnar, sem þeim er svo uppsigað við, þrátt fyrir allt um borð á Greatest Hits, annó 2023, en þeirra er getið í öðru lagi, einmitt upprunalega af Jazz líka, Bicycle Race. Þar er mikil hjólreiðakeppni í gangi og „fat bottomed girls, they’ll be riding today“, eins og þar stendur. Lag og texti eru þó ekki eftir Brian May heldur Freddie Mercury, þannig að þeir félagar kallast þarna á með skondnum hætti. Enda komu lögin tvö út saman á smáskífu.
Queenliðar hafa greinilega mikið verið að velta nekt fyrir sér á þessum tíma en nakið fólk sést hjóla sér til yndis og heilsubótar í myndbandinu við Bicycle Race. Sé farið inn á YouTube til að horfa á lagið er maður sérstaklega varaður við þeim ósköpum. En þó boðið upp á að halda áfram.