Sjómaður Ingólfur Kristmundsson hér með skiltið af Ægi sem nú heitir Oceanus V. Fjöl þessi er gripur sem í afar dýru gildi verður hafður.
Sjómaður Ingólfur Kristmundsson hér með skiltið af Ægi sem nú heitir Oceanus V. Fjöl þessi er gripur sem í afar dýru gildi verður hafður. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Skiltið hefur tilfinningagildi, því Ægir var mitt eftirlætisskip,“ segir Ingólfur Kristmundsson. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í vikunni liggur gamla varðskipið Ægir, sem nú heitir Oceanus V., við Skarfabakka í Sundahöfn í Reykjavík og verður dregið yfir höf til Grikklands á næstu dögum. Systurskip Ægis, Týr, fór utan í byrjun líðandi viku undir nýju nafni; Poseidon V.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Skiltið hefur tilfinningagildi, því Ægir var mitt eftirlætisskip,“ segir Ingólfur Kristmundsson. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í vikunni liggur gamla varðskipið Ægir, sem nú heitir Oceanus V., við Skarfabakka í Sundahöfn í Reykjavík og verður dregið yfir höf til Grikklands á næstu dögum. Systurskip Ægis, Týr, fór utan í byrjun líðandi viku undir nýju nafni; Poseidon V.

Steytti á Selskeri

Ingólfur Kristmundsson var vélstjóri á skipum Landhelgigæslunnar frá júní 1971 fram á árið 1979. Átti þar eftirminnilegan tíma á ýmsum skipum og verkefnin voru fjölbreytt.

„Ég var mikið á Ægi og var um borð þegar skipið steytti á Selskeri í Húnaflóa í desember 1971. Var svo í áhöfn Ægis í tveimur þorskastríðum vegna útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 og 200 sjómílur. Einnig sinntu Ægismenn ýmsum verkefnum í tengslum við Vestmannaeyjagosið árið 1973. Mínar minningar tengdar þessu skipi eru því margar,“ segir Ingólfur, sem á síðustu vikum gerði sér stundum erindi niður í Sundahöfn til að fylgjast með undirbúningi að brottför Ægis. Komst þá í góð kynni við Grikkina sem voru að gera sjóklárt. Gat veitt þeim ýmsar upplýsingar um skipið og sagt sögu þess.

Svartagull að gjöf

„Grísku sjómennirnir skrúfuðu Ægisskiltið af skipinu og spurðu hvort ég vildi eiga gripinn. Já, hvort ég vildi,“ segir Ingólfur Kristmundsson og brosir. Þess má geta að hann er í hópi gamalla varðskipsmanna í Hollvinasamtökum Óðins og ver drjúgum tíma í viðhald og endurbætur á því skipi. Má þess geta að Grikkirnir sem fyrr er getið voru nú í vikunni að tappa smurolíu af Ægi gamla og gáfu Óðinsmönnum; alls 4.000 lítra af svartagulli.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson