Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Samkvæmt skráningu Fiskistofu hefur á yfirstandandi fiskveiðiári verið landað 6.683 tonnum af svokölluðum VS-afla. Þar af er rétt rúmur helmingur þorskur, eða tæp 3.556 tonn, og er það 62% aukning frá fyrra fiskveiðiári. Jafnframt eykst ýsuafli sem skráður er sem VS-afli um 51% í 2.171 tonn, en gullkarfi sem flokkaður er sem slíkur afli er kominn í 586 tonn sem er tæplega fjórföldun frá fiskveiðiárinu 2021/2022.
Leitað var til Fiskistofu í leit á skýringum þess að VS-afli virðist aukast eins hratt og raun ber vitni. Elín B. Ragnarsdóttir, sviðsstjóri veiðieftirlits hjá stofnuninni, segir ekki liggja fyrir nákvæma skýringu á þessari þróun og enn eigi eftir að greina betur stöðuna. Hins vegar eru vísbendingar um að dregið hafi úr brottkasti og kann að vera að það sé ástæða þess að magn VS-afla eykst.
Fiskistofa tók upp eftirlit með drónum árið 2021 og sást þá brottkast í 44,26% af eftirlitsflugi stofnunarinnar. Hlutfallið var síðan orðið 30,92% árið 2022. „Heilt yfir má telja að það hafi dregið úr brottkasti. Ástandið er engu að síður það að brottkast er greint í 20% flugferða það sem af er ári,“ segir Elín.
„Ef horft er á einstök veiðarfæri þá má sjá að það er hækkun í greindu brottkasti á handfæraveiðum en verulega hefur dregið úr brottkasti á grásleppunetum. Vera má að þar sé ástæðan sú að fáeinir grásleppubátar voru sviptir veiðileyfum vegna brottkasts. Þess má geta að Fiskistofa er að fá mun öflugri dróna með haustinu sem hefur lengra flugþol bæði í tíma og fjarlægð frá stjórntækjum,“ segir hún.
Hvað er VS-afli?
Um er að ræða afla sem skipstjóra er heimilt að ákveða að reiknist ekki til aflamarks skipsins og skrá þess í stað aflann sem VS-afla. Þessi heimild takmarkast við 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla og er hugsunin að þetta úrræði dragi úr brottkasti á afla sem viðkomandi fiskiskip hafi ekki veiðiheimildir fyrir.
Þegar aflanum er landað er hann boðinn upp og seldur á fiskmarkaði og fær útgerð skipsins 20% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar. Sá fiskmarkaður sem býður aflann upp sér síðan um að skila andvirði aflans í Verkefnasjóð sjávarútvegsins, að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið.
Áhrif aflaheimilda
Þrátt fyrir að VS-afli veiti aukinn sveigjanleika veldur mikil löndun á slíkum afla því að fiskur er veiddur umfram aflaheimildir og því umfram ráðgjöf vísindamanna um hámarksveiði. Á undanförnum rúmum áratug var VS-afli minnstur fiskveiðiárið 2017/2018 þegar hann nam tæplega 1.322 tonnum. Hafði þessi afli farið minnkandi um árabil eftir sérstak átaks um að draga úr sókn á stofna umfram ráðgjöf.
Síðustu ár hefur hins vegar afli sem skráður er sem VS-afli farið vaxandi og sérstaklega nú milli fiskveiðiára, eins og fyrr segir um heil 63% frá 2021/2022 til 2022/2023.
Á yfirstandandi fiskveiðiári voru gefnar út veiðiheimildir í gullkarfa sem voru 20% minni en árið á undan í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Sú ráðgjöf hefur sætt töluverðri gagnrýni skipstjórnarmanna og sjómanna sem telja að töluvert sé af karfa á miðunum. Sé það svo að skipin séu að fá meiri karfa í veiðarfærin en heimildir eru fyrir getur það útskýrt þessa miklu aukningu í gullkarfa sem skráður er sem VS-afli. Hægt verður að fylgjast með áreiðanleika þeirrar kenningar á næsta fiskveiðiári en ráðgjöf í tegundinni fyrir það ár er 62% hærri.
Á undanförnum árum hefur einnig orðið samdráttur í útgefnum veiðiheimildum í þorski og væri hægt að nýta sömu skýringu fyrir þá tegund og gullkarfa. Það er hins vegar erfiðara að yfirfæra það yfir á ýsuna en heimildir í ýsu jukust um 23% frá fiskveiðiárinu 2021/2022 til 2022/2023.
Lítil breyting á undirmáli
Ef litið er til undirmáls er lítil breyting milli ára og hefur 853 tonnum verið landað sem slíkum afla á fiskveiðiárinu, en mikill munur er milli tegunda. Hefur t.a.m. undirmálsafli gullkarfa aukist hlutfallslega mest eða 182%, sem eru þó ekki nema tæp 300 kíló. Þá hefur orðið 174% aukning í undirmáli í ýsu en 17% samdráttur í þorski og 465% samdráttur í ufsa.
Skylt er að koma með allan afla að landi og það hefur því verið talið æskilegt að koma til móts við þá sem fá smáfisk í veiðiferð með því að draga einungis helming af kvótanum af bátnum. Þetta er gert með því að skrá smærri fisk sem undirmálsafla. Þetta er talið liður í að vinna gegn brottkasti.