„Það er rosa hollt að hafa eitthvað annað en leiklistina og ég er að finna mig vel í smíðunum, í eldamennskunni og að viðhalda súrdeigsmóður. Ég er miðaldra á góðan hátt og nýt þess að fylgjast með börnunum vaxa úr grasi,“ segir kvikmyndaleikarinn Jóhannes Haukur.
„Það er rosa hollt að hafa eitthvað annað en leiklistina og ég er að finna mig vel í smíðunum, í eldamennskunni og að viðhalda súrdeigsmóður. Ég er miðaldra á góðan hátt og nýt þess að fylgjast með börnunum vaxa úr grasi,“ segir kvikmyndaleikarinn Jóhannes Haukur. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég er alveg búinn að gera þetta áður. Þannig að þrátt fyrir stress þá kemst ég í gegnum það. Ég brotna ekki.

Á svölunum hjá kvikmyndaleikaranum Jóhannesi Hauki Jóhannessyni er steikjandi hiti og ef ég vissi ekki að við værum í Reykjavík, gæti ég eins verið í mekka kvikmyndaiðnaðarins, Hollywood. Í heimi kvikmyndastjarna skín jú sólin allan ársins hring. Jóhannes, sem er dálítið sólbrenndur eftir íslenska sumarið, segist ekkert vera að sækjast eftir stjörnulífinu vestanhafs. Hann er sáttur við að búa í Laugardalnum með eiginkonu og börnum, og þótt hann dvelji oft erlendis í kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum, fær hann góð frí inn á milli. Hann var einmitt á leiðinni til Rómar að leika skylmingaþræl en Íslendingar fá að berja hann augum á hvíta tjaldinu í næstu viku í hrollvekjunni Kulda. Jóhannes lofar að þá muni vatnið renna milli skinns og hörunds áhorfenda.

Færeyskur í móðurætt

„Ég dýrka þetta veður sem við erum að fá hérna,“ segir Jóhannes og gefur blaðamanni kaffi og ískalt sódavatn. Hundurinn Hlynur liggur hjá okkur og hlerar samtalið, en við byrjum á upprunanum og færeyskum rótum.

„Mamma er færeysk, en fæddist hérna. Amma og afi komu hingað í síldina á sínum tíma þegar þau voru ung og hér áttu þau öll börnin sín. En svo skildu þau og amma fór eitthvað fram og tilbaka. Þegar ég var sjö ára hitti mamma færeyskan mann og við fluttum þangað, en hún var þá að elta ástina þó ég vissi ekkert af því. Ég fór bara með henni, en hún átti þá bara mig. Við bjuggum í Þórshöfn í þrjú ár,“ segir hann og segist tala ágæta færeysku þó hann sé orðinn ryðgaður.

„Ég fór þarna í fyrra með fjölskyldunni og mér gekk ágætlega að tjá mig,“ segir Jóhannes og segist eiga góðar minningar frá þessum þremur æskuárum í Færeyjum.

„Við mamma erum mjög náin og höfum alltaf verið. Mamma eignaðist svo dreng með þessum færeyska manni en flutti svo heim með okkur bræður.“

Varstu kominn með leiklistarbakteríuna sem barn?

„Ég hafði gaman af þykjustuleikjum og fór í leikrit í áttunda bekk og hafði gaman af því að grínast. En ég stefndi aldrei á þetta sem starf, enda gerði ég mér ekki grein fyrir því þá að það væri hægt að lifa af þessu. Ég hafði meiri áhuga á tónlistarframa og var í hljómsveit. Ég spilaði á gítar og tók þátt í Músíktilraunum. Bandið hét Joke, sem voru upphafsstafirnir í nöfnunum okkar. Við spiluðum aðallega „cover“-lög og náðum í raun aldrei að semja neitt heildstætt,“ segir Jóhannes og brosir.

Í leiklist með Góa

„Ég er að mestu leyti alinn upp í Hafnarfirði, bæði fyrir og eftir Færeyjar. Ég hafði einhverja óljósa hugmynd að ég vildi læra eitthvað listtengt og valdi tækniteiknun af því hún innihélt orðið teiknun. En þetta reyndist vera um þverskurð á þakköntum og þvílíku. Þetta var svo leiðinlegt og ég entist ekki í þessu,“ segir Jóhannes.

„Ég tók mér þá alveg hlé í tvö ár og fór að vinna hjá Færeyingunum í Rúmfatalagernum og átti góða tíma þar. En eftir það hunskaðist ég í Flensborg og fór á hagfræðibraut sem átti heldur ekkert vel við mig. Ég hef alltaf sótt í listræna hluti og söng í Flensborgarkórnum og kirkjukór Hafnarfjarðar. Ég tók þátt í söngkeppni framhaldsskólanna og lenti í öðru sæti en þetta var árið sem Sverrir Bergmann sigraði með laginu Án þín. Það átti enginn séns í hann þannig að ég var nú bara ánægður með annað sætið,“ segir Jóhannes og segist í kjölfarið hafa fengið símtal þar sem hann var beðinn um að hlaupa í skarðið og syngja í sýningunni Með fullri reisn.

„Þar hitti ég Góa, Guðjón Davíð, og átti skemmtilegt sumar að leika í sýningunni. Mér fannst þetta svo skemmtilegt og ég fékk greidd laun sem mér fannst stórmerkilegt. Gói sagði mér svo að hann væri að fara í inntökupróf í leiklist í Listaháskólanum sem ég vissi þá ekki einu sinni að væri til. Ég hafði óljósar hugmyndir um leikhús en ég fór í inntökuprófið með honum og við komumst báðir inn. Þetta átti rosalega vel við mig. Svo lærir maður þetta hægt og rólega og ég hef unnið við þetta síðan. Og nú eru liðin tuttugu ár.“

Súrdeigsgrunnur og tvö grill

Jóhannes útskrifaðist úr leiklistinni árið 2005, þá 25 ára gamall.

„Ég var mjög heppinn að fá strax hlutverk í atvinnuleikhúsi á meðan ég var enn í leiklistarnámi og við Gói fengum hlutverk í Grease sem gekk allan veturinn á öðru ári okkar í Listaháskólanum. Síðan var Hárið sett upp í Austurbæ árið þar á eftir og þar vorum við líka að leika. Magnús Geir, sem var þá tekinn við leikhúsinu fyrir norðan, fékk okkur Góa til að koma norður strax eftir útskrift og þar var ég í eitt ár sem var mikill skóli,“ segir Jóhannes og í þann mund pípir síminn hástöfum.

„Heyrðu, ég þarf að taka lokið af pottinum; ég er að baka brauð!“

Spurður hvort hann sé mikill bakari, svarar Jóhannes:

„Þegar maður er orðinn 43 ára fær maður sér kerru, háþrýstidælu og súrdeigsgrunn. Og tvö grill; kolagrill og gasgrill,“ segir hann og hlær.

Við snúum okkur aftur að ferlinum, en Jóhannes segist síðan hafa farið á samning hjá Þjóðleikhúsinu og síðar Borgarleikhúsinu.

„Mig vantaði svo sem aldrei vinnu. Ég var lengst af í Þjóðleikhúsinu og var þar til 2014 þegar vinnan erlendis fór að rúlla,“ segir hann.

Spurður um eftirminnilegasta sviðsverkið, svarar Jóhannes:

„Leikritið Englar alheimsins stendur upp úr, í leikstjórn Þorleifs Arnar. Einnig Gerpla í leikstjórn Baltasars. Þetta voru svo skapandi ferli, báðar þessar sýningar, fyrir okkur leikarana og það er svo nærandi þegar maður fær að setja sitt mark á verkið.“

Ævintýri lærisveins í Marokkó

Kvikmyndin Reykjavík-Rotterdam frá 2008 markar upphaf kvikmyndaferils Jóhannesar, en það er ekki fyrr en árið 2014 að Jóhannes hættir á leiksviði og snýr sér alfarið að kvikmyndaleik.

„Mér fannst ofboðslega gaman að leika í Reykjavík-Rotterdam,“ segir hann en Jóhannes lék í kjölfarið í sjónvarpsþáttunum Rétti, Pressunni 2, Ríkinu, gamanþættinum Marteini og síðar í kvikmyndinni Svartur á leik, svo eitthvað sé nefnt.

„Það var eftir Svartur á leik að ég fékk fyrst umboðsmann í útlöndum, en allar ráðningar erlendis fara í gegnum umboðsmann,“ segir Jóhannes og segir söguna af því hvernig það vildi til að hann fékk sér umboðsmann.

„Þorvaldur Davíð, sem lék líka í Svartur á leik, er þá að útskrifast úr Juilliard. Hann var kominn inn undir hjá umboðsskrifstofu í Bandaríkjunum og lætur þau fá eintak af þessari bíómynd. Þar er gæi sem heitir Matthew sem var þá að stofna sína eigin umboðsskrifstofu ásamt vini sínum sem líka heitir Matthew; eins konar Skapti og Skafti,“ segir hann og brosir.

„Þeir voru að leita að spennandi evrópskum leikurum og horfðu á þessa mynd, en Þorvaldur var þá frátekinn hjá sinni umboðsskrifstofu. Matthew hafði þá samband við mig og ég sló til. Þeir voru svo að græja einhverjar prufur en ég fékk ekkert hlutverk fyrr en eftir tvö ár, árið 2014. Þá fæ ég allt í einu símtal. Prufan var þá komin alla leið og ég fékk hlutverk hjá NBC í þættinum A.D. Kingdom and Empire, sem fjallar um lærisveina Jesú eftir krossfestingu. Mér var sagt að tökur myndu hefjast í Marokkó þremur vikum síðar. Leikárið hér heima var ekki byrjað og ég var ekki í neinni sýningu sem var að halda áfram, þannig að ég fékk ársleyfi og fór í þetta verkefni,“ segir Jóhannes sem lék þá Tómas, einn af lærisveinunum. Hann varð ekki fyrir vonbrigðum.

„Þetta var þvílíkt ævintýri!“

Ég brotna ekki

Leið þér eins og kvikmyndastjörnu?

„Já, aðeins. Það er alltaf góður aðbúnaður og aðstaða þegar maður er í svona verkefnum. Þarna vorum við öll saman á hóteli í eyðimörkinni í fjöllunum í Marokkó og náðum að kynnast rosalega vel. Ég hélt þá að þetta væri alltaf þannig en hef lært síðan að það er ekki svo. Það er bara svona ef tökur eru á afskekktum stöðum að allir verði rosa góðir vinir. Þegar maður er í tökum í London eða New York er maður ekki mikið að hitta fólk utan vinnutíma.“

Varstu stressaður í þessu fyrsta verkefni?

„Já, já! Umgjörðin og íburðurinn hræðir mann; snjóvélar og „green screen“ og alls konar. Ég heyrði setningu sem á vel við: Under pressure, you don’t rise to the occasion; you sink to the level of your training. Þannig að undir pressu kemur reynslan til góða og það bjargar mér að hafa staðið á sviði þúsund sinnum og að hafa leikið heima í bíómyndum. Ég er alveg búinn að gera þetta áður. Þannig að þrátt fyrir stress þá kemst ég í gegnum það. Ég brotna ekki,“ segir Jóhannes og segist hafa sjóast mikið síðan þá.

„Nú, tíu árum seinna, er ég kominn með mikla reynslu í sjónvarps- og kvikmyndaleik þannig að ég er ekkert nervös núna að mæta á ný sett úti í heimi. Það er bara ánægjulegt. Nú er ég er alltaf í nýjum löndum á nýjum vinnustöðum með nýju fólki,“ segir Jóhannes og segist oft eyða heilu kvöldunum á hótelherbergjum að læra línur. Hann segir þetta í raun ekki mikið glamúrlíf.

„Við hittumst kannski til að fara út að borða en svo eru allir farnir í sín herbergi með handritin sín.“

Konan er öryggisnetið

Eftir að hafa landað hlutverkinu í A.D. hjá NBC fór boltinn að rúlla og Matthew og Matthew fundu einnig umboðsmann fyrir Jóhannes í Bretlandi sem þeir hófu samstarf við.

„Ég fór til London í nokkra daga og úr varð samstarf við einn og hann græjaði strax prufur fyrir Game of Thrones. Lykilatriðið við að halda þessu áfram var að þora að biðja um áframhaldandi leyfi við Þjóðleikhúsið. Ég vildi gefa þessu séns og ég hefði aldrei þorað því ef konan mín væri ekki í góðri vinnu hjá Seðlabankanum og væri til í þetta. Ég vissi þá að ef það færi allt á versta veg og ég fengi ekkert að gera, að við værum samt alveg í lagi,“ segir Jóhannes, en kona hans er Rósa Björk Sveinsdóttir, hagfræðingur.

„Hún er litla öryggisnetið mitt,“ segir hann og hlær.

„En svona grínlaust þá gerði hún mér það alveg ljóst að hún myndi styðja mig á þessari vegferð og gæti séð um okkur ef þetta gengi ekki eftir í einhvern tíma. En svo bara gekk þetta ljómandi vel og hefur gengið síðan! Maður er óhræddari við að taka sénsa þegar einhver stendur með manni.“

Þegar Jóhannes fékk boð um að koma í prufu fyrir Game of Thrones voru fimm seríur búnar og þátturinn orðinn sá stærsti í sögu sjónvarps.

„Þetta var fyrir sjöttu seríu. Ég hafði ekki séð þetta en konan var að horfa,“ segir Jóhannes sem lék í tveimur þáttum í þessari seríu.

„Þetta var ekki stórt hlutverk en það sem ég tók eftir var að um leið og ég var kominn með Game of Thrones á ferilskrána fór ég að fá fleiri prufur. Oft vilja leikstjórar ekkert fá prufur frá öllum heldur skima yfir ferilskrá og velja úr. Þannig að eftir þetta voru miklu fleiri sem vildu sjá mig og því fékk ég fleiri tilboð. En í 90% tilfella fæ ég enn nei,“ segir Jóhannes og segist ekki kippa sér upp við höfnun.

„Ég er að fá þrjár, fjórar prufur á viku og er í raun hér heima að vinna við það. Ég tek upp kannski tíu prufur á mánuði og eiginlega undantekningarlaust fæ ég eitt tilboð upp úr einni þeirra. Ég lít ekki á þetta sem höfnun, það er enginn sem passar í öll hlutverk, ég bara passa ekki í allt,“ segir hann og stöðvar viðtalið um stund. Enn pípir síminn og Jóhannes þarf að hlaupa inn í eldhús að taka brauðið úr ofninum áður en það brennur.

Leik gjarnan óþokka

Jóhannes kemur að vörmu spori og heldur áfram að segja frá Game of Thrones-ævintýrinu.

„Tökurnar voru í Belfast á Írlandi. Ég hélt einmitt að þar myndu allir vera saman; ofboðslega góðir vinir. Ég man ég kom á hótelið og hitti þá Aidan Gillen sem lék þann sem var kallaður Littlefinger og heilsaði honum og spurði hvort allir væru að fara út að borða saman,“ segir hann og segir Aidan hafa orðið frekar undrandi á svip og svaraði því neitandi.

„Ég komst svo að því að þarna voru allir í sínu horni,“ segir hann og segist sjálfur ekki hafa vitað hversu stórt hlutverk sitt yrði því mikil leynd hvíldi yfir öllu.

„Ég leik þarna Lem Lemoncloak og ég mæti þar sem verið er að byggja kirkju. Þar hengi ég mann og kveiki í kirkjunni. Svo er ég eltur uppi og hengdur,“ segir Jóhannes og segist hafa haft þrjár vikur til að horfa á fyrstu fimm seríurnar fyrir hlutverk sitt.

Næst lék Jóhannes í kvikmyndinni Atomic Blonde á móti Charlize Theron, en hin íslenska Elísabet Ronaldsdóttir klippti myndina.

„Ég hafði gert prufu fyrir þessa mynd fyrir annað hlutverk en fékk ekki,“ segir Jóhannes sem endaði á að fá hlutverk þegar einn leikarinn datt óvænt út.

„Elísabet hefur ýtt mér að leikstjóranum, held ég. Hún sendi á mig skilaboð og spurði hvort ég gæti komið til Ungverjalands daginn eftir. Ég var laus og fór,“ segir hann og segist hafa leikið þar vondan Rússa.

„Ég leik gjarnan óþokka, en þó ekki bara,“ segir hann og brosir.

Gúmmíhúðuð bambussverð

Um það bil þegar heimsfaraldurinn skall á fékk Jóhannes hlutverk í Vikings sem voru teknir upp í Dublin. Jóhannes lék í tveimur seríum, árið 2020 og 2021.

„Það voru auðvitað ákveðin leiðindi vegna sóttvarnareglna; sóttkví og grímur. En það var líka gott að geta unnið í þessu ástandi sem var, enda mjög margir ekki svo lánsamir. Ég leik þar Ólaf digra Haraldsson Noregskonung, sem var uppi fyrir um þúsund árum. Þar var kannski stundum farið frjálslega með sögulegar staðreyndir, en þetta eru vel heppnaðir og skemmtilegir þættir sem hafa gengið feykivel á Netflix,“ segir Jóhannes sem lék einnig nýlega í lokaseríunni af Succession, þeim geysivinsæla bandaríska þætti.

„Ég var þar á kantinum og hafði ekkert mikið að segja þannig séð. Ég fylgdi þar Alexander Skarsgård og það var frábært að vera þarna og fylgjast með þessum leikurum sem ég hef horft á í þremur þáttaröðum,“ segir hann og segir þetta hafa verið afar góða reynslu.

Í dag er Jóhannes að leika í sjónvarpsseríu sem tekin er upp í Róm og heitir Those About to Die. Anthony Hopkins leikur þar keisara og er Jóhannes einn af skylmingaþrælunum.

„Þeir eru að smíða hringleikahús í stúdíói einmitt núna, þar sem tökur munu fara fram,“ segir Jóhannes og segist hafa æft skylmingar stíft síðan í mars. Hver sena er hönnuð líkt og dans.

„Ég er búinn að eyða ansi mörgum stundum í að æfa bardagasenurnar, en ég er þarna í þokkalega stóru hlutverki og verð í átta af tíu þáttum,“ segir hann og nefnir að leikstjórinn sé Roland Emmerich sem er þekktur fyrir stórslysa- og heimsendamyndir.

Jóhannes segir skylmingarnar ekki hættulegar.

„Við notum gúmmíhúðuð bambussverð en auðvitað gæti maður eitthvað meitt sig, en ekkert mikið. Það er aðallega mikið púl að læra þetta!“

Alvöru íslensk hrollvekja

Á föstudag, fyrsta september, verður kvikmyndin Kuldi frumsýnd og leikur Jóhannes þar eitt aðalhlutverka. Myndin er byggð á samnefndri bók Yrsu Sigurðardóttur.

„Það var ofboðslega gaman að leika í henni því ég hef ekki verið í mörgum íslenskum verkefnum þessi tíu ár sem ég hef verið úti,“ segir Jóhannes og segist hafa orðið glaður að fá tækifæri að leika í Kulda.

„Leikstjórinn Erlingur Thoroddsen er spennandi leikstjóri og mikill hrollvekjusérfræðingur. Ég held að við séum að sjá hér íslenska hrollvekju á nýjum skala í hans höndum,“ segir Jóhannes og segist njóta þess mjög að leika á íslensku.

Jóhannes leikur á móti dóttur sinni, Ólöfu Höllu, sem leikur dóttur hans í myndinni.

„Mér fannst það frábært! Henni fannst frábært að leika í bíómyndinni en ekki jafn gaman að vera með mér alla daga. Hún er fimmtán og mikil nánd við pabba sinn er ekki efst á blaði,“ segir hann kíminn.

„Hún hefur áhuga á leiklist og fór í þessa prufu og negldi hana bara, en hún frétti af þessu frá vinkonu sinni,“ segir Jóhannes og segist þá hafa hringt eitt símtal til að koma henni í prufu.

„Ég sagði henni að það væri enginn að fara að ráða hana í stóra bíómynd bara af því hún væri dóttir mín. Erlingur verður að ráða einhvern sem honum finnst passa í hlutverkið og því náðu mín ítök ekkert lengra en það að koma henni inn fyrir dyrnar. En þau voru ofboðslega hrifin af hennar frammistöðu eftir prufuna.“

Í Kulda eru sagðar tvær sögur sem gerast á ólíkum tímum og virðast alveg óskyldar.

„En svo byrja sögurnar að tengjast. Ég leik mann hjá Barnaverndarstofu sem er að rannsaka mál upptökuheimilis; eitt drengjaheimili. Hin sagan er svo um drengjaheimilið fyrir þrjátíu árum. Í einkalífinu er ég að ala upp dóttur mína sem er nýbúin að missa mömmu sína,“ segir Jóhannes og segir myndina alvöru hrollvekju.

„Tólf ára sonur minn leikur lítið hlutverk sem einn af drengjunum á drengjaheimilinu. Ég veit ekki hvort það sé endilega sniðugt að hann sjái myndina.“

Hollt að smíða og elda

Hvað er á döfinni?

„Ég klára þessa bandarísku þætti í nóvember og svo verður bara haldið áfram að senda mér prufur. Ég býst ekkert við að byrja á öðru verkefni fyrr en á næsta ári en það er fínt að fá frí yfir jólin. En vonandi verð ég svo í íslenskri sjónvarpsseríu á næsta ári sem er mjög spennandi. Þetta er íslensk saga sem talar inn í okkar samtíma,“ segir Jóhannes og segist ekki gefa meira upp um sinn.

Hvað gerir þú í frítímanum?

„Ég er þá mikið heima að sinna börnunum en ég á þrjú börn; það yngsta sjö ára. Annars hef ég undanfarið verið að læra að smíða og er búinn að smíða kofa. Þetta er mikil list og maður þarf að hafa þolinmæði. Það er rosa hollt að hafa eitthvað annað en leiklistina og ég er að finna mig vel í smíðunum, í eldamennskunni og að viðhalda súrdeigsmóður. Ég er miðaldra á góðan hátt og nýt þess að fylgjast með börnunum vaxa úr grasi.“

Þú ert ekkert á leiðinni til Hollywood?

„Nei, nei, ég hef engan áhuga því. Ég hef Laugardalinn og sólina hér.“

Hlynur byrjar að gelta og truflar viðtalið og kannski er það merki um að fara að hætta.

„Hann heldur að hann sé varðhundur! Konan er að koma heim,“ segir hann og við látum Hlyn eiga síðasta orðið. Eða geltið!

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir