Vel heppnuð „Þetta er mynd sem kvikmyndaunnendur ættu ekki að láta framhjá sér fara,“ segir um Þú verður ekki ein.
Vel heppnuð „Þetta er mynd sem kvikmyndaunnendur ættu ekki að láta framhjá sér fara,“ segir um Þú verður ekki ein.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bíó Paradís You Won't Be Alone / Þú verður ekki ein ★★★★· Leikstjórn: Goran Stolevski. Handrit: Goran Stolevski. Aðalleikarar: Noomi Rapace, Alice Englert, Anamaria Marinca og Sara Klimoska. Ástralía, Bretland og Serbía, 2023. 98 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Brátt fara laufin að gulna og haustið tekur við af sumrinu, þá er ekkert betra en að skella sér í bíó og fá sér popp og kók með lakkrísröri yfir góðri hryllingsmynd. Þú verður ekki ein er glæsileg frumraun leikstjórans Goran Stolevski að mynd í fullri lengd og er ein af tveimur hryllingsmyndum sem verið er að sýna í Bíó Paradís núna. Þú verður ekki ein er ekki endilega mjög týpísk hryllingsmynd heldur líkist frekar myndum frá framleiðslufyrirtækinu A24. Eflaust væri betra að flokka myndina sem hryllilega ævintýramynd eins og Grimmsævintýri ef Disney hefði ekki sykurhúðað sögurnar. Í þessari hægu en spennuþrungnu mynd gefur Stolevski þjóðsögu líf, en myndin segir frá ungri norn í fjallaþorpi í Makedóníu á 19. öld. Kvikmyndin var tekin upp í Slóvakíu þó hún eigi að gerast í Makedóníu en Stolevski fæddist og ólst upp í Norður-Makedóníu áður en hann flutti til Ástralíu sem unglingur.

Umhverfið í opnunaratriðinu tekur strax á móti áhorfendum. Þeir eru staddir í fortíðinni og það er greinilegt að hér er um að ræða óvenjulega mynd, breiðtjaldshlutfallið (e. aspect ratio) er til dæmis eitthvað sem undirrituð hefur ekki séð áður eða 1:1.44. Handhelda tökuvélin fylgir ketti sem tiplar á loppunum í náttúrunni en dettur svo fljótlega út úr rammanum og áhorfendur heyra aldeilis óargahljóð. Síðan tiplar kötturinn aftur inn í rammann eins og ekkert hafi í skorist. Áhorfendur átta sig seinna á því hvað gerðist í raun og veru.

Þjóðsagan um úlfætuna, eða gömlu vinnukonuna og nornina Mariu, er ekki einungis notuð til að aga börnin heldur trúa þorpsbúar raunverulega á hana. Hið yfirnáttúrulega er hluti af hinu hversdagslega lífi. Áhorfendur fylgja kettinum inn í fátæklegt hús og við tekur atriði þar sem nornin Maria stendur yfir aðalpersónunni okkar, Nevenu (Sara Klimoska), sem ungabarni, en það er frekar djarft að sýna skrímslið nánast í fyrstu senu í hryllingsmynd. Móðir Nevenu, Yoana (Kamka Tocinovski), grátbiður Mariu að drepa ekki barnið og gerir samning við Mariu um að hún geti fengið Nevenu þegar hún er orðin 16 ára (og ef lesandi kærir sig ekki um að láta spilla fyrir sér myndinni er best að sá hinn sami hætti að lesa núna). Maria samþykkir það og merkir barnið með því að skera úr því tunguna þannig að stúlkan geti ekki tjáð sig í töluðu máli. Kvikmyndin er því mjög sjónræn þar sem aðalpersónan er mállaus, en áhorfendur geta heyrt hugsanir hennar í gegnum sögumann, sem hefði betur mátt sleppa, þar sem þessar örfáu ljóðrænu línur hans bæta engu við söguna. Yoana elur Nevenu upp í heilögum helli sem nornin Maria á ekki að geta komist inn í. Nevena hefur sín 16 ár aldrei farið út eða hitt annað fólk fyrir utan móður sína og líkist frekar villidýri heldur en unglingi. Martröð móðurinnar rætist og Maria kemur og sækir Nevenu þegar hún verður 16 ára. Stúlkan er fyrst ánægð að komast út úr hellinum enda forvitin um lífið og lífverurnar fyrir utan. Nornin skilur ekki þennan áhuga hennar á manneskjunni og hefur annað í huga fyrir Nevenu. Maria klórar hana til blóðs og skyrpir á sárið blóði úr annarri lífveru og breytir Nevenu þannig í ódauðlega norn sem getur skipt um líkama við fórnarlömbin sín. Nornirnar eru þannig eins og Mystique (Jennifer Lawrence) í X-Men, því þær geta skipt um form. Nevena yfirgefur fljótt Mariu og fer sína eigin leið en hana langar að vita hvað það þýðir að vera manneskja og þekkja muninn á manneskju og skrímsli. Stolevski leyfir áhorfendum að velta fyrir sér hver er raunverulega illmenni. Eru það nornirnar eða þorpsbúarnir? Áhorfendur komast seinna að því að Maria er skrímsli sem þorpsbúarnir bjuggu til, afleiðing feðraveldisins. Fyrsta fórnarlambið er móðir sem Nevena drepur óvart með beittu nöglunum sínum. Noomi Rapace leikur móðurina en Rapace tekur svo við af leikkonunni Sara Klimoska og leikur Nevenu í líkama móðurinnar. Það er því engin aðalleikkona eða aðalleikari heldur bara aðalpersóna, Nevena. Í gegnum móðurina kynnist Nevena grimmd eitraðrar karlmennsku og þegar ofbeldi af hendi eiginmanns hennar verður henni um of, prófar Nevena að breyta sér í hund til þess að fylgjast með því úr fjarlægð hvernig karlmenn haga sér. Nevena byrjar sem fullorðin kona en klæðir sig alltaf í yngri og yngri líkama, það má því segja að myndin sé eins konar myrk uppvaxtarsaga nema í öfugri röð. Hún flakkar um líkama í von um að öðlast meiri skilning á manneskjunni, bæði því góða og slæma, og má færa rök fyrir því að myndin sé þannig eins konar samfélagskönnun. Hér er heldur ekki um að ræða karllægt eða kvenlægt sjónarhorn heldur eitthvað ómanneskjulegt, nánast dýrsleg athugun á hegðun manneskjunnar.

Þú verður ekki ein var heimsfrumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni á síðasta ári og hlaut þar góðar viðtökur. Það kemur ekki á óvart enda vel heppnuð og mannleg kvikmynd. Þrátt fyrir að viðfangsefnið sé hið yfirnáttúrulega dregur hún upp fallega mynd af því hvað það þýðir að vera manneskja. Þetta er mynd sem kvikmyndaunnendur ættu ekki að láta framhjá sér fara.