Prígosjín var Pútín nytsamur, en notagildið hafði dvínað

Það hefði verið heldur áhættulítið að spá því að Jevgení Prígosjín yrði ekki langlífur eftir misheppnaða uppreisnartilraun hans í Rússlandi fyrir tveimur mánuðum. Tíu manns voru um borð í einkaþotunni, sem hrapaði hálftíma eftir flugtak frá Sjeremetjevó-flugvelli í Moskvu á leið til Pétursborgar síðdegis á þriðjudag, þriggja manna áhöfn og sjö farþegar.

Prígosjín var á ferð ásamt sex samstarfsmönnum og voru tveir þeirra lykilmenn í Wagner-sveitunum, sem hann stýrði. Annar þeirra var Dmítrí Útkin, hernaðarlegur foringi sveitanna. Hinn hét Valerí Tsjekalov og sá um birgðamál og skipulag.

Útkin hafði verið í leyniþjónustu rússneska hersins, GRU, áður en hann gekk til liðs við málaliðasveitir Prígosjíns. Kallmerki hans í hernum var Wagner. Það nafn valdi hann út af því að Wagner var uppáhaldstónskáld Adolfs Hitlers. Útkin mun hafa borið ýmis húðflúr, sem báru vitni dálæti hans á Hitler og nasistum, þar á meðal SS-merki yfir öðru viðbeininu. Greinilega rétti maðurinn til að „afnasistavæða“ Úkraínu, svo vitnað sé í eina af meginástæðum Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta fyrir því að ráðast inn í landið.

Sagt er að líkið af Útkin hafi verið það eina, sem tilkvöddum liðsfélaga þeirra tókst að bera kennsl á. Lík hinna hafi verið svo brennd og illa útleikin að þeir voru óþekkjanlegir.

Prígosjín komst í álnir undir handarjaðri Pútíns í Pétursborg. Hann var smáglæpamaður og sat í fangelsi fyrir innbrot þegar Sovétríkin hrundu og hann var látinn laus. Fyrir Pútín og félaga hans í KGB var hrunið áfall, en fyrir Prígosjín opnuðust möguleikar, sem hann hefði aldrei haft ella.

Prígosjín byrjaði sem pulsusali, en var brátt farinn að reka sælkeraveitingastað og elda veislumat fyrir mektarmenn. Næst var hann farinn að elda ofan í herinn og þaðan var skammt í að reka sinn eigin her. Wagner-sveitinar hafa verið atkvæðamiklar í Afríku. Með því að beita þeim fyrir sig gátu ráðamenn í Kreml haft áhrif í álfunni og látið fremja sín myrkraverk, en þvegið hendur sínar af öllu saman.

Hlutverk Prígosjíns breyttist og hann komst í sviðsljósið þegar Wagner-sveitirnar fóru að láta að sér kveða í Úkraínu. Prígosjín náði árangri þar sem rússneski herinn hafði farið halloka. Hann beitti fyrir sig málaliðum, sem höfðu barist í Afríku og Sýrlandi, en í fremstu víglínu var liðsauki, sem hann fékk að sækja úr fangelsum Rússlands. Að hans eigin sögn féllu 20 þúsund liðsmenn Wagner-sveitanna í orrustunni um Bakmút einni saman.

Prígosjín barðist ekki bara í Úkraínu, hann gagnrýndi rússneska herinn og skipulag innrásarinnar harkalega og hafði þar greinilega frítt spil. Segja má að hann hafi verið kominn í bein átök við varnarmálaráðherra Rússlands og yfirmann rússneska heraflans. Þegar hann gerði uppreisnina ætluðu þeir að taka yfirráðin yfir Wagner-sveitunum úr höndum hans og færa þær undir yfirstjórn rússneska hersins. Við það gat Prígosjín ekki sætt sig.

Prígosjín var á leið með sveitir sínar til Moskvu þegar hann féllst skyndilega á að leggja niður vopn. Pútín hélt mikla ræðu um landráð, en nefndi þó hvergi Prígosjín á nafn. Skýrendur töldu að ræðunni væri frekar ætlað að koma í veg fyrir að forystumenn úr rússneska hernum, sem kynnu að vera á bandi Prígosjíns, hlypust undan merkjum, enda virtist Prígosjín áfram geta farið ferða sinna um Rússland að vild. Það kvarnaðist hins vegar úr veldi hans og slettist á ímyndina. Eitt dæmi er að hann hafi þurft að selja öll sín hlutabréf. Annað húsleit, sem gerð var hjá honum. Eftir hana voru birtar myndir af gullstöngum, reiðufé, haugum af skotfærum og hárkollusafni úr leitinni, eins og til að sýna að hetjan, sem réðst á yfirstéttina, hefði í raun verið siðspilltur auðmaður.

Um liðna helgi var Prígosjín á ferðinni í Afríku. Hann hafði verið í Líbíu, á Fílabeinsströndinni og síðast í Malí, sennilega til að tryggja ítök Wagner í Afríku, og á sunnudag birtist upptaka af honum á félagsmiðli frá ónefndum stað í álfunni. Foringjar úr Wagner hafa sagt að hann hafi verið kvaddur til Moskvu þangað sem hann fór með viðkomu í Damaskus til að ræða við fulltrúa rússneskra öryggisstofnana og ganga frá sínum málum.

Slík saga passar inn í samsæriskenningar um að einkaþotunni með Prígosjín innanborðs hafi verið grandað og Prígosjín hlotið sömu örlög og ýmsir pótintátar, sem hafa dottið út um glugga, fallið útbyrðis af snekkjum, fyrirfarið sér og sínum eða látið lífið með öðrum voveiflegum hætti eftir að innrásin var gerð í Úkraínu. Velta menn annars vegar fyrir sér hvort sprengja hafi verið um borð og hins vegar hvort henni hafi verið grandað með flugskeyti.

Dmítrí Peskov talsmaður Pútíns vísar vitaskuld öllu slíku á bug og segir að um sé að ræða dæmigerðan vestrænan áróður, sem sé einfaldlega tóm lygi. Þegar hann var spurður hvort Pútín yrði við jarðarförina var svarið: „Dagskrá forsetans er nokkuð þéttskipuð þessa dagana.“