Þrjátíu eininga diplómur og viðbótardiplómur sem boðið er upp á í íslenskum háskólum standast ekki kröfur samevrópsks hæfniramma og fást því oft ekki viðurkenndar til náms og starfa utan Íslands. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið vinnur að…

Þrjátíu eininga diplómur og viðbótardiplómur sem boðið er upp á í íslenskum háskólum standast ekki kröfur samevrópsks hæfniramma og fást því oft ekki viðurkenndar til náms og starfa utan Íslands. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið vinnur að lagabreytingu þess efnis að skilgreind námslok verði nú að lágmarki 60 ETCS-einingar í stað 30 ETCS-eininga eins og er nú. Áformin hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda.

Dæmi um diplómur af þessu tagi í Háskóla Íslands eru viðbótardiplómur í kennslufræði háskóla, opinberri stjórnsýslu, stjórnmálafræði, uppeldis- og menntunarfræði auk fleiri greina, einkum innan félagsvísindasviðs. „Til að núverandi framboð íslenskra háskóla á 30 ECTS diplómanámi fái auðveldlega viðurkenningu milli landa á evrópska háskólasvæðinu er mikilvægt að námið sé skilgreint og gæðavottað samkvæmt evrópskum stöðlum,“ segir í samráðsgátt.

Samhliða breytingunum er stefnt að því að mögulegt verði að nýta örnám sem leið til að koma til móts við þörf á styttra námsframboði á háskólastigi. Slíkt nám getur stutt og eflt starfstengt nám, nýst nemendum sem vilja bæta við sig þekkingu á nýju fagsviði, og verið leið til að auka sveigjanleika og fjölbreytni í námsframboði á háskólastigi. Örnám er í samráðsgátt sagt flaggskip Evrópusambandsins í sí- og endurmenntun á háskólastigi og er unnið að hnökralausu viðurkenningarferli þess á alþjóðavettvangi með breytingum á hæfnirömmum háskólastigsins í aðildarríkjum ESB og EHEA. veronika@mbl.is