Lengra Guðni Valur Guðnason ætlar sér lengra á næstu stórmótum og dreymir um að koma heim af heimsmeistaramóti með verðlaunapening.
Lengra Guðni Valur Guðnason ætlar sér lengra á næstu stórmótum og dreymir um að koma heim af heimsmeistaramóti með verðlaunapening. — Morgunblaðið/Óttar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Valur Guðnason, Íslandsmethafi í kringlukasti, náði sínum besta árangri á heimsmeistaramóti er hann varð í 22. sæti í greininni á HM í frjálsíþróttum í Búdapest í Ungverjalandi um síðustu helgi

Frjálsar

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Guðni Valur Guðnason, Íslandsmethafi í kringlukasti, náði sínum besta árangri á heimsmeistaramóti er hann varð í 22. sæti í greininni á HM í frjálsíþróttum í Búdapest í Ungverjalandi um síðustu helgi. Guðni kastaði lengst 62,28 metra, sem er hans lengsta kast á stórmóti.

Varð hann í ellefta sæti í sínum riðli í undanrásum og í 22. sæti alls. Þrátt fyrir betri árangur en áður á stórmótum, var Guðni ekki sérlega sáttur, þar sem hann setti stefnuna á að fara í úrslit.

„Þetta var ekkert sérstakt. Það var lítil tenging við kringluna og maður hitti ekki alveg á það. Fyrsta kastið var bara fyrsta kastið, það var frekar stíft og lélegt. Annað kastið var allt í lagi, en þá rann kringlan úr hendinni á mér. Það þriðja var svo mjög eðlilegt kast hjá mér. Það var ekkert sérstakt, þótt það hafi verið 62,20 metrar. Það er besti árangur Íslendings á stórmóti,“ útskýrði Guðni í samtali við Morgunblaðið.

Ekkert risakast í sumar

Hann bætti 31 árs gamalt Íslandsmet Vésteins Hafsteinssonar þegar hann kastaði 69,35 metra á Haustkastmóti ÍR í Laugardalnum árið 2020 og var hann því nokkuð frá sínum allra besta árangri.

„Þetta sumar hefur einkennst svolítið af því að ég hef ekki náð neinu risakasti. Þetta hefur alltaf verið bara allt í lagi. Þegar maður æfir vel verður maður mjög stöðugur. Nú þarf maður að ná öðru uppbyggingartímabili án meiðsla og þá hækkar vonandi meðaltalið um einn eða tvo metra,“ bætti Guðni við.

Guðni viðurkenndi að það væri smá sárabót að eiga besta kast Íslendings á stórmóti, þótt hann hefði viljað gera betur.

„Það er bara allt í lagi. Það er gaman að eiga það, þótt þetta sé aðeins undir pari. Þegar ég hef verið að kasta illa í sumar, hefur þetta verið talan sem ég hef verið að fá. Ef ég hefði náð mínu meðalkasti í sumar, hefði ég verið einhverjum sentímetrum frá því að komast í úrslit. Nú reynir maður að vera áfram stöðugur, en kasta lengra.“

Vill koma með skartgripi heim

Guðni, sem er 27 ára, var að keppa á sínu öðru heimsmeistaramóti. Hann er hvergi nærri hættur og dreymir um verðlaun á stærsta sviðinu, sem hann telur raunhæfan draum.

„Planið er að koma með einhverja skartgripi heim. Það er hálsmen sem maður fær og ég væri mikið til í eitt svoleiðis. Maður er byggður til að geta það, en maður þarf að halda sér meiðslalausum. Það skiptir máli að geta æft almennilega á uppbyggingartímabilinu. Það eru bein tengsl á milli þess og hversu langt maður getur kastað.

Óvissa með framhaldið

Ég er í besta formi sem ég hef verið í á ævinni, þótt lengdin sýni það ekki, en stöðuleikinn í köstunum sýnir það mjög vel. Meðtaltalið í topp tíu köstunum mínum er rétt um metra frá mínu besta kasti í ár,“ sagði Guðni.

Guðni viðurkenndi að ákveðin óvissa ríkti um næstu vikur og mánuði. Ekki er víst að hann keppi aftur það sem eftir lifir árs.

„Ég veit það ekki alveg. Ég keppi ekki endilega aftur á þessu ári. Það er í það minnsta ekkert planað. Það eru nýjar reglur hjá frjálsíþróttasambandinu að mót verða að koma inn 60 dögum áður en þau verða haldin. Það er svolítið erfitt að vera á Íslandi, því veðrið hérna er svo glatað. Það er erfitt að negla niður dag, því hann getur verið ómögulegur eftir tvo mánuði,“ sagði hann.

Ekkert hærra loft rugl

Margt frjálsíþróttafólk ferðast erlendis í æfingabúðir og eru hlauparar duglegir að fara í hlýrra og hærra loft, til að koma sér í sem best form.

„Það þýðir ekkert að fara í svona hærra loft rugl,“ svaraði Guðni kíminn. „Maður fer í æfingabúðir á milli jóla og nýárs í tvær eða þrjár vikur og svo aftur um páskana. Það eru tvennar æfingabúðir í rauninni, til að kasta vel og sjá kringluna fljúga. Það skiptir miklu máli að fá að venjast því, því það er ekki auðvelt á Íslandi. Hér heima er maður mest bara í neti og maður fær ekki oft tækifæri til að kasta innanhúss. Þá þarf maður að leita út,“ sagði Guðni. Hann vildi koma á framfæri þökkum til þjálfara sinna, sem ætla að aðstoða hann við að komast á næsta stig.

„Við vinnum vel saman, ég og Pétur [Guðmundsson] þjálfarinn minn og svo Óðinn [Björn Þorsteinsson] lyftingaþjálfarinn minn. Við erum að fara að leggja upp næsta tímabil og við viljum kasta lengra og verða betri.“

Svíinn Daniel Ståhl varð heimsmeistari með kast upp á 71,46 metra. Kastið var það síðasta í allri keppninni og er nýtt heimsmeistaramótsmet. Guðni fylgdist með afreki félaga síns úr stúkunni.

„Ég var í stúkunni og varð vitni að þessum sögulega árangri. Þetta var eiginlega ótrúlegt. Hann var ótrúlega svalur og hefur unnið mikið í því að geta gert nákvæmlega þetta. Vera með hugann og líkamann í toppstandi. Það hefði bara einn maður getað gert þetta og það var hann,“ sagði Guðni Valur.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson