Helgi Kjartan Sigurðsson fæddist 8. október 1967. Hann lést 6. ágúst 2023. Útför hans fór fram 18. ágúst 2023.

Það var mikil sorg að frétta að Helgi Kjartan, minn góði vinur og kollegi, væri látinn. Helgi Kjartan kom úr Njarðvík og við fundum tóninn báðir sem nýstúdentar utan af landi, í læknisfræði 1987. Okkar ár í deildinni eru full af góðum minningum þar sem Helgi Kjartan var hrókur alls fagnaðar hvar sem hann kom. Hann var með kímnigáfu yfir meðallagi og skapgóður með ólíkindum. Við fylgdumst að í deildinni og útskrifuðumst 1994 frá Háskóla Íslands. Við héldum góðu sambandi á kandídatsárunum þó að viðvera okkar í vinnu væri á sitthvoru sjúkrahúsinu í Reykjavík.

Helgi Kjartan var afburðakokkur og sælkeri. Þess fengum við vinir hans og skólafélagar, ásamt betri helmingum, að njóta.

Helgi Kjartan var ákveðinn og vissi hvað hann vildi. Hann hafði ákveðið að halda til framhaldsnáms í Noregi sem hann og gerði þegar hann fluttist búferlum til Stavanger, með eiginkonu sinni Birnu og syni Daða Frey, árið 1997. Hann hóf störf á bæklunarlækningadeild við Háskólasjúkrahúsið í Stavanger, en færði sig fljótlega yfir á meltingarfæraskurðdeild og urðu meltingarfæraskurðlækningar hans sérfræðigrein. Við unnum saman við Háskólasjúkrahúsið í Stavanger, báðir á meltingarfæraskurðdeild, frá 1999 til 2007, eða þar til hann og fjölskyldan fluttust heim til Íslands. Eftir að norska sérfræðileyfið var í höfn (2002) fékk Helgi Kjartan stöðu sérfræðings innan neðri meltingarfæra. Hann varði sína doktorsritgerð innan sama sviðs við Háskólann í Bergen (2008). Helgi Kjartan var dugnaðarforkur og fljótur að sjá lausnir á vandamálum. Vandamálin voru til að leysa þau. Það var gott að hafa hann til að ræða við þegar eitthvað bjátaði á. Þegar á móti blés var hans viðkvæði að „dauðu fiskarnir fylgja straumnum“. Helgi Kjartan var góður læknir, hann hafði handbragð sem var nákvæmt og fínt hvort sem það var við opnar eða kviðsjáraðgerðir. Hann var frábær alhliða skurðlæknir. Hann var sá fyrsti við Háskólasjúkrahúsið í Stavanger sem framkvæmdi kviðsjáraðgerð á ristli. Hann varð síðan annálaður fyrir sína færni við aðgerðir og meðferð gegn ristil- og endaþarmskrabbameini. Hann bar mikla umhyggju fyrir sjúklingum sem og samstarfsfólki sínu. Helgi Kjartan var elskaður og dáður af sínum sjúklingum og samstarfsfólki.

Það fór ekki framhjá neinum sem þekkti Helga Kjartan að hann var góður fjölskyldufaðir. Hann var stoltur af konu sinni Birnu og þeirra hjónabandi. Hann var mjög barngóður sem okkar börn fengu líka að kynnast. Hann var óendanlega stoltur og þótti mjög vænt um börnin sín, Daða Frey, Sóleyju Sif og Silju Dögg. Stoltur sagði hann frá og sýndi okkur vinum og samstarfsmönnum oft myndir af þeim þegar áföngum var náð eða eitthvað skemmtilegt hafði gerst.

Ég kveð þig núna, kæri vinur, með þakklæti fyrir samferðina, skemmtunina, lærdóminn og stuðninginn. Það eru forréttindi að hafa þekkt þig. Minningar um þig munu lifa hjá mér.

Kristinn Eiríksson.

Létt var yfir starfsfólki Handlæknastöðvarinnar í Glæsibæ þegar það kvaddist í byrjun júlí síðastliðins við upphaf sumarsfrís. Það var mikið reiðarslag þegar fregnir bárust fáum vikum síðar um að Helgi Kjartan hefði andast eftir skammvinn veikindi, og sporin í vinnuna að loknu fríi eru þung.

Helgi Kjartan hóf störf á Handlæknastöðinni í Glæsibæ fyrir áratug. Hann var mikill fengur fyrir stöðina enda afar fær skurðlæknir; vinnubrögðin skjót og fumlaus. En hann bjó yfir öðru og meira en verklegri færni. Sjúklingum sínum sinnti hann af alúð og nærgætni og einnig lét hann sig ávallt varða líðan og daglegt amstur samstarfsmanna. Hann geislaði af jákvæðni og gleði, hvort sem var innan eða utan vinnu, og hafði góð áhrif á alla í kringum sig. Stórt skarð er höggvið í raðir íslenskra skurðlækna.

Helgi Kjartan átti góða og samheldna fjölskyldu sem hann sagði okkur gjarnan frá. Oft fengum við að heyra sögur af ferðalögum þeirra og útivist enda höfðu þau alltaf eitthvað á prjónunum og brölluðu margt sem sumir láta sig aðeins dreyma um, svo sem næturgistingu á Vatnajökli eða heimsókn til Machu Picchu í Perú. Elsku Birna og fjölskylda, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum.

Helgi Kjartan var einstakur félagi og hans verður sárt saknað.

Fyrir hönd samstarfsfólks á Handlæknastöðinni í Glæsibæ,

Ragnar Ármannsson.