— Morgunblaðið/Eggert
Segðu mér frá nýju þáttunum þínum. Þeir heita Gerum betur með Gurrý og eru fræðslu- og skemmtiþættir. Hver þáttur hefur sitt viðfangsefni eins t.d. hreyfingu, mataræði og meltingu. Við vildum búa til þætti sem væru fræðandi, en á einfaldan og jákvæðan hátt

Segðu mér frá nýju þáttunum þínum.

Þeir heita Gerum betur með Gurrý og eru fræðslu- og skemmtiþættir. Hver þáttur hefur sitt viðfangsefni eins t.d. hreyfingu, mataræði og meltingu. Við vildum búa til þætti sem væru fræðandi, en á einfaldan og jákvæðan hátt. Við fengum til okkar sérfræðinga í hvern þátt og einnig sjö einstaklinga sem eru með okkur í gegnum alla þættina.

Hvaða fólk var valið í þáttinn?

Ég valdi fólk á öllum aldri, alveg frá 20 ára til 67 ára, sem áttu það sameiginlegt að hafa ekki verið að hreyfa sig. Við tókum mælingu hjá fólkinu en einblíndum ekki á vigtina. Þau fengu alls konar skemmtileg verkefni, eins og að finna holla matvöru og prófa að vera með blóðsykurmæli og fara í sjósund og kæla.

Hvernig var árangurinn eftir þessar átta vikur?

Ég vil ekki gefa of mikið upp en ég var sátt við árangurinn og þau líka. Við sáum alveg einhver kíló fjúka og mikla bætingu í styrk. Pabbi minn, 67 ára, var með í þættinum og bætti sig gríðarlega á þessum stutta tíma, en hann hafði ekki verið í líkamsrækt í tíu, fimmtán ár.

Nú eru haustátökin að fara í gang. Hvaða ráð gefurðu fólki?

Númer eitt, tvö og þrjú er að fara rólega af stað. Svo fer það auðvitað eftir því hvort þú hafir bara tekið þér smá hlé í sumar eða hvort þú sért að byrja eftir mörg ár. Þeir fyrrnefndu geta bara tekið upp þráðinn en hinir ættu að byrja á að fara bara tvisvar í viku í líkamsrækt og skuldbinda sig við það. Svo skiptir máli að finna hreyfingu sem manni finnst skemmtileg. Það á aldrei að pína sig. Besta ráðið ef þig langar alls ekki í ræktina er að fara samt og ákveða að vera bara stutt. Svo þegar maður er komin á staðinn, klárar maður yfirleitt æfinguna.

Hvað á fólk að gera sem hefur litla hreyfiþörf?

Fólk á að fræða sig og hugsa út í það hvaða afleiðingar það muni hafa ef það hreyfir sig ekkert. Afleiðingar af hreyfingarleysi geta verið mjög alvarlegar. Hreyfingin snýst ekki um að létta sig heldur um heilsuna til framtíðar.

Þættirnir Gerum betur með Gurrý eru á dagskrá á mánudagskvöldum á Stöð2.