Halldór Blöndal, fyrrverandi ráðherra og forseti Alþingis, fagnaði 85 ára afmæli í vikunni. Hann er afbragðs hagyrðingur og hefur í áratugi séð um hið vinsæla Vísnahorn í Morgunblaðinu en sonur hans Pétur, sömuleiðis mikill vísnaáhugamaður, hleypur í skarðið ef faðirinn forfallast.
„Ég byrjaði með Vísnaleik í Morgunblaðinu um miðjan áttunda áratuginn og hélt honum úti til 1989. Pétur sonur minn tók við keflinu 1995, fyrst með Vísnatorgi og síðan Vísnahorninu til 2013, en þá tók ég aftur við. Við feðgarnir höfum því haldið úti vísnaþætti í blaðinu í bráðum fjörutíu ár,“ segir Halldór.
„Vísnahornið er hluti af daglegu lífi mínu og hefur fært mér mikið því ég hef kynnst mörgum góðum mönnum í gegnum það. Það er alltaf verið að þakka mér fyrir Vísnahornið og í gegnum tíðina hefur oft verið ort sérstaklega fyrir það. Ég verð ekki var við annað en að mikill áhugi sé á vísum og ég tek eftir því að fólk gleðst ef tækifærisvísur eru ortar,“ segir Halldór.
Spurður um ljóða- og vísnaáhuga sinn segir hann: „Þegar ég fór lítill strákur í sveit í Litlu-Sandvík gaf faðir minn mér Illgresi eftir Örn Arnarson sem nesti. Þarna í sveitinni, innan við fermingu, orti ég eina af mínum fyrstu vísum. Þegar komið var fram í ágúst var heyjað niðri á Löngumýri. Ég færði fólkinu matinn á Jarpi og voru notaðir klyfberar en leiðin var fimm kílómetrar eða svo. Horfði ég þá oft á kjóann elta kríuna og ná af henni sílinu. Þá orti ég:
Sækir hún í hreiðrið björg.
Í hafið er langt að fara.
Fer í kjaftinn kjóans mörg
kræsing fuglsins snara.
Sú venja skapaðist á afmælisdegi mínum 24. ágúst að við krakkarnir í Sandvík riðum um Kaldaðarnes niður á Eyrarbakka, þar sem Ragnhildur frænka á Háteigi sló upp veislu í Húsinu. Einhverju sinni sáum við hvar kona baðaði sig í sólinni á Kálfhaga. Þá varð þessi vísa til:
Mér varð það á
er ég fór framhjá bænum
að líta upp og sjá.
Þar var lítill köttur sem sagði mjá.
Tóta Gests var fastur afmælisgestur og skemmti okkur með því að dansa við kústskaft og syngja.“
Áróður á kamrinum
Halldór átti farsælan stjórnmálaferil og þjóðmálaáhuga fékk hann snemma. Í sveitinni, þá unglingur, hellti hann sér í kosningabaráttu árið 1952 fyrir sinn mann, séra Bjarna Jónsson dómkirkjuprest og vígslubiskup, sem bauð sig fram til forseta en laut í lægra haldi fyrir Ásgeiri Ásgeirssyni.
„Litla-Sandvík var kjörstaður og við vinur minn Páll Lýðsson hengdum upp áróðursplakat: „Kjósið klerkinn. Kjósið séra Bjarna“. Faðir Páls, Lýður bóndi, skipaði okkur að taka plakatið niður því ekki mætti vera með áróður á kjörstað. Við snerum á karlinn því við hengdum áróðursplakatið innan á kamarsdyrnar. Þegar menn fóru á kamarinn þá blasti við þeim: „Kjósið klerkinn. Kjósið séra Bjarna“.“
Halldór lifði og hrærðist í bókmenntalegu umhverfi á skólaárum. „Ég naut þess í skóla, bæði í Laugarnesskólanum og Menntaskólanum á Akureyri, að með mér í bekk voru strákar og stelpur sem ortu og skrifuðu. Í Reykjavík voru það Ragnar Arnalds og Brynja Benediktsdóttir. Fyrir norðan vorum við Ari Jósefsson miklir vinir, einnig Hjörtur Pálsson og Heimir Steinsson. Að ógleymdum Guðmundi Arnfinnssyni sem orti þá strax listavel, en hann er með vísnagátuna á hverjum laugardegi í Vísnahorninu. Margir af mínum bestu vinum og kunningjum voru kommar og mjög lýrískir.“
Ari Jósefsson vinur Halldórs þótti mikið efni. Hann sendi frá sér eina ljóðabók, Nei. Hann var hálfþrítugur þegar hann féll fyrir borð á Gullfossi árið 1964 og drukknaði. Um þennan mikla vin sinn segir Halldór: „Ari var mjög heilsteyptur náungi, mjög róttækur og fór sínu fram. Það var í honum neikvæður andi, eins og sést á Nei, titli ljóðabókar hans. Við vorum mjög nánir. Það var hörmulegt hvernig hann dó.“
Eitt af höfuðskáldum Íslands á menntaskólaárum Halldórs var Davíð Stefánsson. Halldór bankaði upp á hjá honum einn daginn: „Ég kynnti mig og sagði: Ég heiti Halldór Blöndal, er í menntaskólanum og langar til að tala við þig. Hann bauð mér inn í stofu og gaf mér kók. Við sátum þar og spjölluðum saman drykklanga stund. Hann var sterkur persónuleiki og ekki annað hægt en að respektera hann. Davíð var einstakt skáld, bæði á bundið og óbundið mál. Léttleiki hans í ljóðum er mikill.“
Spurður um sitt uppáhaldsskáld segir Halldór: „Hannes Pétursson. Við heyrumst einu sinni, tvisvar á ári og hann hefur sent mér rit sem hann hefur gefið út. Mér finnst hann mikið skáld og heilsteyptur maður, hvort sem hann skrifar bundið mál eða óbundið. Í fyrstu bók hans er ljóð, Hjá fljótinu, sem sló í gegn. Við menntaskólakrakkarnir töluðum öll um hvað það væri gott ljóð.
Ég get ekki látið hjá líða að nefna Jóhannes úr Kötlum. Við Ari Jósefsson lásum hann mikið. Sjödægru kunnum við meira og minna utan að.“
Leiðréttingar frá Þorsteini
Halldór var mjög iðinn við að yrkja ferskeytlur og ljóð en orti ekki fyrstu limruna fyrr en á sextugsaldri og fer með hana:
Mér sýndist ég sjá þetta á henni
að svæfi þar piltungi hjá henni
svartur á hár.
Og svo leið hálft ár
og síðan kom annar eins frá henni.
Önnur limra, ein af þeim fyrstu sem hann orti, er um Ólaf Jóhannesson forsætisráðherra. „Þar naut ég aðstoðar Þorsteins Gylfasonar, vinar míns, sem leiðrétti mig ítrekað.
Ég byrjaði: Ólafur fæddist í Fljótum
Og Þorsteinn leiðrétti: Ólafur fór burt úr Fljótum.
Ég: Og forðum hér syðra skaut rótum.
Í flýti hér syðra skaut rótum, leiðrétti Þorsteinn.
Niðurlagið kom af sjálfu sér:
Í verðbólgudans
með sinn sjöunda sans,
hann svífur á afturfótum.
Halldór segist halda mikið upp á vísu sem hann orti um hrútinn Pjakk. „Á Holti í Þistilfirði var frægur hrútur sem hét Pjakkur, mikill verðlaunahrútur, og vinur minn og höfuðandstæðingur í pólitík um áratugi, Steingrímur J. Sigfússon er sem kunnugt er frá Gunnarsstöðum í Þistilfirði:
Var í Holti hrútur vænn
en hann er dauður.
Steingrímur er stundum grænn
og stundum rauður.
Halldór hefur ort um margt, líka lúpínuna. Í afmælisbrag til Sveins landgræðslustjóra 50 ára er þetta erindi:
Lúpínan á fótum frá
fer á millli landanna,
gul og rauð og græn og blá
hún gengur yfir sandana.
Hjá gráum steini gægist strá
og gróður allra handanna.
Eitt það fallegasta sem Halldór hefur ort er ljóð til konu hans, Kristrúnar Eymundsdóttur, og rétt er að enda á því. Kristrún lést árið 2018. Atli Heimir Sveinsson, tónskáld og vinur Halldórs, samdi lag við ljóðið og var það frumflutt á sextugsafmæli hennar.
Hið rauða blóm skaut rót við atlot þín.
Raunskyn mitt leystist upp í nýjan heim
– við fleygðum okkur fagnandi inn í vorið.
Ást mín er þroskuð eins og gamalt vín,
ilmar af sætleik, ber sinn hreina keim;
ég dreypi á því ögn – það léttir sporið.