Myllubakkaskóli Færanlegar kennslustofur, sem átti þegar að vera búið að taka í notkun, eru ekki tilbúnar og því hefur skólasetningu verið frestað.
Myllubakkaskóli Færanlegar kennslustofur, sem átti þegar að vera búið að taka í notkun, eru ekki tilbúnar og því hefur skólasetningu verið frestað. — Morgunblaðið/Eggert
Skólasetningu í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ seinkar vegna þess að færanlegar kennslustofur, sem átti þegar að vera búið að taka í notkun, eru ekki tilbúnar. Kennsla á unglingastigi verður skert um helming næstu vikurnar.

Skólasetningu í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ seinkar vegna þess að færanlegar kennslustofur, sem átti þegar að vera búið að taka í notkun, eru ekki tilbúnar. Kennsla á unglingastigi verður skert um helming næstu vikurnar.

Engin kennsla er í húsnæði tveggja stórra skóla í sveitarfélaginu, Myllubakkaskóla og Holtaskóla, út af framkvæmdum vegna myglu- og rakaskemmda í húsnæðunum.

„Við erum búin að vera með skólastarfið í þessum tveimur skólum dreift um bæinn. Það var tekin ákvörðun um það í vor að setja upp eins konar skólabúðir á gamla malarvellinum við Hringbraut,“ segir Helgi Arnarson, sviðsstjóri menntasviðs Reykjanesbæjar. Skólabúðirnar hafi átt að vera tilbúnar fyrir 21. ágúst en nokkrum dögum fyrr kom í ljós að lok framkvæmda myndu tefjast um 3-5 vikur.

„Myllubakkaskóli er í erfiðari aðstöðu til þess að mæta þessu óvænta. Börnin kæmu inn eftir þrjár vikur og í Holtaskóla eftir fimm vikur,“ segir Helgi og bætir við að út af þessu hafi þurft að breyta mikið til og þess vegna hafi þurft að seinka skólasetningunni.

„Við vorum búin að gera ráð fyrir því að þetta yrði tilbúið og vegna þessa þurfti að snúa öllu á hvolf. Vonandi verður þetta ekki lengri tími en þrjár vikur og það verður reynt að þrýsta á að það gangi eftir. Þetta kom okkur í opna skjöldu,“ segir Helgi.

Fá ekki lögbundna kennslu

Tvísetið verður í svokallaðri íþróttaakademíu þar sem nemendur á miðstigi verða á morgnana og nemendur á elsta stigi eftir hádegi. Unglingarnir verði þannig í skólanum klukkan 12-15, sem foreldrar hafa bent á að sé helmingur lögbundins náms.

Helgi segir beina kennslu verða tímabundið með þessum hætti en gert sé ráð fyrir því að eldri nemendur vinni verkefni heima fyrir hádegi. „Okkur er líka í lófa lagið að bæta þeim það upp síðar á skólaárinu,“ segir Helgi.

Enn sem komið er er börnum á elsta stigi ekki boðið upp á hádegismat, sem þau eiga rétt á. Helgi segir að skoðað verði hvort æskilegt verði að bjóða þeim upp á matinn áður en skólinn byrjar hjá þeim.

„Ég skil vel foreldra sem eru orðnir langþreyttir. Það eru samt allir að róa í sömu átt að mínu viti og að gera sitt allra besta. Það stendur ekki á sveitarfélaginu eða bæjaryfirvöldum að gera allt sem í þeirra valdi stendur. Það er frekar ástandið í þjóðfélaginu sem hægir á öllum framkvæmdum,“ segir Helgi. Hann segir aðdáunarvert hve lítil starfsmannavelta sé í skólanum þrátt fyrir hremmingarnar.

„Þetta reynir á kennara, stjórnendur, foreldra og nemendur. Ég vona að samstaðan haldi áfram að vera sú sem hún hefur verið. Að þó að fólk sé reitt og óánægt sýni það því skilning að það eru allir að gera sitt besta,“ segir Helgi.

Hann segir að foreldrar, nemendur og starfsfólk skólanna eigi þakkir skildar fyrir þolinmæðina.
anton@mbl.is.