Brotlending Rússnesk stjórnvöld segjast hafa fundið flugrita úr braki einkaþotu Jevgenís Prigósjíns stofnanda Wagner-málaliðahópsins.
Brotlending Rússnesk stjórnvöld segjast hafa fundið flugrita úr braki einkaþotu Jevgenís Prigósjíns stofnanda Wagner-málaliðahópsins. — AFP/Olga Maltseva
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rússnesk stjórnvöld segjast hafa fundið flugrita úr braki einkaþotu Jevgenís Prigósjíns stofnanda Wagner-málaliðahópsins. Þar að auki fundust tíu lík…

Rússnesk stjórnvöld segjast hafa fundið flugrita úr braki einkaþotu Jevgenís Prigósjíns stofnanda Wagner-málaliðahópsins. Þar að auki fundust tíu lík þar sem flugvélin fórst og er unnið að því að bera kennsl á þau með genarannsóknum. Þetta tilkynntu rússnesk stjórnvöld í gær. Flugritar eru upptökutæki í flugstjórnarklefum flugvéla, sem skrá ýmis atriði varðandi flug og taka upp hljóð og raddir flugmanna.

Prigósjín hefur verið talinn af síðan vél hans fórst. Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur heitið að rannsaka atvikið sem varð á miðvikudag, þegar einkaþota Prigósjín fórst á leiðinni frá St. Pétursborg til Moskvu, en tíu manns voru skráðir um borð í vélinni.

Fundur rússneskra stjórnvalda rennir stoðum undir að tíu manns hafi verið um borð í vélinni og leiðir líkur að því að Prigósjín hafi verið um borð í vélinni en andlát hans hefur ekki fengist staðfest.

Segja Pútín saklausan

Talsmenn stjórnvalda í Kreml sögðu í gær af og frá að Pútín hefði haft eitthvað með dauða Prigósjíns að gera en vangaveltur um slíkt væru settar fram af Vesturlöndum í áróðursskyni.

„Á Vesturlöndum er þetta allt saman sett fram í ákveðnum tilgangi. Það er helber lygi,“ sagði Dmitrí Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, á rafrænum blaðamannafundi í gær.

Hann neitaði að staðfesta endanlega að Prigósjín hefði verið á meðal farþega vélarinnar og sagði að enn væri beðið eftir niðurstöðum rannsókna.

„Það er margt enn óljóst í þessu máli. Við þurfum að fá ákveðin atriði staðfest og sú vinna stendur nú yfir.“

„Búnir að vera“

Málaliðahópurinn Wagner er búinn að vera, að mati Oleksís Resnikovs varnarmálaráðherra Úkraínu. „Það er enginn Wagner-hópur eftir, en fyrir ári voru þeir öflugur bardagahópur,“ sagði hann í samtali við þýska dagblaðið Welt am Sonntag í gær. „Þeir eru búnir að vera,“ sagði hann jafnframt.

Forseti Hvíta-Rússlands, Alexander Lúkasjenkó, sagðist í gær ekki trúa því að Pútín bæri ábyrgð á dauða Prigósjíns. Kvaðst hann telja það ólíkt Pútín að taka slíkar ákvarðanir í flýti.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti vottaði í gær aðstandendum þeirra sem fórust í flugslysinu í fyrradag samúð sína eftir að hafa ekki tjáð sig um flugslysið í yfir sólarhring. Hrósaði hann um leið Prigósjín og hét því að andlát hans yrði rannsakað. Hann nefndi þó að Prigósjín hefði gert mistök. „Hann fetaði erfiða braut og gerði alvarleg mistök á ævi sinni. En hann náði árangri, fyrir sjálfan sig og þegar ég bað hann um það,“ sagði Pútín.

Frá því að vélin hrapaði hafa verið háværar vangaveltur um hvað olli slysinu. Bandarískur embættismaður tjáði CBS-fréttastöðinni í gær að líklegasta orsök brotlendingarinnar væri sprenging um borð í vélinni. Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði þá að Bandaríkin væru enn að reyna að negla niður nákvæmlega hvað grandaði vélinni.