Sveinn Búason vandaði þingheimi ekki kveðjurnar árið 1923.
Sveinn Búason vandaði þingheimi ekki kveðjurnar árið 1923. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Svo er hann orðinn samdauna þessum kindum, sem þar eru fyrir, og fæstar hugsa um annað en fylla eigin kvið.

Pólitískur mórall (siðferði í þjóðmálum) er mjög ljelegur á landi hjer. Óvíst, hvort mikið hefir fram farið síðan á Sturlungatíð; og vart bót mælandi með því, að ei sje betra hjá öðrum þjóðum.“

Með þessum orðum hófst mikil eldmessa eftir Svein Búason sem birt var í Morgunblaðinu fyrir réttum hundrað árum, í lok ágúst 1923. Óhætt er að segja að höfundur setji sig þar í föðurlegar stellingar gagnvart þjóð sinni sem honum þykir eiga sitthvað ólært þegar kemur að góðum siðum og ekki seinna vænna en að taka hraustlega í hornin á henni.

Sveini þótti Íslendingar þess tíma hafa fullmikið álit á sjálfum sér; betra væri þó að það kæmi fram víðar en í ímynduninni einni saman. „Því ónóga kröfu gerir íslenska nýríkis-þjóðin þá til sín, ef hún nær ekki lengra en að líkjast státnum heimalningsstrák, sem þenur sig og þykist hverjum manni meiri – þangað til á hólminn er komið. En aðalágæti hverrar þjóðar er síst gorgeir; það er smámenskumerkið; – heldur hreinlyndi, drenglyndi og samúðar-hugmóður. En hann sjest ekki hjer síðan á dögum Jóns Sigurðssonar, einkum seinni árum hans; því lengi tók garpinn að gefa þjóðinni blæ af sjálfum sjer,“ hélt Sveinn áfram.

Hann tók að vísu ekki svo djúpt í árinni að þessu siðferði, sem menn ættu að sækjast eftir, hefði alls ekki brugðið fyrir hérna síðan en það yrði að verða fast ástand. „Því fremur sem þjóðin er smærri, vanmáttugri og veikari út á við og inn á við.“

Á Sveini var að skilja að skynlitlir menn og fáfræðingar væru ekki manna verstir, heldur bæri mest á „mórölskum“ skorti í landsmálum, hjá hinum hærri liðum þjóðfélagsins, það er embættismönnum, þingmönnum, framkvæmdastjórum og forystumönnum. „Þingmaður, sendiherra eða annar „herra“ er eyðir í bruðli og sendir landinu háan reikning, eins og oft hefir við borið, syndgar í þessa átt. Formanni opinbers fjelags, sem ferðast til dæmis með frú sína og son meðal góðbúanna að sumrinu, og þykist vera að starfa að almennum þörfum og setur svo landinu háan reikning, fer eins. Ráðherrann, sem siglir á konungs fund með frú og situr sig í færi að klóra út „orður“ fyrir sig og sína, er sama sortin.“

Fingralangir forstjórar

Hitt var svo kunnara, að sögn Sveins, en frá þyrfti að greina að þegar forstjórar fyrirtækja gerðust fingralangir í fé sjóða sinna þá gerðu þeir sig bara „fallit“ þegar að þeim væri gengið. „En byrja svo jafnharðan aftur undir nafni sonar síns, konu eða annara návina, og eru heiðraðir eins og ekkert hefði í skorist; og er alkunnugt að múgurinn gerir sig að hundum fyrir slíkum mönnum, ef þeir hafa einhver auraráð. Af þessu vita þeir, og ganga því á það lagið, jafnvel þeir, sem lagarefsing hafa hlotið fyrir óknytti sína, og sætt svo nefndum „ærumissi“, eru góðir og gildir sem fyr, ef þeir gátu stungið undan nægu til að berast á á eftir.“

Sé einhver hér orðinn ruglaður í ríminu skal rifjað upp að við erum stödd á því herrans ári 1923, í boði Tímavélar Sunnudagsblaðsins. Og það er Sveinn nokkur Búason sem lætur móðan mása.

„Og er hjer ábyrgðin falin á hinn marghöfðaða múg, sem enga hefir sjálfstæða sál, en hver eltir annan eins og fje í haga; og verður líklega að skella skuldinni á forustusauðina, þ. e. hina þroskuðu borgara, sem fyrir fjenu ganga. Hjer er svo nefndur lögmannalýður framarlega í flokki; löglesnir snápar, sem altaf eru til taks fyrir góðan „betaling“ að þóknast hvaða þrjót sem er. Hitt er alkunnugt, og loks viðurkent, þótt lítið sje við því gert, að embættismenn troða kunningjum sínum, vinum og jafnvel mætti segja kelturökkum í hinar og aðrar stöður, sem þeir oft og einatt eru ófærir upp að fylla.“

Í ljósi þess sem á undan er gengið kemur líklega ekki á óvart að okkar maður bar ekki mikið traust til þingheims. „Það ríkir sýktur andi í þingsölunum, svo þó að inn komi þangað við og við einn og einn maður í senn (sem mann ber að kalla), þá nýtur hann þar ekki nema ógeggjaðrar heilsu nema stutta stund. Svo er hann orðinn samdauna þessum kindum, sem þar eru fyrir, og fæstar hugsa um annað en fylla eigin kvið.“

Sveinn sagði vitran mann hafa bent á, að Íslendingar að væru „privat“ ærlegir en pólitískt óærlegir. „Jeg hygg þetta sje rjett, að er enn svo mikið einstæðings-derring og einstaklings-valdagirni, að auðsjeður er enn mjög mikill vanmáttur hjá þjóðinni eða einstaklingum hennar til að vinna „einn fyrir alla og allir fyrir einn“. Það væri vafalausa aldrei frekari þörf en nú fyrir fólkið að standa saman af alhug.“

Ný hugarfarsþroskun þjóðarinnar í heild eða öflug hreinsunaralda þurfti yfir að renna sem hertæki hug hvers manns, líkt og á seinni árum Jóns Sigurðssonar. „[Við] þurfum að verða þeir menn, að við getum staðið saman hver að annars velferð, þótt ekki á oss standi erlendar svipur, sem knýja oss saman í bráðina. (Og er þó síst laust við, að slíkar svipur standi á oss, þar sem útlendu markaðs-deilurnar eru). Við þurfum að finna það ákveðið og einlæglega, já, með eldlegum áhuga, að alt Ísland eða íslenska þjóðin öll er okkur því hærri og heilagri en hver einstaklingur, sem landið er stærra en augnabliks-umhverfið, eða þjóðin stærri en við sjálfir og nánustu vandamenn. Hver einstaklingur þarf að finna þetta með glóandi hugmóð í hjarta. Þegar sá dagur kemur, munu allar skrípa-stefnur og þjóðmálatrúðleikar undir lok líða.“

Ekki er margt um Svein Búason að finna í netheimum. Hann skrifaði að vísu tvær aðrar langar greinar í Morgunblaðið sumarið 1923 en síðan ekki söguna meir, ef marka má Tímarit.is. Einnig er ljóð eftir mann með sama nafni í Ársriti Nemendasambands Laugaskóla árið 1927. Allt annað andrúmsloft er í ljóðinu sem nefnist Vorvísur:

Nú hlær sól í heiði

hver hlíð og tún og bær,

nú anga blóm um engi,

nú eggja fjall og sær.

Og heyr, hvað vorið hjalar

við heita og rjóða kinn:

Kom, yrkjum allan dalinn

þú ungi vinur minn!

Sami maðurinn? Tja, segið þið mér. Mögulega var Sveinn Búason líka bara dulnefni. Það yrði fróðlegt að vita. Þeir lesendur sem búa yfir upplýsingum um téðan mann mega endilega senda línu á netfangið hér að ofan.

Höf.: Orri Páll Ormarsson