Sæll Óskar utan við Hrepphólakirkju sl. sunnudag í reiðbuxunum.
Sæll Óskar utan við Hrepphólakirkju sl. sunnudag í reiðbuxunum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta er orðin hefð, ég hef verið með hestamessur árlega frá því ég tók hér við fyrir níu árum,“ segir séra Óskar Óskarsson prestur í Hruna í Hrunamannahreppi, sem sl. sunnudag blés til hestamannamessu í blíðviðrinu

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Þetta er orðin hefð, ég hef verið með hestamessur árlega frá því ég tók hér við fyrir níu árum,“ segir séra Óskar Óskarsson prestur í Hruna í Hrunamannahreppi, sem sl. sunnudag blés til hestamannamessu í blíðviðrinu. „Þetta var á frídegi og allir í góðum gír og áður en við stigum í hnakk var boðið upp á staup. Á undan messu er alltaf hópreið og eftir messu er boðið upp á kaffi og meðlæti,“ segir Óskar og bætir við að fyrstu þrjú árin hafi hann verið með hestamessuna á Stóra-Núpi.

„Núna er hún annað hvert ár þar en hitt árið í Hrepphólum, eins og var á sunnudaginn. Við leggjum alltaf upp í reiðina héðan frá Hruna, förum yfir á Sólheimavaði, yfir hjá Hlíð og þegar við nálgumst Stóra-Núp, þá hafa menn verið að koma að úr öllum áttum úr sveitinni á hestum og slegist í hópinn. Í fyrra riðu um sjötíu manns í hlað til messunnar á Stóra-Núpi, en þá var slík blíða að ég endaði á að messa úti,“ segir Óskar og bætir við að eitt af því sem sé frábært við sveitasamfélagið sé að allir séu alltaf til í að gera eitthvað skemmtilegt og leggja eitthvað af mörkum.

„Ég elska fólkið í sóknarnefndinni, þegar ég fæ hugmynd þá er alltaf tekið vel í hana. Þau eru til í að baka ofan í hestamessufólkið og taka vel á móti því. Fólkið í sveitinni ber þetta sem sagt uppi. Eftir að við riðum yfir Stóru-Laxá á sunnudaginn og að Hlíð, þá biðu okkar fjölmargir Gnúpverjar þar og riðu með okkur að Hrepphólum. Þangað hafði auk þess komið fólk ríðandi af Skeiðunum, frá Syðra-Langholti og Birtingaholti. Alltaf bættist í hópinn og fólk á öllum aldri á hestum. Ég skellti hempunni yfir reiðgallann og messaði í hestaskónum,“ segir Óskar og hlær. „Ég hef gaman af þessu, og ef ég ætti ekki hesta og kæmi ekki sjálfur ríðandi til messunnar, þá væri þetta allt annað. Þetta þarf að vera þannig að presturinn taki fullan þátt og njóti þess.“

Kasta þá öllu frá mér

Óskar hefur líka verið með sauðfjármessu, en hún fór reyndar ekki fram í fjárhúsi. „Stemningin var svo góð meðal bænda þar að ég stakk upp á að næst færum við í fjós til að messa, vera með kúamessu. Vel var tekið í það og úr varð. Allir lestrar í sauðfjármessunni voru tengdir sauðfé, enda hægt að finna endalaust efni í Biblíunni sem á vel við, nægir að nefna góða hirðinn og lamb Guðs. Sama gildir um kúamessuna, heilmikið er sagt frá mjólk, nautum og uxum í Biblíunni. Bæði í kúamessunni og sauðfjármessunni fékk ég menn úr sveitinni til að segja reynslusögur af sauðfé og kúm. Það var mjög skemmtilegt og fulltrúar nautgriparæktunarfélaga voru með innlegg. Að blanda þessu saman er ótrúlega gaman og allir svo til í þetta.“

Auk hesta er Óskar með 120 kindur í Hruna og hann segist nú skilja smalann í Biblíunni sem skilur eftir 99 sauði til að leita þess eina sem vantar.

„Ég mundi aldrei nenna að labba að Galtafelli nokkrum sinnum hvert haust til að leita kinda sem mig vantar, nema af því ég er þá með veika von um að finna kind, og þá kastar maður öllu öðru frá sér. Ég verð friðlaus þar til ég finn þá kind sem vantar. Þetta skildi ég ekki fyrr en ég flutti hingað í Hruna og hóf fjárbúskap. Ég vildi ekki hafa misst af því í lífinu að verða sauðfjárbóndi, við það urðu þáttaskil í lífi mínu,“ segir Óskar og bætir við að tengingin við náttúruna skipti ofboðslega miklu máli. „Ef fólk hefur ekki þessa tengingu held ég að það sé meiri hætta á kulnun, örmögnun. Ég finn vel í mínu starfi hvað það er gott að blanda þessu saman, til dæmis á veturna eftir langan og strembinn dag í prestsstarfinu, þá veit ég ekkert betra en fara í fjárhúsið og gefa. Þar verður algjör núllstilling.“

Í fyrsta sinn á fjall í haust

Þegar Óskar er spurður hvernig gangi að sameina prestsstarfið og starf bóndans segir hann að á annatímum, til dæmis á vorin þegar brjálað er að gera í sauðburði og próf í skólanum hjá Unu konu hans, þá þurfi hann að vera meðvitaður um að búskaparbröltið sé hliðarvinnan hans.

„Það getur verið erfitt. Ef margir deyja til dæmis á vorin, þá fer allt í hönk hjá mér í sauðburðinum, því yfir honum þarf að vaka dag og nótt. Við hjónin höfum þó náð að skipuleggja þetta býsna vel saman, þetta hefur blessast, en stundum alveg á nippinu.“

Óskar segir að sér finnist mikilvægt að færa kirkjuna nær fólkinu. „Ég bý við þau forréttindi að það er mikill velvilji hér í sveitinni í garð kirkjunnar. Mér og kirkjukórnum finnst spennandi að brjóta aðeins upp og fara út, og fólkinu líka, því þá er búið að lækka aðeins þröskuldinn á milli. Sem betur fer hefur margt breyst hjá kirkjunni undanfarin ár og prestar eru ekki lengur heilagir embættismenn á stalli. Nú eru alls konar messur í boði víða, til dæmis spennandi þemamessur, skógarmessa og valsamessa. Sveitaprestar hafa í gegnum tíðina samlagast samfélagi sínu og voru að predika á sléttunum, eins og sagt er. Ég er gæfusamur að fá að þjóna hér í Hruna og hvað sveitungarnir hafa tekið mér vel. Ég hef stungið upp á að kirkjukórinn syngi til dæmis messu með lögunum hans Magga Eiríks, því það er gaman fyrir mig, kórinn og kirkjugesti. Þetta verða allt öðruvísi messur en venjulega af því að kórfélagar eru spenntir að syngja nýtt og fólkið sem kemur upplifir það sterkt. Ég hef á síðustu árum hvatt organistann til að gera sem oftast eitthvað skemmtilegt með kórnum, því það er svo auðvelt að vera alveg passívur prestur og láta organistann senda sálmanúmer í sms-skilaboðum, en þá er ekkert samtal um neitt eða grúsk. Ef maður hættir að nenna að hafa gaman í prestsstarfinu, þá á maður bara að hætta,“ segir Óskar, sem ætlar í fyrsta sinn á fjall með Hrunamönnum nú í haust.

„Ég hlakka mikið til þessarar vikulöngu fjallferðar þar sem Hrunamenn smala sínu fé til rétta. Göngur og leitir og réttardagurinn eru miðjan hér í samfélaginu, fólk er strax farið að velta fyrir sér hvernig muni viðra á fjallmenn. Réttardagurinn er hátíðisdagur, hvort sem fólk heldur sauðfé eða ekki.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir