Hörður Vilberg
hordur@mbl.is
Það fer ekki mörgum sögum af því hvernig laxveiðin gengur fyrir sig þessa dagana. Þeir sem sækja vötnin heim eru með Veiðikortið, sem er mjög hagkvæmur kostur og hefur opnað veiðimönnum veiðilendur út um land allt og sífellt fleiri sem reyna sig við vatnaveiði eins og meðfylgjandi mynd er til vitnis um. Veiðimaður sem fór með ungum frænda sínum á bakka Elliðavatns uppgötvaði á ný töfra vatnaveiðinnar enda landaði sá ungi glæsilegum urriða í túngarði Reykjavíkur.
Sumir hafa veitt lengur en aðrir. Pétur Pétursson, sem alinn er upp í Laxárdal við Laxá í Aðaldal, hefur veitt í um sex áratugi. Auk þess hefur hann sagt fjölmörgum veiðimönnum til og fróðari veiðimenn er vart að finna.
Í aldarfjórðung hefur hann einnig veitt veiðimönnum leiðsögn, aðallega í Laxá, Selá og Hofsá í Vopnafirði. „Ég er búinn að landa fleiri stórlöxum en nokkur annar,“ segir Pétur, sem er þó hógværðin uppmáluð. Mörkin við stórlax eru miðuð við 30 pund en ekki 20 eins og tíðkast í dag. Pétur hefur ákveðna aðferð við veiðarnar sem dylst engum. „Ég veiði yfirlitt miklu hraðar.“ Minningarnar sem eru Pétri ofarlega í huga eru margar og hann getur ekki gert einni hærra undir höfði en annarri.
„Menn kunna ekki að ganga um íslenska náttúru í dag,“ segir hann og er ekki að skafa utan því. „Ég held að mesta slys sem hefur orðið í íslenskum laxveiðiám sé að veiða og sleppa – en það er bara mín skoðun.“ Fjölgun stanga og aukinn veiðitími hefur reynst skaðlegur að hans mati. „Þetta er allt of mikið álag. Ég er alinn upp við allt annan hugsunarhátt en er í dag. Faðir okkar bannaði okkur að veiða á hrygningarstöðvunum að hausti. Ef það var gert var veiðistöngin gerð upptæk.“
Vikulegar veiðitölur Landssambands veiðifélaga vekja með sumum hroll á sumum ársvæðum en víða um landið una konur og menn sátt við sitt. Til dæmis í Haffjarðará þar sem vekur athygli að veiði sumarsins er aðeins um hundrað löxum undir veiði síðasta sumars um þessar mundir. Vatnsleysi hefur leikið ýmsar veiðiár grátt og laxar jafnvel farnir að fljóta upp örendir vegna mikils vatnshita. En haustið er fram undan þar sem ævintýrin eiga sér oft stað.