Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún Hafsteinsdóttir
Markmið mitt sem dómsmálaráðherra er að samræma löggjöf okkar í málaflokknum við nágrannalönd okkar.

Guðrún Hafsteinsdóttir

Í umræðu um útlendingamál og niðurfellingu þjónustu er þrálátum misskilningi og ranghermi haldið á lofti þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að koma staðreyndum á framfæri.

Fullyrt er í umræðunni að fólk sem getur ekki útvegað sér skilríki sé svipt þjónustu. Þetta er rangt. Ef ómögulegt er að útvega viðkomandi skilríki af ástæðum sem ekki er hægt að kenna viðkomandi einstaklingi um, þá er þjónusta ekki felld niður. Þjónusta er eingöngu felld niður hjá þeim sem ekki sýna neinn vilja til samstarfs við yfirvöld um að útvega ferðaskilríki.

Þá hefur verið fullyrt að skortur á gagnkvæmum samningum Íslands við erlend ríki komi á einhvern hátt í veg fyrir að hægt sé að útvega fólki skilríki. Hið rétta er að endurviðtökusamningar eru ekki forsenda þess að hægt sé að afla skilríkja. Það eina sem kemur í veg fyrir að útveguð séu skilríki er skortur á samvinnu viðkomandi einstaklings. Enginn sem er reiðubúinn til að vinna með yfirvöldum að lögmætri niðurstöðu og þar með brottför frá landinu er sviptur þjónustu. Eina fólkið sem svipt er þjónustu 30 dögum eftir endanlega synjun eru þau sem neita að hlíta löglegri ákvörðun stjórnvalda og vilja ekki vinna með yfirvöldum að lögmætri og réttri niðurstöðu sem er brottför frá landinu.

Markmið mitt sem dómsmálaráðherra er að samræma löggjöf okkar í málaflokknum við nágrannalönd okkar. Norðurlöndin eru öll með búsetuúrræði með takmörkunum sem og öll ríki sem standa að Schengen-samstarfinu. Í mörg ár hafa verið gerðar athugasemdir af hálfu Schengen að við skulum ekki hafa komið okkur upp sambærilegu úrræði.

Með lögum skal land byggja er fornt spakmæli og kjörorð íslensku lögreglunnar. Sem dómsmálaráðherra mun ég standa vörð um að öll þau sem eru á landinu á hverjum tíma fari að lögum. Það gildir einnig um einstaklinga sem hér eru í ólögmætri dvöl. Þeim ber að fara að lögum.

Höfundur er dómsmálaráðherra.

Höf.: Guðrún Hafsteinsdóttir