Eftirvæntingin fyrir síðari leik Breiðabliks við Struga í lokaumferð undankeppni Sambandsdeildar UEFA í knattspyrnu karla er gífurleg og ekki að ósekju. Blikar unnu fyrri leikinn á fimmtudag, 1:0 í Norður-Makedóníu, og komast í riðlakeppni í…

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Eftirvæntingin fyrir síðari leik Breiðabliks við Struga í lokaumferð undankeppni Sambandsdeildar UEFA í knattspyrnu karla er gífurleg og ekki að ósekju.

Blikar unnu fyrri leikinn á fimmtudag, 1:0 í Norður-Makedóníu, og komast í riðlakeppni í Evrópukeppni, fyrst karlaliða á Íslandi, vinni þeir einvígið samanlagt.

Eða svo að segja fyrsta karlaliðið. Strangt til tekið var Keflavík fyrsta íslenska knattspyrnuliðið til þess að taka þátt í riðlakeppni í Evrópukeppni, Intertoto-keppni UEFA.

Það gerði Keflavíkurliðið árin 1995 og 1996. Lið sem tóku þátt í Intertoto, sem var lögð af árið 2008, hófu þá keppni í riðlakeppni og kepptust um að vinna riðla sína með það fyrir augum að tryggja sér sæti í 2. umferð undankeppni UEFA-bikarsins, sem nú er þekktur sem Evrópudeildin.

Þetta á til að gleymast, ekki síst þar sem Intertoto-keppnin var svo lágt skrifuð og verkaði sem eins konar forkeppni fyrir undankeppni annarrar Evrópukeppni.

Langstærsti munurinn á þátttöku Keflavíkur í riðlakeppni og möguleika Breiðabliks á að afreka það, er hins vegar sá að til þess að komast í riðlakeppni Intertoto þurfti, með nokkurri einföldun, einungis að sækja um þátttöku og fá samþykki UEFA.

Því er síður en svo að heilsa í tilfelli Breiðabliks, sem hefur farið í gegnum hvert Evrópueinvígið á fætur öðru í sumar til þess að komast á þann stað sem liðið er núna. Án þess að gera lítið úr Keflavík þætti manni það því töluvert meira afrek hjá Blikum.