Varptími Maðurinn er pólitísk skepna.
Varptími Maðurinn er pólitísk skepna.
Pod Save America nefnast hlaðvarpsþættir sem áhugafólk um bandaríska pólitík gæti haft gagn af. Þáttunum stýra þrír fyrrverandi starfsmenn Hvíta hússins í forsetatíð Obama og fer þar fremstur Jon Favreau, aðalræðuhöfundur forsetans frá 2005 til 2013

Höskuldur Ólafsson

Pod Save America nefnast hlaðvarpsþættir sem áhugafólk um bandaríska pólitík gæti haft gagn af. Þáttunum stýra þrír fyrrverandi starfsmenn Hvíta hússins í forsetatíð Obama og fer þar fremstur Jon Favreau, aðalræðuhöfundur forsetans frá 2005 til 2013. Í þá stöðu var Favreau ráðinn aðeins 24 ára gamall. Geri aðrir betur. Eins og búast má við hallar pólitíska slagsíðan eilítið til vinstri en þó ekki lengra en svo að vera sirka hægra megin við miðju á íslenskan stjórnmálakvarða.

Systurþátturinn Pod Save the World er ekki svo galinn heldur en þar kafa þeir í heimsmálin tveir fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafar Obama, Tommy Vietor og Ben Rhodes.

Þriðji þátturinn undir þessari regnhlíf Pod Save America sem ég kemst ekki hjá að mæla með – enda sennilega sá áhugaverðasti – er Offline with Jon Favreau sem fókuserar á sítengda tilveru okkar við netið, snjallsímann og samfélagsmiðla með viðtölum við fjölmiðlafólk, fræðimenn og aðra spekúlanta.

Það var einmitt í þeim þætti fyrir fáeinum dögum sem ég heyrði í fyrsta skipti minnst á hugtakið „opinion fatique“ eða skoðanaþreytu sem er mig (og eflaust fleiri) lifandi að drepa.

Höf.: Höskuldur Ólafsson