Limra eftir Kristján Karlsson: „Andartak, ef ég hef tíma,“ sagði íslenskumaður í Lima. Það falaði hann stúlka, hún lá breidd uppá búlka eða bekk, ef þú kannt ekki að ríma. Hér er önnur limra eftir Kristján með athugasemdinni: Þarna er…

Limra eftir Kristján Karlsson:

„Andartak, ef ég hef tíma,“

sagði íslenskumaður í Lima.

Það falaði hann stúlka,

hún lá breidd uppá búlka

eða bekk, ef þú kannt ekki að ríma.

Hér er önnur limra eftir Kristján með athugasemdinni: Þarna er Vestfjörðum rétt lýst, þó að ég hafi ekki hugmynd um það:

Dimmt er vestur hjá Djúpi

og draugar á hvítum hjúpi

fara leið sína um allt.

Það er andskoti kalt.

Og ekkert gaman á Núpi.

Jón Arnljótsson skrifar: Heyrði einhvern hávaða í fjarska og taldi stafa frá nálægum (1 km+) vegi. Fór svo að velta fyrir mér hvort ég hefði stolið fyrstu hendingunni, það var eitthvað kunnuglegt við hana. Það er að vísu ekki svo, en hún kallast á við hendingu úr ljóði Þorbergs Þorsteinssonar um djöfulinn. Magnað ljóð sem ég kunni eitt sinn utanbókar, en ekki lengur:

Berst úr austri brak og gnýr,

bílar valda þessu.

Einn fer burtu, annar snýr

aftur heim frá messu.

Gunnar J. Straumland veltir vöngum:

Í heilanum má hugsanlega finna

hugsun sem er tær – og sitthvað fleira.

Ég vildi að ég vissi aðeins minna.

Ég vildi að ég skildi eitthvað meira.

Limra eftir Hólmfríði
Bjartmarsdóttur:

Fé skaltu fljótlega eyða

fjármunir valda mér leiða.

Bjóðist mér fé

ég barasta sé

skatta sem skylt er að greiða.

Af Gretti sterka eftir Hjálmar Freysteinsson:

Ungur var Grettir með gort

við glímur og hverskonar sport,

hann var ólmhuga og ör

hann var útlægur gjör,

það var allt fyrir Ritalínskort.

Fuglalimra eftir Pál Jónasson í Hlíð; Hjónasvipur:

Á Stapanum eitt sinn bjó álka

í ektastandi með fálka.

Hún elskaði valinn

sem var alveg hreint galinn,

og álkulegri en álka.