Lvív Kona minnist hér ástvinar í Lítsjakív-kirkjugarðinum í Lvív. Í gær var minningardagur um fallna hermenn.
Lvív Kona minnist hér ástvinar í Lítsjakív-kirkjugarðinum í Lvív. Í gær var minningardagur um fallna hermenn. — AFP/Yury Dyachyshyn
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Herforingjaráð Úkraínu sagði í gær að Úkraínuher hefði náð góðum árangri í Saporísja-héraði að undanförnu og að hersveitir Úkraínumanna væru nú í seilingarfjarlægð frá varnarlínum Rússa í héraðinu. Eru Úkraínumenn sagðir vilja nýta þessa „fótfestu“ í héraðinu til þess að stækka það svæði sem nú er á valdi þeirra norðan við borgina Tokmak.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Herforingjaráð Úkraínu sagði í gær að Úkraínuher hefði náð góðum árangri í Saporísja-héraði að undanförnu og að hersveitir Úkraínumanna væru nú í seilingarfjarlægð frá varnarlínum Rússa í héraðinu. Eru Úkraínumenn sagðir vilja nýta þessa „fótfestu“ í héraðinu til þess að stækka það svæði sem nú er á valdi þeirra norðan við borgina Tokmak.

Úkraínumenn beita stórskotaliði sínu óspart, bæði gegn fótgönguliði og stórskotaliði Rússa í héraðinu. Þá eru þeir einnig að þrýsta á varnarstöður Rússa sunnan við þorpið Robotyne, sem og í nágrenni við þorpið Verbove. Gervihnöttur á vegum bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA sem fylgist með því hvar eldar séu í heiminum sýndi í fyrradag óvenjulega elda í nágrenni við Verbove. Þeir loga á svæði þar sem Rússar hafa komið upp skotgröfum og skriðdrekavörnum.

Óstaðfestar fregnir hafa einnig borist síðustu daga um að Úkraínumenn séu að reyna að frelsa meira landsvæði sunnan við Dnípró-fljótið í Kerson-héraði, sem og í nágrenni við Bakhmút í Donetsk-héraði. Markmið þeirra er að neyða Rússa til þess að dreifa herliði sínu til þess að verjast áhlaupi Úkraínumanna.

Rússneski herbloggarinn Romanov, sem er með rúmlega 135.000 fylgjendur á samskiptamiðlinum Telegram, sagði í gær að ástandið nú væri „mjög hættulegt“ fyrir Rússa. Hann hafði það eftir rússneskum hermönnum að þeir teldu sig ekki hafa fengið nægan stuðning frá yfirmönnum sínum eða stórskotaliði til þess að halda varnarstöðum sínum. Var sú lýsing í takt við aðrar lýsingar rússneskra herbloggara síðustu daga, sem hafa lýst yfir þungum áhyggjum af stöðunni.

Úkraínumenn sögðust jafnframt í gær hafa náð að eyðileggja Predel-E ratsjárkerfi Rússa í Kerson-héraði en einn tilgangur þess var að fylgjast með umferð úkraínskra dróna á bæði sjó og í lofti. Rússar frumsýndu fyrst kerfið í júní á þessu ári, en áætlaður kostnaður við það var sagður um 200 milljónir bandaríkjadala, eða sem nemur tæpum 26,2 milljörðum íslenskra króna.

Prigósjín borinn til grafar

Jevgení Prigósjín, leiðtogi Wagner-málaliðahópsins, var borinn til grafar í gær í St. Pétursborg, samkvæmt tilkynningu frá fjölmiðlaveitu Wagner-hópsins. Sagði í tilkynningunni að útförin hefði verið „lokuð“ og að þeir sem vildu kveðja Prigósjín gætu heimsótt leiði hans í Porokhovskoje-kirkjugarðinum.

Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, hafði sagt fyrr um daginn að ekki væri gert ráð fyrir að Pútín yrði viðstaddur útförina. Hún væri alfarið í höndum fjölskyldu og vina Prigósjíns, sem lést þegar flugvél hans hrapaði fyrir viku á leiðinni frá St. Pétursborg til Moskvu.

Rússnesk stjórnvöld hafa vísað á bug öllum ásökunum um að þau beri ábyrgð á hrapi vélarinnar. Aðilar tengdir Wagner-liðum sökuðu Rússa í síðustu viku um að hafa skotið vélina niður. Bandarískir embættismenn sögðu hins vegar að líklega hefði sprengja verið um borð í vélinni, frekar en að loftvarnarkerfum hefði verið beitt til þess að granda henni.

Gagnrýndu ummæli páfa

Vatíkanið reyndi í gær að bera klæði á vopnin eftir að Úkraínumenn gagnrýndu Frans páfa harðlega fyrir ummæli hans um helgina. Páfinn ávarpaði þá kaþólsk ungmenni í St. Pétursborg og sagði þar m.a. að þau væru „börn hins mikla Rússlands, mikilla dýrlinga, konunga, Péturs mikla, Katrínar 2. og rússneskrar þjóðar með mikla menningu og mikla mannúð.“ Þá bæri þeim að gleyma aldrei þeirri arfleifð sem hin „mikla móðir Rússland“ hefði skilið eftir handa þeim.

Oleg Níkolenkó, talsmaður úkraínska utanríkisráðuneytisins, sagði í fyrradag að ummæli páfans hefðu verið mjög óheppileg og í anda þeirrar heimsvaldastefnu sem Kremlverjar hefðu notað til þess að réttlæta morð sín á þúsundum Úkraínumanna og eyðileggingu fjölda borga og þorpa í Úkraínu.

Matteo Bruni, talsmaður Páfagarðs, sagði í gær að ummæli páfa hefðu ekki verið hugsuð sem upphafning á heimsvaldastefnu eða stjórnmálamönnum, heldur sem hvatning til ungmennanna til að varðveita jákvæða þætti í hinum mikla menningararfi Rússlands.

Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns, fagnaði ummælum páfans hins vegar og sagði þau til marks um að hann væri vel að sér í sögu Rússlands.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson