Ásgeir Jónsson fæddist í Reykjavík 30. nóvember 1962. Hann lést 18. ágúst 2023.

Foreldrar hans eru Jón Friðriks Oddsson bifvélavirki, f. 27. september 1928, d. 20. apríl 1993, og Auður Svala Knudsen húsmóðir, f. 13. mars 1936.

Systkini Ásgeirs eru Jón Oddur. f. 4. febrúar 1955. Kona hans er Hrönn Guðný Gunnarsdóttir, f. 29. september 1957; Georg Hans, f. 22. október 1957. Kona hans er Liv F. Hertze, f. 30. janúar 1970; Erla Bjarney, f. 9. ágúst 1959. Maður hennar er Jón H. Hilmarsson, f. 2. ágúst 1961; Baldur Kristinn, f. 11. júlí 1960. Uppeldisbróðir systkinanna er Vilhjálmur Á. Kristjánsson, giftur Guðfinnu S. Bjarnadóttur.

Barnsmóðir Ásgeirs er Linda Emilía Karlsdóttir, f. 2. desember 1962, sjúkraliði og listmálari. Dætur þeirra eru: 1) Alma Rut, f. 24. mars 1982, heimavinnandi. Maður hennar er Hafsteinn Freyr Gunnarsson, f. 10. apríl 1983, húsasmiður. Börn þeirra: Viktor Máni, f. 8. september 2001, félagsráðgjafi, í sambúð með Ástu Rakel Birgisdóttur, f. 7. október 2001, læknanema. Sindri Steinn, f. 11. október 2004, nemi. Axel Freyr, f. 10. ágúst 2013, og Thelma Sól, f. 10. ágúst 2019. 2) Thelma Rún, f. 14. apríl 1984, hjúkrunarfræðingur, gift Gunnari Þór Aðalsteinssyni, f. 14. ágúst 1981, d. 3. júlí 2023. Börn þeirra: Linda, f. 28. október 2004, Almar Leo, f. 4. nóvember 2009, og Logi Mikael, f. 3. nóvember 2016.

Ásgeir ólst upp í Reykjavík, að mestu leyti í Árbæ og Efra-Breiðholti. Hann fór ungur að vinna og var sem strákur í sveit í Húnavatnssýslu og vann sem sendill á reiðhjóli hjá SÍS í Reykjavík. Þegar fyrirtækið Hekla setti upp nýtt hjólbarðaverkstæði hóf hann störf þar en faðir hans Jón Friðriks hafði umsjón með því verkstæði. Árið 1981 réð Geiri sig til starfa úti á landi á mulningsvél sem fyrirtækið Völur stóð að og starfaði hjá þeim ásamt bræðrum sínum í nokkur ár. Geiri tók meirapróf árið 1984 og hóf þá vinnu sem gröfumaður hjá Hagvirki og Háfelli. Hann setti á stofn eigin rekstur, Góðverk, árið 1988 þegar hann fjárfesti í nýrri skurðgröfu og sinnti gröfuþjónustu í Reykjavík og víðar. Geiri vann á Grænlandi um tíma á vegum Ístaks (permagreen) og í Færeyjum á vegum Articon. Um tíma bjó Geiri á Djúpavogi og vann þar hjá SG-vélum.

Ásgeir hóf sambúð á Frakkastíg 19 með æskuvinkonu sinni Lindu Emilíu og eru dætur þeirra þær Alma og Thelma. Barnabörnin eru orðin sjö talsins. Sambúð þeirra lauk en þau fylgdust að sem vinir alla tíð. Geiri var mikill ferðalangur og sótti oft mikið út á landsbyggðina, bæði til vinnu og sér til ánægju. Hann var vinmargur og mikill sögumaður, frásagnargleði var einn af helstu hæfileikum hans.

Síðustu ár bjó Geiri í húsi sínu á Bolungarvík en þurfti að flytja til Reykjavíkur aftur vegna heilsu sinnar.

Útför Ásgeirs fer fram í dag, 30. ágúst 2023, klukkan 13.

Elsku hjartans pabbi minn.

Ég heyri hlátur þinn, flissið sem kom stundum á undan þegar þér fannst eitthvað fyndið og það eru hlutir út um allt sem minna mig á þig.

Lögin þín óma í eyrum mér og ég græt, ég græt og græt.

Ég græt því ég tengi þau við þig, ykkur mömmu. Ég græt yfir ljósmyndum, sumar af þeim eru nefnilega miklu meira en bara myndir, þær eru sögur sem innihalda alls konar fallegar minningar. Ég græt en ég brosi um leið því það var svo gaman, allt með þér var gaman, allt hjá okkur var gaman.

Ég græt yfir lífinu sem var, er og gat orðið, ég græt vegna þess að ég sakna þín alveg ofboðslega sárt elsku elsku pabbi minn.

Þegar við fæðumst og mótumst sem manneskjur þá er ýmislegt sem einkennir okkur, við höfum öll hæfileika, áhuga á einhverju, persónuleika og fleira.

Það sem einkenndi þig var góðmennska, hjálpsemi, kærleikur og þörf fyrir að gefa af þér. Það hvernig þú settir ljós í líf fólks, gafst af þér bros og vinsemd.

Og öll þessi elska og ást, já ást er held ég besta orðið yfir þig og það sem einkenndi þig, það nær yfir þetta allt.

Ástin var þinn mesti og besti kostur, þitt mesta áhugamál og þinn mesti hæfileiki. Ég hugsa að flestir alveg frá því þú varst lítill strákur muni þig og þekki þig þannig, að þú hafir stráð einhverju fallegu inn í líf þeirra sem gerði það örlítið betra eða lét þeim líða örlítið betur.

Þú hefur nefnilega stráð svo mörgu fallegu inn í líf fólks úti um allt, dálítið svona eins og ef bóndi ætti einn poka og í honum væru öll hans bestu fræ, hann myndi síðan keyra út um allt land og strá þeim á alls konar staði til þess að fá fólk til þess að brosa og láta öllum líða betur.

En ástin var líka alls konar og stundum þá einfaldlega réðstu bara ekki við alla þessa ást sem þú áttir og hafðir innra með þér.

Þú vildir svo mikið gefa af þér, gefa öðrum, hjálpa öðrum og vera til staðar fyrir aðra.

Þú áttir erfitt með að bremsa og þá varð það þér því miður stundum að falli. Ég veit að of mikil ást á ekki að vera til en hún er til, hjá þér.

Þú gerðir meira fyrir aðra en flestir geta gert, þú hjálpaðir öðrum meira en nokkur ræður við og þú gafst meira af þér en þú réðir við sjálfur.

Ástin einkenndi í raun allt líf þitt, líf okkar og mömmu.

Ykkar ást er eilíf.

Ást er stórt, mikið og kröftugt orð sem nær yfir allt sem einkenndi þig, allt sem þú ert, varst og verður. Þannig ert þú í hjarta mínu, þannig mun ég minnast þín og þannig mun ég hugsa um þig.

Elsku elsku pabbi minn, takk fyrir alla þína ást, allar okkar fallegu stundir og lífið, líf okkar allra. Ég sendi þér alla mína ást, hún er sönn og falleg.

Sofðu á fegursta stað, í fegursta umhverfi, með frið í hjartanu og fullt af ást.

Megi guð umvefja þig og gefa þér allt það besta sem hann á og hefur.

Þín dóttir,

Alma Rut Ásgeirsdóttir.

Elsku afi.

Við minnumst þín af gleði, þú varst svo fyndinn og skemmtilegur.

Það verður tómlegt að fá þig ekki í heimsókn til okkar, en sem betur fer eigum við margar góðar minningar um þig. Hvíldu í friði og ró.

Láttu nú ljósið þitt,

loga við rúmið mitt,

hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesú mæti.

Amen.

Þín barnabörn,

Axel og Thelma.

Elsku Geiri minn er fallinn frá, lífsförunautur og besti vinur minn. Ég var bara 12 ára úti að hjóla þegar þú stoppaðir mig og fórst að spyrja um hjólið mitt, hvaða tegund þetta væri og hvort þetta væri gott hjól. Sjálfur varstu á vígalegu reiðhjóli með upphækkuðum gaffli sem lyfti stýrinu hærra. Mér fannst þetta töff hjól og sagði þér það. Fjórum árum seinna var ég á rúntinum með Baldri bróður þínum og Hörpu vinkonu okkar og Baldur þurfti að fara á Umferðarmiðstöðina að sækja bróður sinn úr sveitadvöl. Þá varst þú bróðirinn, strákurinn sem hafðir stoppað mig á hjólinu. Þú stóðst þarna í svörtum stígvélum og stórri úlpu. Þarna hófst alvöru vinátta okkar og ég var ekki hissa á að þú hefðir tekið eftir hjólinu mínu frekar en mér því þú varst með mótorhjóla- og bíladellu. Fyrsta skellinaðran þín var Honda og þú málaðir nafnið Emilía á bensíntankinn, svo þegar þú fékkst þér Susuki hjól gafstu mér Honduna þína. Það lýsir þér vel. Þegar þú tókst bílpróf keyptirðu þér vw bjöllu, amerísku útgáfuna, hún var fræg á götum borgarinnar á stærri dekkjum sem hækkaði hana upp að aftan, klædd hvítu loðnu skinni yfir sætin á sportlegum felgum. þannig voru bílarnir þínir, alltaf einhverju extra bætt við. Þegar þú fórst að vinna á Patreksfirði fór ég líka. Við bjuggum á verbúð og unnum í saltfiski hjá Odda. Á Patreksfirði breyttist vinátta okkar í ást. „Allt sem snertir þig á svo vel við mig, segir í laginu sem við „áttum saman“ og það var satt, þannig var það. Þegar við keyptum okkar fyrstu íbúð að Frakkastíg 19 settum við Golfinn þinn upp í íbúðarkaupin. Þú hafðir keypt þér hann glænýjan úr kassanum. Við bjuggum okkur til skjól á Frakkastíg og þessi litla kjallaraíbúð var höll í okkar augum. Stelpurnar okkar Alma Rut og Thelma Rún fæddust og voru stolt þitt og yndi. Handlagni þín kom vel í ljós þegar við fluttum á Langholtsveginn, þú teppalagðir allt í hólf og gólf, skiptir um glugga og málaðir. Allt varð að vera fínt og snyrtilegt því þannig vildirðu hafa allt í kringum þig. Árið sem Thelma okkar fæddist tókstu meiraprófið og varst hreykinn af því að hafa 3 stimpla í ökuskírteininu þínu, mótorhjóla-, fólksbíla- og meirapróf. Brauðstritið hófst og við fundum vel fyrir því, það kom kreppa og við flutt í raðhúsið okkar í Garðabæ. Það hallaði undan fæti hjá okkur og við slitum samvistum, því miður. Þú fjárfestir í gröfu og fyrirtækið þitt hét Góðverk, gröfuna þína nefndirðu Ósk eftir dóttur Nonna og Hrannar. Samband okkar varð aftur að vináttu og það var sterkt og rótfast en lífið er svo hverfult og nú lýkur okkar vináttu og ástarsögu. Það er erfitt og vont í hjartað, mjög vont. Það keyrði bíll framhjá húsinu mínu í gær merktur stórum stöfum Hekla, síminn minn hringdi þann 17. ágúst og það stóð stórum stöfum Geiri, ég hringdi til baka en ekkert svar, klukkan var 6.56. Ég sá þig í draumi og heyrði lag sem minnir mig á þig „There is no beginning there is no end“ og með þeim orðum kveð ég þig, elsku hjartans minn, við sjáumst síðar. Þín

Linda Emilía Karlsdóttir.

Ásgeir Jónsson föðurbróðir minn eða Geiri eins og hann var jafnan kallaður, frændi okkar og stórvinur, er fallinn frá og viljum við minnast hans með nokkrum vel völdum orðum. Ég ætla að vera honum Geira til sóma með skrifum mínum þar sem hann rýndi mikið í minningargreinar þegar hann fletti í gegnum blöðin, og spáði mikið í hvernig skrifað var um fólk. Snjalltæki og netið voru honum ekki að skapi og hélt hann sér upplýstum um líðandi stund með því að glugga í blöðin, horfa á sjónvarpsfréttir og hlusta á útvarpið.

Geiri hafði mjög gaman af því að hitta nýtt fólk og átti hann mjög auðvelt með að kynnast fólki og var yfirleitt búinn að ná fram einhvers konar tengingum innan örfárra mínútna þar sem hann spurði viðmælendur sína spjörunum úr. Hann hafði mikinn áhuga á ættfræði og var hann ekki bara að velta fyrir sér sinni eigin ætt heldur fræddist hann um og rakti ættir þeirra er tengdust böndum inn í hans ætt sem og vina og vandamanna. Geiri var mikill sögumaður og hafði hann stórskemmtilegan frásagnarstíl, þar sem sögurnar voru oft skreyttar aðeins, bara til að gera þær aðeins áhugaverðari. Hann var mikill flakkari og voru ferðalög innanlands ekki af skornum skammti hjá honum, hann munaði ekkert um að taka bíltúr þvert yfir landið til að heimsækja vini og vandamenn við veginn, var þá hringvegurinn oft tekinn og Vestfirðirnir líka.

Geiri hafði góða nærveru, var gjafmildur, örlátur og hafði gott hjartalag ásamt því að vera einstaklega umhyggjusamur og greiðvikinn. Hann var mikill mannvinur og hikaði ekki við að bjóða fram aðstoð og gerði það mikið fyrir hann að geta hjálpað öðrum, sem hann og gerði. Geiri var vinmargur og hafði sjarma sem hreif fólk, hann lét sér alveg sérstaklega annt um náungann.

Við Erla og dætur okkar erum þakklát fyrir þann tíma sem við fengum með Geira okkar allra. Hann var tíður gestur á okkar heimili og höfum við fengist við ótrúlega margt um okkar daga. Við frændurnir erum báðir miklir grúskarar og vorum við oft að skoða mál sem þurfti að rannsaka enn frekar eða kafa ofan í mál sem fæstir höfðu áhuga á, sem yfirleitt tengdist ættfræðigrúski. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt góðar stundir með honum í sumar þar sem teknir voru nokkrir bíltúrarnir í góðum félagsskap ættingja okkar á leið okkar að heimsækja fleiri ættingja.

Það er með miklum trega sem við Erla og stelpurnar okkar kveðjum hann Geira, stórvin okkar og frænda. Við þökkum fyrir góða vináttu og góðar samverustundir á liðnum árum og stelpurnar okkar minnast Geira frænda sem var alltaf svo góður.

Við kveðjum þig, vinur, í síðasta sinn

og söknuður hug okkar fyllir.

Nú minningar vakna um vinskap
og tryggð

er vorsólin tindana gyllir.

Nú þakkað skal allt sem við áttum með þér,

það ætíð mun hug okkar fylla.

Brátt sumarið kemur með sólskin og yl,

þá sólstafir leiðið þitt gylla.

(Aðalheiður Hallgrímsdóttir)

Jón Oddur Jónsson, Erla Sigríður Arnardóttir, Snædís María, Matthildur Aría og Emilía Hrönn
Jónsdætur.