Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Inkasso-Momentum, innleiddi nýjar áherslur.
Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Inkasso-Momentum, innleiddi nýjar áherslur. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Guðmundur var stjórnarmaður hjá Inkasso á vegum ALVA Capital, þá helsta hluthafa Inkasso, þegar honum bauðst að leiða félagið sem síðar sameinaðist félaginu Momentum. Áður var Guðmundur framkvæmdastjóri Heimkaupa og þekkir því vel til reksturs sem byggist á upplýsingatækni

Guðmundur var stjórnarmaður hjá Inkasso á vegum ALVA Capital, þá helsta hluthafa Inkasso, þegar honum bauðst að leiða félagið sem síðar sameinaðist félaginu Momentum. Áður var Guðmundur framkvæmdastjóri Heimkaupa og þekkir því vel til reksturs sem byggist á upplýsingatækni.

Hann áætlar aðspurður að sameinað félag muni velta rúmum hálfum milljarði króna í ár en félögin hafi sitt í hvoru lagi velt samtals 421 milljón í fyrra, eftir samdrátt í farsóttinni.

Guðmundur segir fyrirtækin tvö, Inkasso og Momentum, þannig hafa fundið vel fyrir farsóttinni, líkt og önnur innheimtufyrirtæki, en vanskil hafi þá dregist verulega saman. Lán hafi verið fryst og fyrirtæki fengið fyrirgreiðslu til að komast í gegnum erfiðasta kaflann. Auk þess hafi einstaklingar ekki haft mörg tækifæri til að nota peningana í annað en að greiða niður skuldir meðan á faraldrinum stóð.

Hamfarir í farsóttinni

„Það má segja að það hafi orðið ákveðnar hamfarir í innheimtubransanum í faraldrinum. Tekjur þessara fyrirtækja hrundu en fólk greiddi niður skuldir og vanskil voru í sögulegu lágmarki. Svo var þessi bransi svolítið gamaldags. Milliinnheimtan á að vera vinsamleg tilraun til að klára málin. Það er skrýtið að vera í bransa þar sem viðskiptavinirnir sem skapa tekjurnar vilja helst ekki heyra í þér,“ segir Guðmundur og útskýrir innheimtuferlið. Fyrst komi fruminnheimta en þá séu gefnir út reikningar og stofnaðar bankakröfur. Mörg fyrirtæki nýti sér þessa þjónustu Inkasso-Momentum. Ef bankakrafan er ekki greidd sé send innheimtuviðvörun og síðan taki við milliinnheimta en vel sé skilgreint í regluverki og lögum hvað felst í því skrefi. Að hámarki er um að ræða þrjú bréf og eitt símtal og tiltekið gjald má innheimta fyrir það. Ef milliinnheimta ber ekki árangur tekur svo við löginnheimta.

Alveg ný nálgun

– Innheimtufyrirtækin voru á tímabili sökuð um að ganga hart fram?

„Já, það er rétt, dæmi um slíkt rötuðu m.a. í fjölmiðla. Þegar ég tók við sem framkvæmdastjóri Inkasso var mitt fyrsta verk að mæla ánægju greiðenda sem er alveg ný nálgun – að minnsta kosti hér á landi. Þá er maður að spá í að vernda viðskiptasambönd án þess að það bitni á árangri við innheimtuna. Þeir sem fá bréf eða aðvörun eru alveg örugglega ekki að sækjast eftir því. Annaðhvort gleymdist eitthvað eða það er þröngt í búi. Markmið okkar er að skila þeim eins ánægðum og hægt er í gegnum ferlið án þess að það komi niður á heimtum og það er ögrandi og skemmtilegt verkefni.“

Gefur slagkraft

– Hvaða þátt átti farsóttin í sameiningunni?

„Stærra og öflugra félag gefur okkur meiri slagkraft, t.a.m. við þróun fjártæknilausna, og styrkir okkur í samkeppnislegu tilliti en samdráttur í tekjum vegna farsóttarinnar átti óneitanlega mjög stóran þátt í að ákveðið var að kýla á sameiningu Inkasso og Momentum. Eitthvað þurfti að gera. Nú eru vanskil reyndar að aukast á ný en það er nýtilkomið.“

– Eftir að vextir hækkuðu?

„Já. Það er tengt því en svo helst þetta í hendur við aukin umsvif í hagkerfinu eftir faraldurinn. Þar með talið í ferðaþjónustu, byggingargeiranum og þeirri staðreynd að nú getur fólk aftur farið að gera allt sem við gátum ekki gert meðan faraldurinn stóð yfir.“

Talsvert tæknivæddara

– Hvernig myndirðu lýsa fyrirtækjunum Inkasso og Momentum fyrir sameininguna?

„Það var mikill munur á fyrirtækjunum. Inkasso var talsvert tæknivæddara en Momentum kom með meiri reynslu að borðinu á öðrum sviðum. Við sáum tækifæri til að auka skilvirkni með nýrri tækni. Reksturinn er að þróast út í fjártækni. Við höfum verið að styrkja þá innviði og settum í því skyni upp teymi forritara í borginni Natal í Brasilíu. Til lengri tíma litið skapar það verðmæti fyrir alla.

Við fórum í stefnumótun og stóra breytingin þar var að gera upplifun greiðenda einn af okkar stærstu mælikvörðum á árangur. Þegar fyrirtækin eru í endurkvæmum viðskiptum, sem þau eru flest, þá skiptir langtímaviðskiptasambandið gríðarlega miklu máli og að kúnninn upplifi ekki að honum hafi verið hent fyrir hundana. Það þarf að hjálpa honum að komast á betri stað svo hann geti borið höfuðið hátt þegar hann kemur út úr þessu og haldi áfram viðskiptum við það fyrirtæki sem hann var að skipta við. Þannig að viðskiptasambandið sé ólaskað. Hluti af strategíunni er að mæla ánægju greiðenda, því hvernig ætlarðu að bæta þig ef þú veist ekki hvar þú stendur?

Geta samþætt kerfin

Hinn hlutinn af strategíunni er að þróa tæknina til hagsbóta fyrir hagsmunaaðila beggja vegna borðs. Við leggjum mikla áherslu á að samþætta bókhaldskerfi kröfuhafa þannig að þeir geti átt við kröfur innan úr eigin bókhaldskerfi ef þörf krefur. Svo er það greiðandinn sem vill geta átt þess kost að geta afgreitt sín mál sjálfur á greiðendavef utan skrifstofutíma.“

Spurður um verðmæti innheimtugeirans á Íslandi segir Guðmundur það fara eftir því hvernig markaðurinn sé skilgreindur. Það flæki málið að bankarnir starfi á honum líka auk þess sem mörg fyrirtæki séu enn með starfsfólk eða deildir innanhúss sem sinni þessum málaflokki þótt þeim fari fækkandi.

Farið að hægja á

– Vanskil jukust gríðarlega eftir hrunið. Síðan virtist umræða um þau fjara út. Hvers eðlis eru vanskil núna? Hvaða upphæðir er jafnan um að tefla?

„Staðan nú eftir faraldurinn er allt önnur en eftir hrunið og við erum ekki komin nálægt sömu tölum og fyrir faraldur. Við erum fyrst núna á fyrri hluta þessa árs að sjá að farið er að draga aðeins úr greiðsluhraðanum en hann hafði aukist stöðugt. Það eru töluverðar fréttir út af fyrir sig en engin hættumerki um, enn sem komið er, að þetta sé farið að snúast í hina áttina. Það er þannig langt frá því að þróunin frá 2019 hafi gengið til baka. Greiðsluráðgjafar okkar eru samt farnir að sjá nýtt fólk detta inn sem hefur ekki verið í vanskilum áður sem gefur til kynna að hækkandi vextir séu farnir að hafa áhrif.“

– Setja þessar upphæðir fólk í þrot?

„Nei. Við erum ekki að horfa fram á það.“

Forgangsraða kröfum

– Hvað með eðli þessara krafna? Hefur það breyst?

„Þess ber að geta að greiðendur okkar kröfuhafa eru nokkurn veginn til helminga einstaklingar og fyrirtæki og það er mismunandi hreyfing á hlutunum eftir því hvort um er að ræða til dæmis leikskólagjöld eða vörukaup í byggingarbransanum eða í heildsölu. Það er greinilegt að fólk forgangsraðar [kröfum]. Svo er spurning hvort kröfuhafi leyfir okkur að vinna á ákveðinn máta, til dæmis ef við óskum eftir að gera samkomulag um greiðsludreifingu en að lokum á kröfuhafinn ávallt síðasta orðið. Og þótt við þurfum að taka á mismunandi hátt á mismunandi kröfum, eftir eðli krafna, er það samt greiðandi sem ákveður hvernig hann forgangsraðar greiðslum.“

Mikil þróun í gangi

– Þú nefnir nýjungar. Eru að verða breytingar á markaði sem margir héldu að væri staðnaður?

„Já, það er mikil þróun í gangi. Ef maður lítur út fyrir landsteinana er þessi milliinnheimta að verða mýkri. Það er meira um lausnir fyrir greiðendur og rafræn samskipti hafa aukist mikið. Það er mikið regluverk í kringum milliinnheimtuna sem er frá árinu 2009 og það má kannski segja að þar sé stöðnun því það hefur t.d. engin hækkun verið leyfð á gjöldum fyrir milliinnheimtu síðan, ekki einu sinni til samræmis við verðlag, sem er mjög áhugavert. Það kallar á meiri skilvirkni því laun og leiga hafa heldur betur hækkað síðan 2009.

Því er eins gott að aðilar í þessum bransa auki skilvirknina sín megin því ég tel litla von til að þessari reglugerð verði breytt. Það er vandfundinn stjórnmálamaður sem mun leggja til að kostnaður greiðenda vegna vanskila verði aukinn. Það er eitt af því sem er áhugavert við þennan markað, að við séum að vinna með gjaldskrá sem er 14 ára gömul og megum ekki fara út fyrir hana. Það finnst mér áhugavert og skemmtilegt verkefni sem kallar á nýjar lausnir,“ segir Guðmundur.