Fasteignamarkaður og framkvæmdir hafa knúið kínverskt efnahagslíf áfram en nú er snurða hlaupin á þráðinn

Hlutabréfaviðskipti í Kína eru kannski ekki mál málanna hérna megin á hnettinum en það er þó full ástæða til að staldra við hrunið á verði hlutabréfa í kínverska verktakafyrirtækinu Evergrande í viðskiptum á mánudag. Fyrirtækið hefur verið í miklum vandræðum og í 17 mánuði hafði verið lokað fyrir viðskipti með hluti í því. Þegar opnað var fyrir viðskiptin á mánudag hrapaði gengi bréfanna um 87% en mjakaðist aðeins upp áður en viðskiptum lauk þannig að lækkunin nam 79,4%.

Þegar allt lék í lyndi hjá Evergrande árið 2017 var fyrirtækið rúmlega 50 milljarða dollara (6,5 billjóna íslenskra króna) virði en andvirðið er nú tæpar 600 milljónir dollara (80 milljarðar króna). Á sunnudag var greint frá því að fyrirtækið hefði tapað 4,53 milljörðum dollara (tæpum 600 milljörðum króna) á fyrri helmingi ársins.

Fyrirtækið útskýrði tapið með því að fasteignamarkaðurinn í Kína hefði „kólnað verulega“.

Það er síst of fast að orði kveðið. Hagvöxturinn í Kína hefur á undanförnum árum að mestu verið knúinn áfram af framkvæmdum, hvort sem það eru hraðbrautir, hraðlestir eða húsbyggingar. Um allt land hafa íbúðarhús risið á methraða, fjármögnuð með lánum. Fasteignaverð hefur að sama skapi rokið upp. Í Peking og Sjanghaí er það nú svipað og í London og New York.

En nú er spurt hvað geti komið í veg fyrir að blaðran springi. Framkvæmdir hafa dregist verulega saman. Það hefur í för með sér atvinnuleysi hjá verkamönnum í byggingarvinnu. Húseignir fasteignakaupenda gætu einnig hrunið í verði og margir misst aleiguna.

Voðinn blasir einnig við stjórnvöldum í borgum og sveitum, sem eru í kröggum fyrir vegna harðra aðgerða Kínastjórnar í kórónuveirufaraldrinum.

Hagfræðingarnir Kenneth Rogoff og Yang Yunchen segja að fasteignabólan í Kína eigi engan sinn líka. Byggingageirinn sé, þegar allt sé talið, um þriðjungur af landsframleiðslu í Kína og það sé mun meira en í öðrum löndum. Að auki séu 78% af eignum Kínverja bundin í fasteignum. Nú sé þetta allt í voða.

Fasteignasalar greina frá því að sala hafi skroppið saman frá því sem var fyrir nokkrum árum. Allt of mikið hefur verið reist af húsnæði og þess eru dæmi að heilu hverfin standi auð. Oft eru háhýsi ókláruð og vart fokheld.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að hagvöxtur í Kína verði undir fjórum af hundraði á næstu árum og sumir spá því að hann verði jafnvel enn minni, allt niður í tvo af hundraði, næstu sjö árin.

Ekki er að sjá að kínversk stjórnvöld séu að bregðast við vandanum með öðru en yfirlýsingum.

Atvinnuleysi í Kína var í júní rúm 5%, sem hljómar ekki eins og áhyggjuefni, en öllu alvarlega er að ungt fólk á í verulegum vandræðum með að finna vinnu. Í júní mældist atvinnuleysi fólks á aldrinum 16 til 24 ára 21,3%. Stjórnvöld brugðust við með því að tilkynna fyrr í þessum mánuði að hætt yrði að birta atvinnuleysistölur eftir aldurshópum. Sú ákvörðun lýsir ákveðinni örvæntingu en hún mun ekki færa neinum vinnu.

Kina er alræðisríki. Þar er einn flokkur við völd og hann stjórnar harðri hendi. Undir stjórn Xis Jinpings hafa einræðistilburðirnir aukist. Gagnrýni er litin hornauga og andófsmönnum er varpað í fangelsi. Verst er meðferðin á Úígúrum, sem eru múslimar. Þeim hefur unnvörpum verið safnað í fangabúðir og áhersla lögð á að þurrka út menningu þeirra með ógeðfelldum aðferðum.

Kínastjórn sækist eftir forystuhlutverki í heiminum. Kínverska stórveldið á að verða öðrum til eftirbreytni. Lykill að því hefur verið að ýta undir velmegun heima fyrir. Í raun er markmiðið að sýna fram á að lýðræði sé ekki forsenda velmegunar. Henni megi ná án tillits til stjórnarfars.

Þótt miklar framfarir hafi orðið í Kína frá því að Deng Xiaoping opnaði efnahagslífið og velmegun hafi aukist er langt frá því að hún sé sambærileg við það sem gerist á Vesturlöndum. Vissulega hefur millistéttin stækkað og fólk hefur það betra. Misskipting er þó enn mikil og fátækt sömuleiðis.

Langvarandi kreppa gæti grafið undan þeirri ímynd sem kínversk stjórnvöld hafa reynt að skapa. Ef fimmtungur ungs fólks fær ekki vinnu er skammt í að óánægja grafi um sig. Ef fjöldi manna missir aleiguna vegna þess að eignir verða verðlausar á meðan skuldirnar sitja eftir er einnig hætt við ólgu. Kínversk stjórnvöld eru í vanda stödd og sá vandi gæti smitað út frá sér.