Gunnar Þorgeirsson
Gunnar Þorgeirsson
„Þetta mál snýst um það að afurðastöðvum verði heimilað að eiga samstarf eða sameinast til að stuðla að hagræðingu í rekstri,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, í samtali við Morgunblaðið

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Þetta mál snýst um það að afurðastöðvum verði heimilað að eiga samstarf eða sameinast til að stuðla að hagræðingu í rekstri,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, í samtali við Morgunblaðið. Leitað var viðbragða hans við þeirri ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra að draga til baka lagafrumvarp um breytingar á búvörulögum sem veittu afurðastöðvum tiltekna undanþágu frá ákvæðum samkeppnislaga.

Gunnar segir samtök bænda hvetja eindregið til þess að sameiningar og aukið samstarf afurðastöðva verði heimiluð, þannig að unnt verði að ná fram hagræðingu í greininni.

Í samráðsferli stjórnvalda voru gerðar alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og taldi t.a.m. Samkeppniseftirlitið þá undanþágu sem lögð var til í frumvarpsdrögunum mögulega fara gegn ákvæðum EES-samningsins, að því er fram kemur í samráðsgátt. Auk þess gengi sú undanþága mun lengra en viðgangist í nágrannalöndum.

„Við höfum ítrekað bent á það að þetta fyrirfinnst í allri Evrópu nema hér,“ segir Gunnar. „Ég er nýkominn af fundi í Danmörku með formönnum bændasamtakanna í Skandinavíu og þar hitti ég sláturhússtjóra Danish Crown sem slátrar um 90% af öllum gripum í Danmörku. Ég held ekki að samkeppniseftirlitið í Danmörku sé að tala um að skipta því ágæta fyrirtæki upp. Samkeppniseftirlitið hér mælir aftur á móti ekki með því að þessi heimild verði veitt, hvorki til samruna, samvinnu né annars. Þessar einingar okkar eru alls ekki hagkvæmar í rekstri, fyrirkomulagið er allt of dýrt. Með því hvernig Samkeppniseftirlitið túlkar þetta þá er verið að koma í veg fyrir hagræðingu. En ég vona að frumvarpið, sem matvælaráðherra ætlar að leggja fram, leiði til hagræðingar í rekstri í afurðageiranum. Það er það sem okkur dreymir um,“ segir Gunnar Þorgeirsson.

Í samráðsgáttinni kemur fram að í ráðuneytinu sé nýtt frumvarp nú í smíðum, m.t.t. framkominna athugasemda. Þar verði fyrirtækjum í meirihlutaeigu framleiðenda heimilað að vinna saman að afmörkuðum verkefnum, líkt og tíðkist í nágrannalöndunum og horft verði til gildandi reglna þar um í Noregi og ESB.