Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður verkalýðsfélagsins VR hefur aukist um 29% á hvern félagsmann að raunvirði frá árinu 2010. Þar af hefur kostnaðurinn aukist um 25% frá árinu 2016 og hefur því mikill meirihluti kostnaðaraukningarinnar átt sér stað undir formennsku Ragnars Þórs Ingólfssonar

Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður verkalýðsfélagsins VR hefur aukist um 29% á hvern félagsmann að raunvirði frá árinu 2010.

Þar af hefur kostnaðurinn aukist um 25% frá árinu 2016 og hefur því mikill meirihluti kostnaðaraukningarinnar átt sér stað undir formennsku Ragnars Þórs Ingólfssonar.

Þetta má lesa út úr ársreikningum félagsins vegna áranna 2010 til 2022. Ragnar Þór tók við formennsku félagsins í mars árið 2017 og hefur síðan þá tvisvar hlotið endurkjör.

Félagsgjöld hækka umfram verðlag

Félagsmönnum VR hefur fjölgað um 37,5% frá árinu 2010, úr ríflega 28 þúsund manns í nær 39 þúsund. Innheimt félagsgjöld hafa á sama tíma nær þrefaldast, úr 650 milljónum króna í 1,8 milljarða. Iðgjöld félagsmanna hafa staðið í 0,7% allan tímann óháð því að laun hafa á tímabilinu hækkað mun hraðar en verðlag í landinu. Þannig hafa félagsgjöld á hvern félagsmann hækkað að meðaltali um 2,6% á ári umfram verðlagshækkanir frá árinu 2010.

Árið 2022 er eina árið á tímabilinu sem verðlag hækkaði umfram félagsgjöld á hvern félagsmann en verðbólga mældist að meðaltali 8,3% á árinu.

Sjá fram á samsvarandi þróun í iðgjaldatekjum árið 2023

Rekstrartekjur VR námu alls 5,3 milljörðum á árinu 2022 en þær skiptast í áðurnefnd félagsgjöld, sjúkrasjóðsiðgjöld, orlofssjóðsiðgjöld, leigutekjur orlofseigna og aðrar tekjur. Iðgjöldin námu samtals 5 milljörðum króna og hækkuðu um 16,5% milli ára. Í skýrslu stjórnar með ársreikningi kemur fram að áfram séu væntingar um samsvarandi þróun í iðgjaldatekjum á árinu 2023.

Rekstrargjöld námu alls 4,8 milljörðum króna en þar af nam skrifstofu- og stjórnunarkostnaður 1,2 milljörðum.