Helga Björg segir margt gott við nýsköpunarumhverfið á Íslandi en stuðningurinn sé annar og meiri í BNA.
Helga Björg segir margt gott við nýsköpunarumhverfið á Íslandi en stuðningurinn sé annar og meiri í BNA. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Í dag má finna viðskiptavini AwareGO um allan heim en fyrirtækið sérhæfir sig í úttektum á öryggismenningu og öryggisvitund starfsfólks. Helga Björg stofnaði félagið ásamt manni sínum Ragnari en hún hefur komið víða við á löngum ferli og rak m.a

Í dag má finna viðskiptavini AwareGO um allan heim en fyrirtækið sérhæfir sig í úttektum á öryggismenningu og öryggisvitund starfsfólks. Helga Björg stofnaði félagið ásamt manni sínum Ragnari en hún hefur komið víða við á löngum ferli og rak m.a. um árabil hönnunarfyrirtækið Mýr Design. Var Helga Björg kosin í stjórn FKA í vor og segir hún þar mega finna endalaus tækifæri til að láta gott af sér leiða.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Fjármögnun er eilífðaráskorun í nýsköpunarfyrirtækjum og hefur sjaldan verið erfiðari en einmitt um þessar mundir.

Hver var síðasti fyrirlesturinn sem þú sóttir?

Ég sótti örnám í verkefnastjórnun hjá Akademías. Þar kenndu miklir meistarar sem deildu reynslu sinni á því sviði og var mjög áhugavert og gott að fá innsýn í hugarheim verkefnastjórans.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Ég hef mest haldið þekkingunni við með því að sækja námskeið og sitja styttri námsbrautir hjá Bifröst og netskóla Harvard Business School.

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég hugsa mjög vel um líkamann og legg fyrst og fremst áherslu á að fá minn átta tíma svefn. Einnig er ég mikið í golfi árið um kring, fer á skíði og gönguskíði á veturna og er meðlimur í World Class og Sporthúsinu. Það fylgir því mikið andlegt álag að vera frumkvöðull og að stunda reglulega líkamsrækt og passa svefninn hjálpar manni að halda vitinu í þessu umhverfi.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Draumastarfið væri að vinna við að búa til skemmtilegt og uppbyggilegt vinnuumhverfi fyrir aðra. Mér finnst mjög áhugavert að fylgjast með hvernig framleiðni eykst ef starfsfólkinu líður vel og hefur trú á því að vinnuframlag sitt skipti verulegu máli í heildarmyndinni.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Ég myndi læra meira um gervigreind og hvernig sé best að meta áhrifin sem hún hefur á alla vinnustaði. Mér finnst mikilvægt að starfsmenn séu með í þeirri vegferð sem stuðla mun að hagkvæmni og skapa verðmætari störf með aðstoð tækninnar. Ef vel er að málum staðið og fyllsta öryggis gætt þá kemur gervigreindin til með að auka samkeppnishæfni fyrirtækja á þeim grundvelli.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Það er margt mjög gott í nýsköpunarumhverfinu á Íslandi, sér í lagi styrkjakerfi og endurgreiðsla hluta rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Aftur á móti eigum við langt í land með að keppa við nýsköpunarfyrirtæki í Bandaríkjunum þar sem stuðningur og samkeppnissjóðir eru mun öflugri.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Ég reyni að fylgjast vel með þeirri tækniþróun sem veður áfram þessa dagana. Mest er ég áhugasöm um gervigreind sem er að breyta öllu mjög hratt. Mín tilfinning er að ef til vill séu margir sofandi á verðinum þegar kemur að þeirri þróun.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráð í einn dag?

Ég myndi vilja tryggja að allir hefðu sömu tækifæri til menntunar án tillits til aðstæðna eða efnahags.

Ævi og störf:

Nám: MCSE-vottun 2003; nám í tölvunarfræði við HR 2003 til 2005; Brautargengi rekstrarnám fyrir konur 2009; viðurkenndur stjórnarmaður frá Akademias 2019 og nám í verkefnastjórnun við sama skóla 2021; nám hjá Harvard: sérfræðingur í frumkvöðlafræðum 2020; sérfræðingur í leiðtogafræðum 2021 og sérfræðingur í stefnumótun 2022; GRI-vottaður sjálfbærnisérfræðingur 2021.

Störf: Tók þátt í stofnun og uppbyggingu Flug Hotel og annaðist þar ráðningar og almennan rekstur; ýmis störf fyrir Bandaríkjaher á Keflavíkurflugvelli; var meðstofnandi og rak í fimmtán ár með góðum árangri Toyota í Reykjanesbæ; stofnaði og rak Mýr Design fatahönnun 2006 til 2019; meðstofnandi AwareGO frá 2007.

Áhugamál: Ég spila mikið golf og geri mitt besta til að koma hinum í fjölskyldunni í golfið með mér. Á veturna fer ég á skíði og gönguskíði, þá helst í Austurríki. Ferðalög og samvera með fjölskyldunni eru líka hátt skrifuð. Þá hef ég ótrúlega mikla þörf fyrir að sækja mér stöðugt þekkingu.

Fjölskylduhagir: Gift Ragnari Sigurðssyni og á börnin Júlíus, Sigrún Ingu, Ingólf og Róbert og fjögur frábær barnabörn sem eru stjörnurnar í lífinu þessa dagana.