Högg Mariam Eradze verður frá keppni næsta árið eða svo. Það var mikið högg fyrir hana að meiðast alvarlega stuttu fyrir lokamót HM.
Högg Mariam Eradze verður frá keppni næsta árið eða svo. Það var mikið högg fyrir hana að meiðast alvarlega stuttu fyrir lokamót HM. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Handknattleikskonan Mariam Eradze verður ekki til stórræðanna næstu mánuðina eftir að hún sleit krossband í hné í leik Vals gegn Stjörnunni á Ragnarsmótinu á undirbúningstímabilinu fyrir komandi Íslandsmót. Mariam missir því af öllu komandi keppnistímabili og er löng og ströng endurhæfing fram undan.

Handbolti

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Handknattleikskonan Mariam Eradze verður ekki til stórræðanna næstu mánuðina eftir að hún sleit krossband í hné í leik Vals gegn Stjörnunni á Ragnarsmótinu á undirbúningstímabilinu fyrir komandi Íslandsmót. Mariam missir því af öllu komandi keppnistímabili og er löng og ströng endurhæfing fram undan.

„Mér líður betur núna en fyrstu dagana en þetta er samt erfitt,“ var það fyrsta sem Mariam sagði þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hennar. Hún hefur áður slitið krossband í sama hné, fyrir átta árum. Þótt áfallið sé mikið, er Mariam klár í þann slag sem fram undan er.

„Þetta er í annað sinn sem ég slít krossband og þetta kemur ekki endilega á óvart. Það er jákvætt að búa að reynslunni. Þetta er samt mjög erfitt, því ég hafði miklar væntingar fyrir komandi tímabil, bæði fyrir mig og liðið.

Eins og heimsendir væri í nánd

Ég sleit krossbandið fyrst þegar ég var 16 ára. Þá var þetta rosalega erfitt andlega og það var eins og heimsendir væri í nánd. Ég er allt önnur manneskja núna og get einbeitt mér að öðrum hlutum og horft á heildarmyndina. Ég á fjölskyldu, góða vini og svo er ég í námi líka,“ útskýrði hún.

Landsliðskonan meiddist eftir um tíu mínútna leik í seinni hálfleik í leiknum við Stjörnuna og vissi um leið að meiðslin væru alvarleg.

„Ég fann það strax að eitthvað hafði farið úrskeiðis. Ég var að vonast til að þetta væru bara liðþófameiðsli en því miður var þetta krossbandið aftur. Þetta var samt allt öðruvísi en í fyrra skiptið. Ég gat stigið í fótinn núna, en það mátti ekki snerta á mér fótinn þegar þetta gerðist fyrst. Ég gat ekki labbað í tvær vikur fyrst en núna er ég komin á fætur eftir fimm daga,“ sagði hún.

Ný áskorun og nýtt upphaf

Mariam ætlar að takast á við áskorunina með jákvæðni að vopni, þrátt fyrir óvissu um hvort hún geti hreinlega spilað handbolta aftur.

„Nú ætla ég að einbeita mér að jákvæðu hlutunum. Ég horfi á þetta eins og handbolta, þetta er ný áskorun og nýtt upphaf. Ég verð jákvæð í gegnum þetta. Ég fæ vonandi að fara í aðgerð í lok september en eftir það tekur við leiðinlegasti þátturinn, sem er sjúkraþjálfun og það sem fylgir því,“ sagði hún.

Íslendingar verða á meðal þátttökuþjóða á HM sem hefst í lok nóvember í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Mariam hefur verið viðloðandi landsliðið undanfarin ár og eftir gott síðasta tímabil gerði hún sér vonir um að vera í lokahópnum. Þær vonir urðu að engu á einu kvöldi á Selfossi.

Draumur að fara á HM

„Það var alltaf á bak við eyrað, þessi HM-hópur. Ég æfði eins og brjálæðingur í sumar og maður vissi að það væri að styttast í mótið. Ég hugsaði að þetta væri fínn möguleiki og sérstaklega ef ég byrjaði tímabilið vel. Það hefði verið algjör draumur að fara á HM og það var eitt það fyrsta sem ég hugsaði um þegar ég varð fyrir þessum meiðslum. Maður veit ekki hvenær maður fær þetta tækifæri aftur. Það var stórt högg,“ viðurkenndi hún.

Mariam átti stóran þátt í að Valur varð Íslandsmeistari á síðustu leiktíð, eftir sigur á ÍBV í úrslitaeinvígi. Hún varð þriðja markahæst hjá Val í deildarkeppninni með 91 mark í 21 leik og næstmarkahæst í úrslitakeppninni með 31 mark í sjö leikjum. Þá var hún lykilmaður í sterkri vörn Valskvenna. Hún var því spennt fyrir nýrri leiktíð, eftir afar vel heppnað síðasta tímabil.

„Ég var mjög tilbúin í þetta tímabil. Oftast vill maður fá smá frí eftir langt og gott tímabil en eftir hápunktinn í Vestmannaeyjum langaði mig bara að byrja strax. Það var tilhlökkun í mér að byrja að æfa aftur og hitta allar stelpurnar, því það er rosalega góður andi í þessum hópi. Það er leiðinlegt að hugsa til þess að ég mun líklegast ekki hitta þær á hverjum degi. Það er annar slæmur þáttur við meiðsli; þú færð ekki að hitta vini þína í liðinu á hverjum degi og færð ekki að gera það sem þér finnst langskemmtilegast.“

Erfiðara en margir halda

Mariam hefur lítinn áhuga á að hætta í handbolta og ætlar að gera allt hvað hún getur til að snúa aftur á völlinn. Til þess þarf mikinn andlegan styrk og ekki síður þolinmæði.

„Mig langar ekki að hætta svona, vegna meiðsla. Ég vil hætta á mínum eigin forsendum. Þetta er erfiðara en margir halda. Það er talað um að þetta séu 9-12 mánuðir, sem þú ert frá, en svo ertu ekki endilega góður strax á eftir. Það tekur alveg heilt ár í viðbót að ná fyrri styrk.

Maður er varkár þegar maður tekur fyrstu skrefin. Ég ætla að byrja á því að koma mér í enn betra form og einbeita mér að öðrum hlutum. Ég vil losna við öll önnur meiðsli í leiðinni. Þegar ég verð búin að jafna mig verð ég og hnéð vonandi tilbúin. Ég ætla að gera allt mögulegt til að styrkja mig og styrkja hnéð. Það verður þá vonandi sérstaklega tilbúið fyrir átökin sem fylgja,“ sagði hún ákveðin.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson