Guðrún Kolbrún Jónsdóttir fæddist 20. september 1929 í Vestmannaeyjum. Hún lést 11. ágúst 1923 á heimili sínu Mörkinni í Reykjavík.

Foreldrar hennar voru Árný Friðriksdóttir af Grafarætt, húsfreyja, og Jón Finnbogi Bjarnason af Ármúlaætt, trésmiður og lögregluþjónn, síðar veitingamaður í Vestmannaeyjum.

Kolbrún var næstyngst í röð 16 systkina.

Hún giftist Sigurði Árnasyni, f. 24. júlí 1924, d. 14. maí 1999, og átti með honum sex börn. Þau eru Árni Benóný, f. 1950, hann á þrjú börn og sex barnabörn, Sigurður Þór, f. 1952, hann á þrjú börn og þrjú barnabörn, Þóra Kolbrún, f. 1954, hún á þrjú börn og níu barnabörn, Rut, f. 1960, hún á tvö börn og þrjú barnabörn, Sturla, f. 1972, og Snorri, f. 1972, d. 1973.

Kolbrún fór í fóstur að Syðri-Hömrum í Ásahreppi í Rangárvallasýslu hjá Sigurði Sigurðssyni bónda og dóttur hans Elínu og minntist hún þess með miklum kærleika. Eftir fermingu fluttist Kolbrún til Reykjavíkur. Hún bjó um tíma hjá systur sinni Ragnhildi, sem hún hafði miklar mætur á, og Árnýju móður sinni og sambýlismanni hennar. Kolbrún vann sem ráðskona hjá Högna Björnssyni lækni og Huldu konu hans í Kaupmannahöfn. Við heimkomu starfaði hún á Ritsímanum og í skóverslun Björns Ófeigssonar. Hún kynntist eiginmanni sínum stuttu seinna og giftust þau árið 1950. Þau hjónin stofnuðu Teppi hf. og ráku til ársins 1979. Þau fluttust þá til Mazatlan í Mexíkó þar sem þau ráku saman hótel, Marcos Suites, þar til Sigurður lést 1999. Kolbrún fluttist aftur til Íslands árið 2001 og bjó í Reykjavík það sem eftir lifði.

Útför Kolbrúnar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 30. ágúst 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku amma mín. Hún er mér svo kær. Nú hefur hún fengið að kveðja sinn þreytta líkama og sitt fallega líf sem hún nýtti til hins ýtrasta. Það er mér svo dýrmætt að hafa fengið hana sem ömmu.

Sem lítil stúlka var ég mjög hreykin af því að eiga ömmu og afa sem bjuggu í Mexíkó og ráku lítið hótel. Ferðirnar til þeirra hjálpuðu til við að skapa víðsýni, ævintýraþrá, skilning á heiminum og þeirri forréttindastöðu sem við, sem fæðumst á Íslandi, búum yfir. Mér er minnisstætt þegar amma keypti ávallt aukapoka af mat í búðarferðum til að gefa til einstæðrar móður sem bjó í mikilli fátækt. Í eitt skipti sem ég og systir mín fengum að velja okkur dúkkur í dótabúð máttum við velja eins dúkkur til að gefa dætrum þessarar konu. Amma var þakklát fyrir það lán sem hún hafði í lífinu og deildi því sem hún gat með þeim sem minna máttu sín. Mamma sagði mér að amma og afi hugsuðu vel um vinnukonurnar sínar, borguðu þeim hærri laun en þekktist í Mexíkó, ef greiða þurfti sjúkrahúsvist eða læknisheimsóknir barna þeirra gerðu þau það með glöðu geði.

Þegar amma og afi komu svo í heimsókn til Íslands fengum við barnabörnin að koma með í ferðir í Akraborgina til að heimsækja fjölskylduna á Akranesi. Við fengum líka að koma með í fín matarboð til góðra vina þeirra. Þar kynntist ég í fyrsta skipti alvöru formlegheitum. Ég man hvernig amma gaf sér tíma til að kenna mér borðsiði við þau tækifæri, ég naut þess að fá athygli og leiðsögn hennar.

Amma var einstaklega gestrisin, frábær kokkur og hún naut þess að gefa fjölskyldu og vinum eitthvað gott að borða. Eftir að hún fluttist til Íslands aftur kom ég ekki í heimsókn í Ljósheimana án þess að fá vöfflur eða pönnukökur með rjóma hjá henni, jafnvel þótt ég kæmi óvænt. Hún hafði alltaf nóg fyrir stafni og var með duglegustu konum sem ég hef þekkt. Það var aldrei dauð stund í kringum hana ömmu Kollu. Hún var haldin þeirri náðargáfu að létta andrúmsloftið fyrir okkur hin. Hún sagði svo skemmtilegar sögur fléttaðar með beittum húmor og svo fylgdi þessi einstaki dillandi hlátur hennar með, sem fékk alla viðstadda til að hlæja.

Amma var einstök kona sem skilur eftir sig minningar um gleði og hlátur í mínu hjarta. Hvíl í friði elsku amma og takk fyrir allar dýrmætu stundirnar.

Árný Helgadóttir.

Kolbrún var hálfsystir móður minnar. Þær systurnar ólust ekki upp saman og mikill aldursmunur var á þeim en þegar þær hittust urðu strax með þeim miklir kærleikar. Þegar Kolbrún var 18 ára flutti hún á heimili foreldra minna og dvaldi þar til hún fór nokkrum árum síðar í vist til Högna Björnssonar læknis og konu hans Huldu í Danmörku. Þegar hún kom heim kynntist hún Sigurði Árnasyni sem hún svo giftist. Saman stofnuðu þau og ráku Teppi hf.

Ég vandi komur mínar mikið á heimili Kolbrúnar og Sigurðar á Suðurgötunni á unglingsárum mínum. Þangað var ótrúlega gaman að koma. Kolbrún var geislandi og litríkur persónuleiki og glaðværð hennar og dillandi hlátur fyllti út í hvert horn.

Kolbrún var stórglæsileg, dökk á brún og brá, og alltaf í fallegum fötum í sterkum litum. Hún var umvafin blómum og heimilið var bjart og litríkt. Það var alltaf uppörvandi að koma til Kolbrúnar, yfirleitt hafði hún eitthvað gott á pönnunni og framar öðrum kunni hún að njóta góðra augnablika. Aldrei lét Kolbrún styggðaryrði falla um nokkurn mann og hún hafði hæfileika til að sjá spaugilegu hliðarnar á öllu.

Það var þó ekki þannig að Kolbrún ætti létt eða áfallalaust líf. Hún ólst upp fjarri foreldrum sínum hjá vandalausu fólki og hún varð fyrir ýmsum sorgum á lífsleiðinni. En hin bjarta lund hennar fleytti henni í gegnum allt sem á gekk.

Kolbrún var afar kjarkmikil, bar sig alltaf vel, og opin fyrir öllum nýjungum. Kjarkur Kolbrúnar kom m.a. fram í ferðagleði hennar en hún og fjölskyldan ferðuðust mikið um sólarlönd og dvöldu seinna mörg góð ár í Mexíkó þar sem þau hjónin ráku hótel. Kolbrún lærði spænsku á fullorðinsárum sínum og aðlagaðist fullkomlega mexíkóskum menningarheimi.

Ekki er langt síðan við tvær frænkur heimsóttum Kolbrúnu á elliheimilinu Mörk þar sem hún dvaldi síðustu æviár sín og það var gaman að sjá hve Kolbrún hélt sínum sérstaka persónuleika þrátt fyrir háan aldur og elliglöp. Hún var í fallegum eldrauðum kjól, þekkti okkur ekki en hló og tók dansspor.

Minningin um ógleymanlega konu býr með okkur öllum sem þekktum Kolbrúnu. Minningin um hana er sannarlega blessun.

Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir.

Hún elsku Kolla „amma“ er nú farin í sitt hinsta ferðalag. Hún kvaddi þetta jarðlíf síðastliðinn föstudag, hinn 11. ágúst, 94 ára gömul.

Kolla var búin að eiga viðburðaríka ævi með öllum þeim tilbrigðum sem lífið færir okkur, gleði og sorg. Kolla og pabbi minn voru dugleg að ferðast og alveg óhrædd við að prófa eitthvað nýtt. Þau bjuggu í mörg ár í Mexíkó og bæði börn og barnabörn þeirra voru dugleg að heimsækja þau. Tvö af eldri börnunum mínum, þau Siggi og Ásta, fóru í langa heimsókn árið 1990 og dvöldust þar í góðu yfirlæti. Ég sjálf og eiginmaður minn Gunnar fórum líka einu sinni til þeirra og var það mikið ævintýri.

Hún Kolla var einstaklega glæsileg og falleg kona, og hattur var partur af hennar persónuleika, skapgóð, gjafmild, hjálpfús og alltaf stutt í hláturinn og grínið, sama hvað gekk á, og þótt hún væri að mestu leyti horfin okkur undir það síðasta var alltaf hægt að fá hana til að hlæja.

Ég er þér, Kolla mín, óendanlega þakklát fyrir hvað þú varst alltaf góð við mig alveg frá því ég fyrst heimsótti föðurfjölskylduna mína, afskaplega feimin utanbæjarstúlka. Alltaf var ég velkomin og það varst þú sem áttir heiðurinn af því að hafa samband við mig og bjóða mér inn á heimili ykkar pabba. Þannig kynntist ég systkinum mínum frá unga aldri. Þeim hef ég fengið að verða samferða og fjölskyldum þeirra í gegnum lífið í hinum ýmsu fjölskylduævintýrum.

Hún Kolla var afskaplega góðhjörtuð kona og mátti ekkert aumt sjá, alltaf tilbúin að hjálpa, jafnvel þegar þú varst komin á Mörkina varstu að hugsa um heimilisfólkið og vildir að því liði vel. Ég veit að margir hugsa hlýtt til þín og eru þakklátir fyrir umhyggju þína. Þú varst alltaf góð við mín börn og barnabörn og vildir að þau kölluðu þig ömmu.

Ég vona að ég hafi getað endurgoldið þér, elsku Kolla mín, þína góðmennsku að einhverju leyti nú á seinni árum með heimsóknum mínum, fyrst á þínum fallegu heimilum í Reykjavík og svo seinna í Mörkinni. Það var alltaf gott að koma til þín og hlæja með þér. Þú varst alltaf svo lífsglöð og hafðir unun af að fá heimsóknir og vera innan um vini og vandamenn. Ég þakka þér fyrir þína nærveru í mínu lífi og fjölskyldunnar minnar og votta systkinum mínum og þeirra fjölskyldum innilega samúð, hennar verður sárt saknað en minningarnar munu lifa og af þeim er nóg.

Álfheiður Erla Sigurðardóttir og fjölskylda.