Landspítali Um 58% nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga komu til starfa.
Landspítali Um 58% nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga komu til starfa. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við höfum lagt mikla vinnu í að gera Landspítalann að spennandi vinnustað fyrir hjúkrunarfræðinga og aðra heilbrigðisstarfsmenn. Þetta er uppskera þess og við erum mjög ánægð með þessa þróun,“ segir Ólafur G

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við höfum lagt mikla vinnu í að gera Landspítalann að spennandi vinnustað fyrir hjúkrunarfræðinga og aðra heilbrigðisstarfsmenn. Þetta er uppskera þess og við erum mjög ánægð með þessa þróun,“ segir Ólafur G. Skúlason, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala.

Fyrir nokkrum árum bárust reglulega fréttir af því að hjúkrunarfræðingar fengjust ekki til starfa á spítalanum. Nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar og fleiri í stéttinni sættu sig ekki við starfsumhverfið og launakjör og sóttu frekar í önnur störf. Nú virðast aðrir vindar blása um héruð og samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hafa 95 nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar ráðið sig til starfa á spítalanum það sem af er ári. Það eru um 58% þeirra sem hafa útskrifast í ár.

Ljósmæðrum hefur fjölgað

Ólafur segir að meðal þess sem gert hafi verið til að laða að nýútskrifaða hjúkrunarfræðinga sé að bjóða þeim upp á svokölluð starfsþróunarár þegar þeir koma til starfa. Þá eru 10% af starfinu fyrstu tvö árin helguð ýmiss konar fræðslu, kennslu og stuðningi. Þannig geti nýtt starfsfólk kynnst spítalanum og þróast í starfi meðfram vinnu sinni. „Þetta hefur mælst mjög vel fyrir. Við höfum gert slíkt hið sama hjá ljósmæðrum og þar hefur komið töluvert af nýju fólki inn fyrir vikið. Næsta skref er að gera þetta líka hjá sjúkraliðunum.“

Enn vantar fólk til starfa

Aðspurður segir Ólafur að þó þróunin hafi verið í rétta átt vanti enn töluvert af hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum til starfa. „Mönnunin er betri en við þurfum að halda áfram á þessari braut. Nú er stór kynslóð að fara á eftirlaun og nýliðun hefur ekki haldið í við það. Við þurfum að halda áfram að fá fólk í námið og sýna því að það eru endalaus tækifæri fyrir ungt fólk í hjúkrunarfræði. Það bjóðast bæði dýnamísk og fjölbreytt störf innan heilbrigðiskerfisins.“

Álagið hefur minnkað

Hann segir að álagið sé mun minna á spítalanum nú en á tímum kórónuveirunnar. Það hafi til dæmis sýnt sig í sumar. Allt hafi gengið eðlilega og starfsfólk hafi getað fengið sitt sumarfrí. „Sumarið gekk ágætlega. Það var vissulega krefjandi en við komum betur undan sumri nú en undanfarin ár. Svo vonum við bara að þetta verði góður vetur.“