Ekkert hægir á útbreiðslu kynsjúkdóma og greiningum á lekanda fjölgaði en svipaður fjöldi greindist með klamydíu og árið áður. Fjöldi þeirra sem greindist með sárasótt var svipaður og árið 2021 en þá hafði hins vegar sést fjölgun frá því áður

Ekkert hægir á útbreiðslu kynsjúkdóma og greiningum á lekanda fjölgaði en svipaður fjöldi greindist með klamydíu og árið áður. Fjöldi þeirra sem greindist með sárasótt var svipaður og árið 2021 en þá hafði hins vegar sést fjölgun frá því áður. Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu sóttvarna fyrir 2022 sem sóttvarnalæknir gefur út.

Lekandatilfellum hefur farið fjölgandi með hverju árinu sem líður. Samtals greindust 158 einstaklingar með lekanda á síðasta ári sem er mesti fjöldi sem greinst hefur hér á landi í ríflega 30 ár. Samkvæmt upplýsingum sóttvarna greindust fleiri, bæði meðal karla og kvenna í fyrra, en um 70% sýkinga voru meðal karlmanna. Frá árinu 2010 hefur hlutfall karlmanna meðal þeirra sem greinast með lekanda verið á bilinu 65%-90%. Þegar horft er til Evrópu hefur lekandatilfellum einnig farið fjölgandi, einkum meðal yngra fólks.

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir í inngangi ársskýrslu embættisins að meginverkefni embættisins hafi verið að bregðast við áhrifum af Covid-19 enda dyljist engum hvað gekk á með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfið og starfsmenn þess. Heimsfaraldurinn hafði ýmis ófyrirséð áhrif. Þátttaka barna í almennum bólusetningum á árinu 2022 var t.d. heldur lakari en á árunum fyrir Covid-19. Skortur á bóluefni er talinn skýra það að hluta.

Hin árlega inflúensa 2022 hegðaði sér talsvert öðruvísi en fyrri flensur. Fleiri sýktust en árið 2021 enda var samneyti lítið vegna ferðatakmarkana. Flensan bankaði síðan óvenjusnemma upp á haustið 2022. Þegar upp var staðið höfðu greinst um tvöfalt fleiri staðfest inflúensutilfelli það árið en í meðalári.

17 greindust með berkla

Ýmis óværa herjar á landsmenn eins og lesa má um í yfirliti sóttvarna sem er aðgengilegt á vef landlæknis. Þannig voru streptókokkasýkingar óvenjualgengar, bæði í hálsi en einnig í blóði eða vefjum. Hvellur var í greiningum á skarlatssótt í desember, 17 greindust með berkla árinu og þrír með hermannaveiki. Þá greindust fimm með malaríu og fjórar stórar matartengdar hópsýkingar komu upp.

Mænusótt lét ekki á sér kræla hér á landi á síðasta ári. Bólusetning gegn mænusótt hófst hér á landi árið 1956 og greindust síðustu innlendu tilfellin af mænusótt árið 1960 en fyrir það höfðu riðið yfir nokkrir stórir faraldrar á fyrri hluta 20. aldar. Lömunarveiki, alvarlegasta birtingarform mænusóttar, greindist í Ísrael og New York-ríki í Bandaríkjunum í fyrra og varð veirunnar vart í skólpi í Lundúnum í marga mánuði.