Peking Raimondo og Qiang takast hér í hendur fyrir fundinn í gær.
Peking Raimondo og Qiang takast hér í hendur fyrir fundinn í gær. — AFP/Andy Wong
Li Qiang, forsætisráðherra Kínverja, fundaði í gær með Ginu Raimondo, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, sem nú er í fjögurra daga heimsókn til Kína. Gagnrýndi Qiang mjög nýlegar hömlur sem Bandaríkjastjórn hefði sett á viðskipti við Kínverja, og…

Li Qiang, forsætisráðherra Kínverja, fundaði í gær með Ginu Raimondo, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, sem nú er í fjögurra daga heimsókn til Kína.

Gagnrýndi Qiang mjög nýlegar hömlur sem Bandaríkjastjórn hefði sett á viðskipti við Kínverja, og sagði að tilraunir til þess að „stjórnmálavæða“ viðskiptamál myndu hafa slæmar afleiðingar fyrir heimsbúskapinn, sem og tvíhliða samskipti og traust á milli Bandaríkjanna og Kína.

Bandaríkjamenn segja að hömlurnar, sem m.a. hafa beinst að kínverskum fyrirtækjum á borð við Huawei og TikTok, séu nauðsynlegar til þess að tryggja þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Kínverjar segja það fyrirslátt og að tilgangurinn sé að grafa undan vaxandi veldi Kínverja í efnahagsmálum.

Þá ákvað Joe Biden Bandaríkjaforseti að gefa út reglugerð fyrr í mánuðinum sem takmarkar fjárfestingar Bandaríkjamanna í kínverskum hátækniiðnaði. Sögðu kínversk stjórnvöld þá að sú ákvörðun einkenndist af einangrunarhyggju Bandaríkjamanna, en aðgerðirnar beinast meðal annars að þróun Kínverja á hálfleiðurum og gervigreind.

Raimondo sagði á móti að Bandaríkjamenn styddu áframhaldandi viðræður og opin samskipti á milli ríkjanna, bæði um deilumál þeirra, en einnig og sér í lagi um málefni sem snertu alla heimsbyggðina, líkt og loftslagsbreytingar, gervigreind og ópíóíðafaraldurinn. Sagði Raimondo að Bandaríkjastjórn vildi vinna með Kínverjum í þeim efnum og vinna að réttu lausninni fyrir allt mannkyn.

Þá lagði Raimondo áherslu á að Bandaríkin væru ekki að reyna að skera á viðskipti sín við Kína en þau eru metin á um 700 milljarða bandaríkjadala, eða sem nemur um 91.670 milljörðum íslenskra króna.