Við Mont Blanc Sumarið 2018 fóru systurnar Lilja og Bjargey í mikla ævintýraferð með hópi frá ferðaskrifstofunni Mundo og gengu í kringum Mont Blanc með leiðsögumönnunum Erlendi og Guðrúnu Hörpu.
Við Mont Blanc Sumarið 2018 fóru systurnar Lilja og Bjargey í mikla ævintýraferð með hópi frá ferðaskrifstofunni Mundo og gengu í kringum Mont Blanc með leiðsögumönnunum Erlendi og Guðrúnu Hörpu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lilja Magnúsdóttir er fædd 30. ágúst 1963 í Borgarnesi en þá bjó fjölskyldan á Ánastöðum í Hraunhreppi. Seinna fluttist fjölskyldan að Stað í Borgarhreppi og þaðan að Hraunsnefi í Norðurárdal. Sagt er frá lífi og leik barnanna á Stað í bókinni Gaddavír og gotterí sem kom út árið 2022

Lilja Magnúsdóttir er fædd 30. ágúst 1963 í Borgarnesi en þá bjó fjölskyldan á Ánastöðum í Hraunhreppi. Seinna fluttist fjölskyldan að Stað í Borgarhreppi og þaðan að Hraunsnefi í Norðurárdal. Sagt er frá lífi og leik barnanna á Stað í bókinni Gaddavír og gotterí sem kom út árið 2022. „Það hefur bara allt breyst frá því að ég var lítil og það er erfitt að útskýra hvernig lífið var, þess vegna skrifaði ég þessar sögur,“ segir Lilja sem gaf bókina út sjálf með myndum eftir Sigríði Ævarsdóttur og Ólöfu Rún Benediktsdóttur.

Skólagangan hófst við sjö ára aldur í heimavistarskólanum á Varmalandi þar sem Lilja lauk áttunda bekk og fór þaðan í Reykholtsskóla og stundaði nám í þrjú ár. Svo var farið til Reykjavíkur og stúdentsprófi lokið frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla. Lilja kenndi einn vetur með stúdentsprófið eitt að vopni í Kirkjubæjarskóla á Síðu og hefur verið þar af og til síðan, sem kennari, forstöðumaður Héraðsbókasafnsins á Kirkjubæjarklaustri og síðast sem verkefnisstjóri og kynningarfulltrúi á Kirkjubæjarstofu.

Eftir stúdentsprófið fór Lilja í Heimspekideild Háskóla Íslands og lagði stund á íslensk fræði. Hún útskrifaðist þaðan 1990 með BA próf en bætti síðar við námi til kennsluréttinda og meistaraprófi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Lilja var formaður Mímis, félags íslenskunema í eitt ár.

Íslenskukennsla hefur verið aðalstarf afmælisbarnsins og hefur hún bæði kennt nemendum af íslenskum og erlendum uppruna. Menntaskólinn í Kópavogi naut starfskrafta Lilju í nokkur ár þar sem hún sá mikið um samskipti við nemendur af erlendum uppruna meðfram íslenskukennslunni. Eitt ár kenndi Lilja í Kópavogsskóla en kennir þessa dagana íslensku sem annað mál í Mími – símenntun. „Kennslan er í fjarnámi sem hentar vel fyrir fólk sem býr ýmist á Kirkjubæjarklaustri eða í Kópavogi.“

Meðfram kennslunni hefur Lilja skrifað vefinn Eldsveitir.is sem er fullur af frásögnum af sögu, náttúru og mannlífi í Skaftárhreppi. „Leiðsögumenn leita mikið á vefinn þegar þeir fara um slóðir Skaftárelda og Kötlugosa en þar er líka margt annað merkilegt eins og skipströndin við suðurströndina, baráttan við jökulfljótin, þar er fæðingarstaður Kjarvals, rætur grasaættarinnar og margt fleira áhugavert.“ Lilja var einnig pistlahöfundur fyrir Moggann í nokkur ár.

Lilja skrifaði smásöguna Svikarinn og fékk fyrir hana glæpasagnaverðlaunin Gaddakylfuna 2008. Sagan átti eftir að lengjast og varð að samnefndri skáldsögu sem kom út hjá Bókaútgáfunni Sæmundi 2018 og hjá Storytel 2019.

Ný bók eftir Lilju er að koma í bókabúðirnar. „Hún nefnist Friðarsafnið og fjallar um ungan mann sem er með fölsuð skilríki og hefur þess vegna falið sig í Háskóla Íslands í nokkra mánuði. Ungi maðurinn lendir í átökum sem valda því að upp um hann kemst en ungar konur reyna að bjarga honum frá lögreglunni með því að fela hann á Friðarsafninu sem ein þeirra rekur. Kærastinn er ekki eins hrifinn af uppátektinni og margt fer öðruvísi en ætlað var. Friðarsafnið verður að glæpavettvangi og samfélagsmiðlar loga.“

Áhugamál Lilju eru margvísleg til dæmis útivist, kórsöngur, tónlist, ferðalög, lestur og bókmenntir.

Fjölskylda

Sambýlismaður Lilju er Benedikt Lárusson, f. 19.2. 1961, húsasmíðameistari og framkvæmdastjóri. Þau eru búsett á Kirkjubæ I, Kirkjubæjarklaustri. Foreldrar Benedikts: Hjónin Ólöf S. Benediktsdóttir f. 25.10. 1936 d. 5.3. 2017, og Lárus Siggeirsson f. 25.6. 1936 sem býr á Kirkjubæ II og sinnir ýmsum verkefnum en meginverkefnið er að gera upp trukkinn Z6.

Börn Lilju og Benedikts eru 1) Ólöf Rún Benediktsdóttir, f. 22.8. 1990, myndlistarkona, hljóðmaður og ein þriggja sem mynda hljómsveitina Svartþoka. Sambýlismaður: Magnús Skúlason, tónlistarmaður og kennari; 2) Baldvin Lár Benediktsson, f. 4.9. 1996, matreiðslumeistari. Sambýliskona: Vigdís My Diem Vo, konditor og bakarameistari. Baldvin og Vigdís reka með fleirum veitingastaðinn Kjarr á Kirkjubæjarklaustri.

Systkini Lilju eru Bjargey Magnúsdóttir, f. 25.11. 1958, býr á Akranesi þar sem hún starfar á bókasafninu og í tónlistarskólanum; Halldór Magnússon, f. 8.12. 1960, býr í Ölfusi þar sem hann rekur fyrirtækið HM bílar með konu sinni, Bóel Sigurgeirsdóttur; Guðbrandur Magnússon, f. 1.5. 1962, býr á Syðri-Fljótum í Skaftárhreppi þar sem hann rekur tamningastöð með konu sinni, Kristínu Lárusdóttur; Sesselja Guðmunda Magnúsdóttir, f. 28.11. 1966, býr í Reykjavík og kennir í Melaskóla, og Magnhildur Magnúsdóttir, f. 8.11. 1971, býr á Seltjarnarnesi og starfar hjá Vegagerð ríkisins.

Foreldrar Lilju: Hjónin Svanhildur Guðbrandsdóttir, f. 22.11. 1934, og Magnús Halldórsson, f. 6.11. 1933, d. 27.2. 2023. Svanhildur og Magnús giftust 1958 og voru lengst af bændur. Magnús vann þó alltaf sem bílstjóri meðfram búskapnum. Þau hjónin bjuggu á Hraunsnefi í Norðurárdal þar til öll börnin voru farin að heiman en þá fluttu þau í Mosfellsbæ þar sem Svanhildur býr enn.