Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, segir að kaupréttir í nýsköpunarfyrirtækjum geti í sumum tilfellum verið mikilvægir.
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, segir að kaupréttir í nýsköpunarfyrirtækjum geti í sumum tilfellum verið mikilvægir.
„Þvert á það sem hefur stundum verið haldið fram erum við ekki á móti kaupréttarkerfum í nýsköpunarfyrirtækjum. Þvert á móti teljum við að þau geti verið mjög jákvæð fyrir starfsemina.“ Þetta segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri…

„Þvert á það sem hefur stundum verið haldið fram erum við ekki á móti kaupréttarkerfum í nýsköpunarfyrirtækjum. Þvert á móti teljum við að þau geti verið mjög jákvæð fyrir starfsemina.“

Þetta segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, í samtali við ViðskiptaMoggann spurður um viðhorf sjóðsins til kaupréttarkerfa í nýsköpunarfyrirtækjum. Slík kaupréttarkerfi hafa verið til umfjöllunar í kjölfar sölunnar á Kerecis í sumar, þar sem starfsmenn félagsins nutu góðs af sölunni eftir að hafa eignast hlut í félaginu.

Í eigendastefnu sinni gerir Birta þó engan greinarmun á kaupréttarkerfum í nýsköpunarfyrirtækjum annars vegar og stærri fyrirtækjum hins vegar. Í stefnunni segir að mikilvægt sé að gæta hófs í ákvörðun starfskjara. Sjóðurinn leggi áherslu á að kaupréttir til lykilstjórnenda og almennra starfsmanna hafi langtíma hagsmuni hluthafa að leiðarljósi. Jafnframt segir að slík kerfi verði fyrst og fremst að hafa skýr og mælanleg markmið sem auðvelt sé að rökstyðja fyrir hluthöfum.

„Þessi stefna okkar er lögð til grundvallar en síðan þar sem við gerum ekki greinarmun á nýsköpunarfyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum reynir á okkar starfsmenn að meta,“ segir Ólafur og bætir við að mikilvægt sé að geta rökstutt slíkar ákvarðanir fyrir sjóðfélögum.

„Stundum er mjög auðvelt að rökstyðja slíkt eins og í tilfelli Kerecis en aftur á móti er lykilatriði að horfa á stærð og umfang rekstursins. Í nýsköpunarfyrirtækjum er málefnalegt að segja að mörg af þeim fyrirtækjum séu ekki komin með miklar tekjur og þurfi að laða að sér starfsfólk. Kaupréttir í því tilfelli eru oft mikilvægir.“

Ólík sjónarmið

Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, segir í skriflegu svari að sjóðurinn hafi ekki mótað sér formlega opinbera stefnu um kauprétti eða aðrar breytilegar tekjur í nýsköpunarfyrirtækjum. Jafnframt segir að það megi færa rök fyrir því að ólík sjónarmið geti gilt um slík viðmið eftir því hvort um er að ræða fyrirtæki í nýsköpun, með fremur skamma rekstrarsögu og viðskiptamódel sem er í þróun samanborið við þroskaðri fyrirtæki.

„Í slíkum nýsköpunarfyrirtækjum er gjarnan takmarkaðra svigrúm til að greiða föst laun, óvissan um þróun og rekstrarárangur mun meiri, mikilvægt að beita markvissum hvötum til að hvetja stjórnendur og starfsfólk til að ná árangri við slíkar aðstæður auk þess sem möguleiki á miklum fjárhagslegum ávinningi fyrir fjárfesta getur verið mikill sem byggir gjarnan á mikilli drift og áræðni frumkvöðla,“ segir í svarinu.

Þó að sjóðurinn hafi ekki sett sér stefnu varðandi kauprétti í nýsköpunarfyrirtækjum er hann með almenna stefnu um starfskjarastefnu fyrirtækja sem finna má í hluthafastefnu sjóðsins. Sú stefna gildir einnig um nýsköpunarfyrirtæki. Í henni segir að mikilvægt sé að breytilegar greiðslur til starfsmanna hafi skýran rekstrarlegan tilgang og séu í samræmi við langtímamarkmið félagsins.

„Réttur til árangurstengdra launa byggi á viðmiðum til lengri tíma og sé með þeim hætti að sem minnst hætta sé á að sértækir hagsmunir eða skammtímasjónarmið hafi áhrif á þau kjör,“ segir meðal annars í stefnunni.