Stjórnsýsla Ríkið minnkar eyðslu.
Stjórnsýsla Ríkið minnkar eyðslu. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hörður Vilberg hordur@mbl.is „Það er skilningur á því að staðan er þröng,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar og formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana, um áform Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að fækka ríkisstarfsmönnum. Þegar á næsta ári á að lækka launagreiðslur til þeirra um fimm milljarða króna og fækka stofnunum.

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

„Það er skilningur á því að staðan er þröng,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar og formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana, um áform Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að fækka ríkisstarfsmönnum. Þegar á næsta ári á að lækka launagreiðslur til þeirra um fimm milljarða króna og fækka stofnunum.

Forstöðumenn ríkisstofnana fengu nýverið kynningu á áformum um fækkun starfa á næsta ári en hvernig það verður gert liggur ekki fyrir. Einhverjir munu eiga von á því að störf þeirra verði lögð niður.

Ærin verkefni nú þegar

„Við höfðum heyrt einhvern ávæning af þessu í nokkurn tíma þannig að þetta kom kannski ekki á óvart. Það sem þarf að athuga er að ríkisstarfsmenn og forstöðumenn ríkisstofnana og forstjórar þeirra eru í grunninn alls ekki á móti breytingum og við þurfum að líta í eigin rann hvað hagræðingu varðar eins og allir aðrir. Að sama skapi þurfum við að vera meðvituð um það að ríkisstofnanir starfa samkvæmt lögum og hafa ærin verkefni nú þegar,“ segir Helga.

Það birtist fólki með áþreifanlegum hætti. „Það kannast flestir við að hafa þurft að bíða lengur eftir þjónustu en skemur,“ segir Helga og bendir á að mikið sé að gera hjá ríkisstofnunum.

„Ég held að flestir þekki að það eru of mörg verkefni hjá opinberum starfsmönnum og of fáar hendur. Því við erum lítið land með litla stjórnsýslu en höfum sömu hlutverkum að gegna og hjá stærri þjóðum. Vera má að það sé einhvers staðar of mikið af fólki en ég hef ekki heyrt um marga slíka staði. Ég hef sjálf reynslu af því á eigin skinni,“ segir Helga.

Þingmenn blésu út báknið

„Við þekkjum öll þá gagnrýni að hið opinbera sé að þenjast út en það er ekki á ábyrgð ríkisstarfsmannanna. Það er þingmeirihluti sem samþykkir lög á Alþingi sem leggja á okkur skyldur. Það þarf að horfa á stóru myndina. Ríkisstjórnir samþykkja lög sem búa til ný verkefni ríkisstarfsmanna. Sum laganna eru vissulega með evrópska tengingu og hafa verið innleidd vegna aðildar Íslands að EES. Hvort sem það er samkeppnislöggjöf, persónuverndarlöggjöf eða matvælalöggjöf. Við viljum vera þjóð meðal þjóða. Þetta er hluti af því,“ segir Helga.

Hún telur mikilvægt að vandað verði til verka við hagræðingu í ríkisrekstrinum. „Við höfum dæmi um sameiningar sem áttu að leiða til sparnaðar en gerðu það ekki endilega. Það má vera að það séu of margar ríkisstofnanir í dag en mjög mikilvægt er að sameiningar- og hagræðingaraðgerðir fari fram með samtali. Það er örugglega hægt að gera eitthvað en það eru einhvers staðar mörk.“

Sama eigi við um ríkið

Er fjármálaráðherra kynnti stöðu ríkisfjármála sl. föstudag benti hann á að í atvinnulífinu væri alla daga leitað leiða til að gera meira með minni tilkostnaði. „Það er eðlilegt að hið sama eigi við í opinbera rekstrinum og þó staða ríkissjóðs sé langtum betri en við þorðum að vona má ekki gefa neinn afslátt af því,“ sagði Bjarni.