Mats Arne Jonsson fæddist í Borlänge í Svíþjóð 12. júlí 1957. Hann lést á krabbameinslækningadeild Landspítalans 15. ágúst 2023 eftir baráttu við krabbamein.

Foreldrar hans voru Arne Bror Jonsson, f. 1933, d. 2017, og Barbro Henrietta Jansson, f. 1936. Systkini hans eru Annica Jansson, f. 1962, og Tommy Jansson, f. 1963.

Mats bjó fyrstu æviárin í Borlänge í Svíþjóð en fluttist með móður sinni til Stokkhólms þegar foreldrar hans skildu. Þau bjuggu lengst af í Vällingby en Mats ferðaðist reglulega til föður síns í Dölunum og dvaldi þar meðal annars á sumrin.

Mats lauk stúdentsprófi frá menntaskólanum í Abrahamsberg og prófi í leikskólakennarafræðum frá Kennaraháskólanum í Solna. Hann stundaði einnig nám í Nordiska Folkhögskolan í Kungälv á leiklistarbraut þar sem hann kynntist eiginkonu sinni. Hann fluttist til Íslands 1988 og hóf þá störf sem leikskólakennari en hann var fyrsti karlmaðurinn á Íslandi með leikskólakennaramenntun. Samhliða þeim störfum sinnti hann kennslu í sænsku fram til 1995 og lauk einnig prófi frá Háskóla Íslands í íslensku fyrir erlenda stúdenta. Hann starfaði lengst af á leikskólanum Suðurborg en síðustu árin á Laugasól.

Eiginkona Mats er Halldóra Eyjólfsdóttir sjúkraþjálfari, f. 1964. Börn þeirra eru: 1) Hafdís Maria, f. 1992, kennari. Sambýlismaður hennar er Þorleifur Einarsson listamaður, f. 1989. Dóttir þeirra er Emilía Dagbjört, f. 2020. 2) Vera Hjördís, f. 1995, söngkona og meistaranemi í klassískum söng. Sambýlismaður hennar er Þorsteinn Freyr Fjölnisson, f. 1993, sýningarstjóri. 3) Snorri Mats, f. 1999, nemi í íþróttafræði. 4) Magdalena, f. 2002, nemi í hjúkrunarfræði.

Mats var mikill áhugamaður um leiklist og starfaði meðal annars með Teaterkompaniet í Gautaborg, Stúdentaleikhúsinu hér á Íslandi og Hugleik. Fljótlega eftir komuna til Íslands komst Mats í kynni við Knattspyrnufélagið Þrótt og gerðist dyggur stuðningsmaður liðsins. Upp frá því sótti hann iðulega fótboltaleiki með félaginu en í desembermánuði 2022 var Mats sæmdur silfurmerki Þróttar fyrir tryggð sína og störf fyrir félagið.

Útför Mats fer fram frá Langholtskirkju í dag, 30. ágúst 2023, kl. 13.

Elsku pabbi minn.

Orðin duga mér ekki til að tjá hvað missirinn er mikill. Tómarúmið er svo stórt og umlykjandi og skarðið sem myndast hefur innra með mér svo ótrúlega djúpt. Hjartasárin okkar ástvina þinna eru til marks um hvað við áttum ómetanlega mikið. Þú sást okkur fyrir skilyrðislausri ást og hlýju, húmor og minningum sem ættu í raun að endast okkur ævilangt en við vildum bara meira og meira.

Pabbi minn, hjartahreini og tilfinningaríki, sænski sósíalalistinn með sterku réttlætiskenndina. Tilfinningar þínar voru svo sterkar að stundum streymdu tárin niður kinnarnar, hvort sem tilefnið var gleði eða sorg. Þér var alltaf svo annt um fjölskylduna þína og settir okkar hag svo ótal oft fram yfir þinn eigin. Þetta birtist meðal annars í því þegar við Snorri og Magdalena hlupum tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2013. Það væri synd að segja að ég hafi verið í góðri æfingu og mjög snemma í hlaupinu dróst ég aftur úr og á milli mín og fótboltakappanna tveggja skapaðist fremur gleitt, en stöðugt, bil. Þú, sem hafðir ekki skráð þig í hlaupið, hljópst á milli okkar í flíspeysu og gallabuxum með bakpoka til að gefa hvatningu og vatnssopa en endaðir sjálfur á því að hlaupa tíu kílómetra og vel það.

Húmorinn þinn var einstakur sem og beinskeyttu tilsvörin sem engum öðrum hefði getað dottið í hug. Þegar þú lást fárveikur á krabbameinsdeildinni sástu til þess að við gætum glaðst og hlegið. Allt varð bærilegra, jafnvel þó að við værum nýbúin að fá erfiðar fréttir. Stundum hlógum við svo mikið að við þurftum að loka fram á gang, við gátum ekki hamið okkur. Þetta var þín leið. Takk fyrir það elsku pabbi minn.

Ég mun sakna þess að heyra ekki sönginn þinn berast innan úr stofu heima á Langó. Kim Larsen, Dylan eða Björn Afzelius á fullu blasti, söngurinn uppfullur af tilfinningu og stundum féllu nokkur tár. Það skipti ekki máli þó að þú gætir raunar ekki haldið lagi. Á sama tíma og við gátum ekki haldið aftur af hlátrinum var ekki heldur annað hægt en að hrífast með. Tónarnir voru fullir af innlifun og sál. Við munum sjá til þess að halda uppi hefðinni um að syngja jólasveinavísuna við matarborðið á aðfangadagskvöld.

„Ég elska þig líka Vera“ voru þín síðustu orð til mín og þau mun ég alltaf geyma hjá mér. Þú ert og verður alltaf hjá mér pabbi.

Vera Hjördís Matsdóttir.

Elsku ljúfi, sæti og fyndni pabbi minn. Ég get ekki fært það í orð hvað ég er heppin að hafa átt þig sem pabba, besta pabbann í heiminum. Þú varst okkar helsti peppari, aðdáandi númer eitt í einu og öllu. Þú mættir til dæmis á nánast hvern einasta leik sem ég keppti í fótboltanum, allt frá því ég byrjaði fimm ára gömul að æfa og þú skutlaðir mér og sóttir óteljandi oft á æfingar og leiki. Ég fann það langar leiðir hvað þú varst stoltur af mér. Þú varst alltaf mættur og jafnvel þótt ég væri að tapa leiknum 5-0 þá stóðstu, jafnvel einn í stúkunni, og öskraðir: „Áfram Þróttur!“ Þú mættir ekki bara á mína leiki heldur mættirðu líka á alla meistaraflokksleiki hjá Þrótti, alveg sama hvernig viðraði. Ég mun aldrei gleyma því þegar ég, þú, Snorri og Hafdís fórum saman til Njarðvíkur að horfa á Þrótt spila og það var brjálað veður, snjóstormur, haglél og læti. Við systkinin forðuðum okkur út í bíl í hálfleik en þú varst ekki að fara neitt og kláraðir auðvitað leikinn þótt það sæist ekki á völlinn. Þú varst með svo mikla ástríðu fyrir þínu liði, sama hvort þú varst að hlusta á mömmu, Veru eða Hafdísi syngja, horfa á mig eða Snorra í fótbolta, horfa á skíði, skíðaskotfimi, gönguskíði, hokkí, frjálsar, fótbolta, handbolta, innibandí og listinn heldur áfram. Þú hélst svo innilega með þínu liði.

Þú varst svo mikill húmoristi og við hlógum okkur máttlaus að þér og munum enn gera, til dæmis í sumar þegar þú horfðir á þig í speglinum og sagðir svo: „Helvíti er þetta fallegur maður, fallegasti maður á Íslandi!“ Þetta var nú alveg rétt hjá þér, maður á sjötugsaldri sem leit ekki út fyrir að vera deginum eldri en 35 ára.

Ég gæti skrifað svo ótal margt um þig en það er varla hægt að koma því í orð hvað þú varst einstakur og ekki veit ég hvað við gerum án þín en við lofuðum þér að við myndum passa hvert upp á annað.

Takk fyrir allt elsku pabbi minn, ég elska þig að eilífu.

Þín dóttir,

Magdalena Matsdóttir.

Stundum er erfitt að vera til. Hvernig eigum við sem eftir sitjum að geta haldið áfram pabbalausu lífi? Pabbi sem alltaf heilsaði og tók á móti okkur eins og það væri hátíð. Pabbi sem gat hlegið og grínast sama hvað. Pabbi sem alltaf var tilbúinn að skutla og sækja. Pabbi sem vildi allt fyrir fjölskylduna gera. Pabbi sem passaði að fjölskyldan væri náin og traust, til að grípa hvert annað í svona aðstæðum. Hann hefði grátið með okkur og fyrir okkur og viljað taka sársaukann frá okkur. Þegar íslenska karlalandsliðið í fótbolta komst fyrst á EM grét hann eftir hvern leik. Við hin rákum oft upp stór augu þó svo að við vissum öll að hann væri tilfinningaríkur maður. Að lokum féll Ísland úr leik eftir tap í átta liða úrslitum á móti Frakklandi. Ég hélt að maðurinn væri miður sín yfir úrslitunum en spurði svo af hverju hann væri að gráta. „Ég er bara svo glaður að börnin mín, sem koma frá litlu landi eins og Íslandi, fái að upplifa þessa tilfinningu.“ Þetta sagði hann auðvitað með sænska hreimnum sem ég var löngu hætt að heyra.

Pabbi var Þróttari af lífi og sál og fórum við oft í bíltúr í nærliggjandi sveitarfélög til þess að horfa á Þrótt spila. Við ferðuðumst t.d. einu sinni tvisvar í sömu vikunni til Njarðvíkur þar sem veðrið var svo vont að það var varla hægt að horfa á leikina fyrir láréttri snjókomu og hagléli. Við systkinin skemmtum okkur líka mikið yfir því þegar pabbi var næstum búinn að keyra niður lögregluþjón sem veifaði bílnum fyrir aftan okkar. Á Þróttaravellinum sparaði maðurinn heldur ekki tárin, hvort sem það var í gleði eða sorg. Enda ekki hver sem er sem hefur fengið mynd af sér á forsíðu íþróttablaðsins hágrátandi.

Pabbi var samt ekki alltaf grátandi þótt það megi lesa það úr þessum texta. Húmorinn var hans helsta vopn. Hann var alltaf tilbúinn að hlæja og grínast og hafði mikinn húmor fyrir sjálfum sér. Mínar uppáhaldsstundir með pabba voru á hverju ári þegar við horfðum á Melodifestivalen í Svíþjóð saman. Við ræddum lögin og hlógum og vissum auðvitað alltaf hvaða lög færu áfram hverju sinni. Ég var líka alltaf fljót að sjá hvaða lag pabba líkaði best; einhver einn eða ein með gítarinn að syngja með hjartanu, oftast smá falskt líka. En það skipti pabba engu máli, hann sá strax hverjir sungu af einlægni og sál. Þannig var hann líka, einlægur, með mikla réttlætiskennd, hélt alltaf með „litla“ liðinu, glaður og skemmtilegur.

Þó svo að pabbalaust líf verði erfitt og tómlegt skilur hann eftir sig svo margar og góðar minningar og verður eflaust á sveimi í lífi okkar um ókomna tíð, allavega í hjörtum okkar.

Hafdís Maria Matsdóttir.

Mats hitti ég fyrst á fundi með makafélagi kórs Langholtskirkju árið 1994, sem undirbúningur fyrir Englandsferð kórsins í júní. Þarna sátum við saman til borðs og þekktumst ekkert, en konur okkar kynntust í kórnum. Við áttum eftir að kynnast betur í Englandsferðinni, sem náði hápunkti um borð í listatogaranum Leifi Eiríkssyni sem lá við bryggju í London. Jakob Frímann Magnússon var þar með veislu þar sem m.a. kórinn söng og þekkt tónlistarfólk tróð upp. Við Mats reyndum að komast í kórinn með því að syngja fyrir Jón Stefánsson, án árangurs.

Við Mats eignuðumst börn á svipuðum tíma og urðu þau vinir enda höfum við alltaf búið í sama hverfinu og nánast á sömu þúfunni.

Mats hafði leikhæfileika og var um tíma meðlimur í leikhópnum Hugleik. Við komum okkur nokkrum sinnum í statistahlutverk í bíómyndum eins og Bíódögum og Agnesi og skemmtum okkur vel við tökur myndanna, þótt lítið hafi borið á okkur á hvíta tjaldinu. Mats komst þó nokkru lengra í kvikmyndaleik því hann fór með hlutverk sem danskur læknir í fyrstu seríu af Ófærð. Náði svo langt að segja nokkrar setningar í einum þættinum.

Það er ekki hægt að nefna Mats nema láta knattspyrnufélögin Þrótt og Liverpool fylgja með. Ég hef heyrt að Mats hafi verið Þróttari og orðið Köttari þegar hann snerti landið í fyrsta sinn. Hann lifði fyrir félagið og vann fyrir það, dæmdi t.a.m. leiki á ReyCup. Í desember á síðasta ári var hann sæmdur silfurmerki Þróttar og var hann mjög stoltur af því.

Árlega hringdi Mats í mig og minnti mig á að nú væri herrakvöld Þróttar að bresta á. Við fórum á nokkur slík. Oft var gengið heim eftir þessi kvöld og stundum í kulda og trekki. Minnisstætt er þegar við roguðumst heim með risastórt málverk sem keypt hafði verið á uppboði kvöldsins en ferðin sóttist frekar seint vegna þess hve málverkið tók á sig mikinn vind.

Það var gaman að fara með Mats á leiki með Þrótti, og vakti helst athygli mína hve mikið hann lifði sig inn í leikina. Hann lét ekkert trufla sig og í hvert sinn sem eitthvert atvik kom upp, rangstaða, horn, tækling eða spjald, dró hann upp litla vasabók og skrifaði eitthvað í hana.

Annars fylgdist Mats með öllum íþróttum, fátt undanskilið. Hann horfði á heimsmeistaramót, Evrópumót, Ólympíuleika, allt. Eina sem náði þó ekki athygli hans og taldi hann því ekki vera íþrótt var kappakstur. Það þýddi ekkert að ræða um F1 við hann.

Síðustu utanlandsferð Mats fórum við saman með eiginkonum okkar. Það var jólamarkaðsferð til Heidelberg í lok nóvember 2021. Þá voru veikindin farin að setja mark sitt á Mats. Við skemmtum okkur vel þrátt fyrir síendurtekin covid-próf, en þá var enn ein bylgja faraldursins að skella á. Sumarið 2022 áttum við svo saman ágætar stundir í sumarhúsi í Fnjóskadal, þrátt fyrir að veikindin hafi þá verið honum erfið.

En svo fór að meinið hafði betur og Mats hefur verið tekinn frá okkur. Hann mun áreiðanlega vera áfram til staðar í anda þegar Þróttur spilar, og tekur þá áreiðanlega niður punkta.

Hvíl í friði Mats Arne Jonsson. „YNWA.“

Helgi Baldvinsson og fjölskylda.