Anna Halldóra Karlsdóttir fæddist 16. nóvember 1944 á Þórshöfn. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 21. ágúst 2023.

Foreldrar hennar voru Karl Ásgrímur Ágústsson, bóndi og kaupmaður, f. 1910, d. 1991, og Þórhalla Steinsdóttir húsfreyja, f. 1916, d. 1999. Systkini Önnu eru: Halldór Karl, f. 1930, d. 2022, Steinn Þór, f. 1939, Katrín Helga, f. 1939, d. 2020, Ágúst Birgir, f. 1941, Þórhallur, f. 1943, d. 1983, Ásgrímur, f. 1947, Þórhildur, f. 1949, og Guðmundur, f. 1955.

Eiginmaður Önnu er Björn Þröstur Axelsson, f. 1944 búsettur í Garðabæ. Börn þeirra eru: 1) Halldór, f. 1962, lögfræðingur og býr á Suðureyri. Hann á Arnljót Björn með Þórdísi Arnljótsdóttur og Tómas Orra með Ástu Þorleifsdóttur. Stjúpdóttir hans er Lilja Steinunn Jónsdóttir. 2) Drengur, f. 1966, lést fimm daga gamall. 3) Axel, f. 1967, verkfræðingur, og maki hans Darcy Grace, eru búsett í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Axel eignaðist Björn Atla með Svanhildi Bragadóttur en börn Axels og Darcy eru Ásdís Loyalty og Anna Grace. 4) Birna, f. 1973, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður, og maki hennar Egill Ingi Jónsson, búa í Hafnafirði. Börn þeirra eru Daníel Ingi og Andri Jón.

Anna og Björn giftu sig 17 ára hinn 14. apríl 1963 í Akureyrarkirkju. Björn ólst upp og bjó á Akureyri og labbaði oft af eyrinni inn í Litla-Garð til að heimsækja Önnu. Björn varð fljótt hluti af Litla-Garðs-fjölskyldunni og var honum tekið vel og ljóst mjög snemma að Anna og Björn yrðu hjón. Þau voru gift í 60 ár.

Anna flutti ung með foreldrum sínum frá Þórshöfn til Akureyrar. Anna og Björn eignuðust Halldór þegar þau bjuggu á Akureyri. Snemma fluttu þau til Reykjavíkur þar sem Birni bauðst gott starf í verslun hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Anna starfaði einnig við verslun og var hennar fyrsta starf hjá Bernhard Laxdal í Kjörgarði við Laugaveg. Axel fæddist í Reykjavík. Síðan fluttu þau til Hafnar í Hornafirði þar sem þau áttu sín bestu ár. Birna fæddist meðan Anna og Björn bjuggu á Höfn en öll börnin ólust þar upp í góðu umhverfi. Lengst af starfaði Björn sem verslunarstjóri hjá Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga. Þá lá leið þeirra til Akureyrar þar sem þau stofnuðu AB-búðina í Kaupangi sem varð mjög vinsæl verslun. Björn og Anna fluttu síðan suður í Garðabæ þar sem þau stofnuðu Myndval í Mjódd sem bauð upp á myndvinnslu.

Anna átti við erfiðan sjúkdóm að stríða síðustu æviárin og tók hún því með jafnaðargeði eins og henni einni var lagið.

Anna Halldóra Karlsdóttir verður jarðsungin frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 30. ágúst 2023, klukkan 13.

Elsku mamma mín, Anna Halldóra Karlsdóttir, hefur loksins lokið sinni ævi og skilað sínu verki. Það fyrsta sem mér er minnisstætt er hvað móðir mín var falleg. Sem ungur drengur þá var ég ákveðinn í því að móðir mín væri fallegasta kona í heimi. Hún var líka mjög trúuð og lagði allt sitt traust á Jesú Krist.

Mér er sérstaklega minnisstætt þegar hún sat við rúmið mitt í Bogaslóðinni á Höfn, þá er ég um fimm ára gamall, og kenndi mér að biðja faðirvorið fyrir svefninn. Ekki bara að hún væri að færa kornungum syni sínum Guðs orð, heldur var hún að kenna honum bænina sem Jesús kenndi lærisveinum sínum áður en hann kvaddi sitt jarðneska líf. Síðan var það kærleikurinn sem hún sýndi mér og fyrir það er ég þakklátur. Mamma var engill í mínum huga. Engill sem færði mér náðargjöfina í bæn. Gjöf sem lifir að eilífu.

Takk mamma mín og við sjáumst brátt þar sem við munum lofa Guð saman að eilífu.

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um réttan veg fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal

óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum,

þú smyrð höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

(23. Davíðssálmur)

Axel Björnsson.

Mín fyrsta minning af ömmu Önnu er að sitja sem lítill strákur uppi á eldhúsbekk í Melás og fá hafragraut og hlusta á hana segja sögur og ævintýri. Ef maður var ragur við að borða fylgdi sagan af stráknum sem borðaði ekki hafragrautinn sinn og varð svo horaður að hann skaust upp til tunglsins þegar hann fór að vega salt.

Á mínum yngri árum eyddi ég öllum áramótum með ömmu Önnu, afa Birni og Adda frænda í Melás. Þá fórum við strákarnir og afi út að skjóta rakettum á meðan amma horfði í gegnum gluggann, þótt hún kærði sig lítið um flugelda.

Ömmu leið vel í eldhúsinu þar sem hún var einstaklega lunkin. Best var þó brúna randatertan sem einungis var bökuð einu sinni á ári. Meðan á bakstrinum stóð var algjört inngöngubann í eldhúsið. Maður mátti í mesta lagi standa í dyragættinni. En þar stóð maður og spurði reglulega hvort kakan væri ekki að verða tilbúin. Alltaf var rjómi með og má ég þakka ömmu ást mína á rjóma.

Þegar pabbi flutti til Danmerkur flugum við amma reglulega saman út í heimsókn. Amma var sterk og sjálfstæð og ávallt með réttsýnina að leiðarljósi. Einn daginn urðum við vör við vasaþjóf seilast ofan í tösku hjá konu nálægt okkur. Amma arkaði þá beint að honum, reif í hann og sagði á góðri íslensku: „Hvurn fjandann heldurðu að þú sért að gera!“

Það eru mikil forréttindi að hafa átt eins yndislega góða ömmu og ömmu Önnu. Takk fyrir allt, elsku amma.

Björn Atli Axelsson.