Sigurjón Vigfússon fæddist 30. mars 1951 í Reykjavík. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut þann 23. júlí 2023 í faðmi barna sinna.

Foreldrar Sigurjóns voru heiðurshjónin Vigfús Sigurjónsson, f. 19. nóvember 1920, d. 1. júlí 1983, og Sigríður Jóhanna Andrésardóttir, f. 15. desember 1923, d. 26. október 2011. Systkini Sigurjóns eru: Andrés Ingi, f. 22. mars 1950, Hinrik, f. 13. nóvember 1957, og Rannveig, f. 8. júní 1960.

Árið 1973 kvæntist Sigurjón Sigurlaugu Jóhannsdóttur, f. 18. ágúst 1951. Börn þeirra eru: a) Rúnar Sigurður, f. 28. mars 1976, eiginkona Helga Pálmadóttir, f. 8. febrúar 1978, þeirra börn eru Rannveig Ása Breiðfjörð, f. 13. apríl 2013, og Sigurjón Pálmi Tobias, f. 15. júní 2017. b) Andri Þór Sigurjónsson, f. 23. maí 1980, eiginkona Anna Helga Ragnarsdóttir, f. 4. maí 1985, þeirra börn eru Jóhanna Bryndís, f. 16. febrúar 2012, Karen Björg, f. 14. maí 2016, d. 14. maí 2016, Hilmar Freyr, f. 13. mars 2018. c) Jóhanna Björg, f. 23. september 1985, eiginmaður Benjamín Magnússon, f. 21. júlí 1982, þeirra börn eru Bjarki Leó, f. 28. ágúst 2001, Benjamín Leó, f. 27. apríl 2006, Andri Leó, f. 25. mars 2018, og Embla Rós, f. 27. júní 2019.

Sigurjón hóf störf hjá Álverinu í Straumsvík upp úr tvítugu og starfaði þar alla sína tíð, sinnti störfum trúnaðarmanns og beitti sér ötullega fyrir öryggi starfsmanna. Sótti hann Stóriðjuskólann sem var komið á fót í álverinu og útskrifaðist þar sem stóriðjugreinir. Hann var áhugamaður um tækni og nýjungar, lestur fræðirita og ævisagna, myndlist, sem hann stundaði þegar færi gafst og var lunkinn í höndunum. Sigurjón var mikill fjölskyldumaður. Hann opnaði augu barnabarnanna fyrir listum og vinnu í höndum.

Útför hefur farið fram í kyrrþey. Aska Sigurjóns verður jarðsett í kirkjugarði Hafnarfjarðar í dag, 30. ágúst 2023.

Elsku pabbi.

Það er tómlegt án þín, elsku pabbi. Ég sakna þess að fá símhringingar frá þér og sakna þess að geta ekki hringt í þig.

Frá því þú fórst frá okkur þá hafa komin ófá atvik upp þar sem ég hef hugsað „mikið rosalega væri gaman að segja pabba frá þessu, hann hefði hlegið og haft gaman af“.

Það var líf og fjör í fjölskyldum okkar og alltaf nóg af skemmtilegum sögum sem hægt er að segja frá og hlæja að. Sem betur fer erum við börnin þín, tengdabörn og barnabörn öll sannir grínistar og höfum gaman af góðum sögum og getum hlegið og hugsað til þín, hvað þér hefði þótt gaman að taka þátt og heyra af þeim sögum.

Pabbi minn var kletturinn minn og besti vinur.

Við skiptumst á símtölum nær daglega og töluðum um allt sem okkur datt í hug. Við gátum leitað hvort til annars ef þannig lá á hjarta. Pabbi passaði alltaf vel upp á mig og mína.

Þegar jarðhræringarnar hófust í Meradölum þá hafði hann miklar áhyggjur af því ef hraun myndi fara að renna yfir Reykjanesbrautina og þótti honum óþægilegt að vita til þess að ég og Benni værum í vinnu í bænum en börnin okkar í skóla og leikskóla í Njarðvík, að við foreldrarnir kæmumst ekki til barnanna okkar í tæka tíð.

Ég sagði við hann að hann þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur við myndum alltaf finna leiðir til að sameinast aftur.

Við fylgdumst vel með öllum jarðskjálftum og hann hringdi í mig þegar stóru skjálftarnir komu til að athuga hvort það væri ekki allt í lagi með mig því ég hef alla tíð verið hrædd við jarðskjálfta og hef oftar en ekki hlaupið í fangið á honum í leit að huggun. Loks kom gos og við fylgdumst bæði með því daglega og horfðum á gosið sitt úr hvorum glugganum og húsinu. Við sáum vel bjarmann sem kom frá gosinu. Þetta var einstakur tími sem við áttum saman sem ég hugsa reglulega til og þykir mér afskaplega vænt um þann tíma.

Það er sárt að sjá á eftir þér, pabbi, ég á eftir að sakna þín!

Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabbi minn

vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.

En minning þín hún lifir í hjörtum okkar hér

því hamingjuna áttum við með þér.

Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu,
okkar ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.

Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann skína inn

þá gleður okkur minning þín, elsku pabbi minn.

Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú á braut

gleði og gæfa okkur fylgdi með þig sem förunaut.

Og ferðirnar sem fórum við um landið út og inn

er fjársjóðurinn okkar pabbi minn.

(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)

Þín dóttir,

Jóhanna Björg.

Elsku afi.

Það var alltaf gott að koma til þín. Afi átti alltaf eitthvað gott í kexskúffunni sinni. Hann átti líka nóg af sögum til að segja og voru þær allar skemmtilegar.

Það var alltaf hægt að gera eitthvað hjá afa mála, teikna, syngja, horfa á sjónvarp eða bara skoða gamlar myndir.

Honum þótt sjálfsagt að við barnabörnin fengjum að vera eins og við erum og tók hann okkur öllum með jafnaðargeði sínu og sýndi okkur ást og umhyggju.

Hann elskaði okkur mikið og áttum við gott samband við hann, hvert og eitt okkar.

Í bænum okkar, besti afi

biðjum fyrir þér

að Guð sem yfir öllu ræður,

allt sem veit og sér

leiði þig að ljóssins vegi

lát’ þig finna að,

engin sorg og enginn kvilli

á þar samastað.

Við biðjum þess í bænum okkar

bakvið lítil tár,

að Guð sem lífið gaf og slökkti

græði sorgarsár.

Við þökkum Guði gjafir allar

gleði og vinarfund

og hve mörg var ávallt með þér

ánægjunnar stund.

(Sigurður Hansen)

Við eigum eftir að sakna þín elsku afi en þú verðurt ávallt í hjörtum okkar.

Þín barnabörn,

Bjarki Leó, Benjamín Leó, Andri Leó og Embla Rós.

Kæri afi, nú ertu farinn í Sumarlandið. Við Sigurjón Pálmi söknum þín mjög mikið og erum þakklát fyrir að hafa átt þig að. Þú bauðst mömmu Vallý svo velkomna í líf þitt. Varst líka svo ánægður þegar ég, mamma Helga og pabbi fórum til Tékklands að sækja Sigurjón Pálma. Það var líka svo fallegt hvað þú varst glaður þegar þú fékkst að vita að hann bæri þitt nafn, þú einfaldlega grést af gleði. Sem er var eitt það fallegasta sem ég hef séð. Skemmtilegast var að fara í heimsókn til þín. Þá var alltaf hægt föndra, mála og fá afa-kex. Sigurjón Pálmi fékk líka að skoða og prófa og spjalla um verkfærin þín, það þótti honum og þér alltaf svo skemmtilegt. Þú varst svo duglegur að styðja okkur og styrkja í því sem við gerðum. Þú mættir til dæmis á allar leiksýningarnar sem ég hef tekið þátt í og færðir mér alltaf rós í lok sýningar.

Svo fannst þér alltaf gaman að ulla á okkur systkinin þó við ulluðum ekki alltaf til baka. Okkur fannst það líka gaman eins og þér. Ég á eftir að sakna þess að þú leiðir mig, knúsana þinna og skrýtnu grettanna. Þú munt alltaf lifa í hjarta mínu, elsku afi,

Þín

Rannveig Ása.

Brot. Rauðhærður gutti á 10. ári hleypur eftir götunni sinni alsæll og tilkynnir hverjum sem heyra vill „við eigum skvísu!“. Rauðhærði guttinn kominn á 13. ár og kominn í sumarvinnu fær fyrstu útborgun. Fer í sparifötin og litla systir í kjól og sportsokkum er leidd niður í bæ og beint í dótabúðina. Hillur fullar af leikföngum og tvær efstu hillurnar fullar af dúkkum, þær stærstu í þeirri efstu. Litla systir hógvær og lítur ekki í þá efstu en sá rauðhærði bendir þangað og vill fá þær til nánari skoðunar. Sú stutta velur að lokum dúkkustrák í rauðum stuttbuxum með „ýlu“ í bakinu og er alsæl og dúkkustrákurinn er með í leikjum næstu árin og er með í leikjum afkomenda. Litla systir orðin sjö ára og fær að fara með föður og rauðhærða unglingnum á „hobbý-trillunni“ hans pabba að vitja um net. Ekkert gefið eftir við að draga netin inn í bátinn og taka fiskana úr. Hvíta vinnusvuntan útötuð í marflóm í lokin, oj, litla systir ekki sátt, sá rauðhærði fljótur að rífa hana af og skolar í sjónum, allt orðið gott. Ófáir túrar saman á næstu árum, já við vorum sjómenn! Skólaball hjá litlu systur, elsti bróðirinn kaupir ný föt á litlu systur og sá rauðhærði straujar, litla verður að vera almennilega til fara. Sá rauðhærði stríðir litlu systir og hún lemur hann og hann skýlir sér bak við pabbann en svarar aldrei. Litla systir ásamt eiginmanni leitar ráða hjá þeim rauðhærða með ýmsar framkvæmdir í híbýlum og bílaviðgerðum, alltaf sjálfsagt. Málverk og ljóð rata í hendur litlu systur, allt unnið af kærleika þess rauðhærða.

Fjölskyldan stækkar, einstaklingar teknir inn í hópinn, börn fæðast, dauðinn bankar á dyrnar, erfitt en gott að ræða við þann rauðhærða og lífið heldur áfram. Litla systir orðin ekkja og flytur í nýja íbúð, vaskurinn á baðherberginu stíflast, sá rauðhærði ekki í bænum. „Farðu í verkfærakassann þinn og náðu í rauðu rörtöngina og hreinsaðu vatnslásinn og rörin, hringdu aftur ef þetta gengur ekki.“

Systurdóttir þess rauðhærða lendir í alvarlegu slysi erlendis. Litla systir dvelur hjá henni næsta hálfa árið, þær koma heim í hreina íbúð, sá rauðhærði búinn að þrífa íbúðina með yngri rauðhærða bróðurnum, góð heimkoma. Litla frænka heldur áfram endurhæfingu og sá rauðhærði mætir nær daglega og lætur hana keyra því hún er hrædd við að byrja aftur að keyra. Þau ræða daginn og veginn og alltaf fær hún hól og jákvæðni frá honum ásamt slatta af gríni og stríðni og hún kemur sterkari úr hverri ferð og keyrir um allt í dag. Litla systir ósátt við þann rauðhærða því hann hugsar ekki nógu vel um sig, „þú getur ekki sinnt hinum ef þú hugsar ekki fyrst um þig“, „ég veit það“, en það er bara haldið áfram og alltof, alltof skjótt og alltof fljótt er komið að skuldadögum. Skvísan situr eftir með hjartað fullt af söknuði en líka með svo mikið, já, heilan helling, af fallegum og góðum minningum.

Sá rauðhærði var mikill pabbi og enn meiri afi, þeirra og eiginkonu er missirinn mestur.

Kveðja, Skvísan,

Rannveig Vigfúsdóttir.

Elsku Sigurjón.

Ég kynntist þér fyrir tæplega tíu árum, þegar fjölskyldur okkar hittust yfir því að kynnast hvor annarri því ég var ólétt að Rannveigu Ásu og ég vildi ekki hafa þetta vandró þegar hún kæmi í heiminn. Ég vil þakka þér frá mínum dýpstu hjartarótum hversu vel þú tókst mér, og ekki bara þú heldur öll fjölskyldan þín. Takk fyrir að vera alltaf góður við mig. Takk fyrir að vera besti afi heimsins. Takk fyrir fallegu ljóðin, þau munu fylgja okkar konu um ókomin ár. Takk fyrir að hafa alltaf komið með blóm á allar leiksýningar Rásunnar okkar. Takk fyrir að hafa alltaf verið til staðar fyrir barnabörnin þín og takk fyrir að hafa verið fyrirmynd Rannveigar Ásu í að mála og skapa. Þín verður sárt saknað og minnst sem dásamlegs manns og einstaks afa. Ég mun halda minningu þinni á loft um ókomna tíð fyrir Rásuna sem saknar afa síns svo mikið.

Elsku bestu Sigurlaug, Rúnar og Helga, Andri og Anna Helga, Jóhanna og Benni, Rannveig, Andrés og Hinrik, ég sendi ykkur og öllum fallegu og flottu barnabörnunum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Stór ást út í kosmósið.

Ástarkveðjur,

Valgerður Breiðfjörð Ólafsdóttir (Vallý).