Raunstýrivextir á mælikvarða liðinnar verðbólgu eru nú um 1,7%. En þegar litið er til framsýnna mælikvarða líkt og verðbólguvæntinga eru þeir verulega háir, eða um 4%.

Efnahagsmál

Steingrímur Arnar Finnsson

Framkvæmdastjóri hjá Fossum fjárfestingarbanka hf.

Í liðinni viku hækkaði peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands stýrivexti um 50 punkta og standa þeir nú í 9,25%. Flestir markaðsaðilar bjuggust við 25 eða 50 punkta hækkun en nefndin hefur að undanförnu gefið til kynna að hún vilji fremur hækka vexti of mikið en of lítið. Tók ákvörðunin væntanlega mið af því, enda eru tæp þrjú ár síðan verðbólga fór yfir efri mörk verðbólgumarkmiðsins (4%).

Loksins kveður við mýkri tón hjá nefndinni frá því í maí sl. – þegar vextir hækkuðu um 125 punkta. Í tilkynningu nefndarinnar í síðustu viku segir að peningastefnan muni „á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga“. Með öðrum orðum: Hagtölur næstu vikna stýra því hvort vextir standi óbreyttir eða hækki lítillega á næsta fundi hennar í október.

Merki um aukið jafnvægi í þjóðarbúskapnum

Undirritaður rakti í aðsendri grein í ViðskiptaMogganum hinn 7. júní sl. hvernig leiðandi hagvísar gæfu fyrirheit um minnkandi þenslu í þjóðarbúskapnum. Nú er talið að einkaneysla hafi skroppið saman um rúmlega 1% milli ára á öðrum ársfjórðungi, þrátt fyrir hátt atvinnustig og metfólksfjölgun. Það væri fyrsti samdráttur frá árinu 2020 þegar gríðarleg óvissa ríkti í efnahagslífinu og heimsfaraldur takmarkaði möguleika til neyslu. Nú er annað upp á teningnum, en áætla má að hærri vextir hvetji heimilin til aukins sparnaðar og helst þetta í hendur við vaxandi svartsýni neytenda. Seðlabankinn hefur því fært niður hagvaxtarspá sína fyrir árið úr 4,8% í 3,5%, en þó reiknar hann með því að einkaneysla taki aftur við sér á síðari hluta árs.

Þegar vísbendingar verða staðreyndir

Ef þjóðhagsreikningar Hagstofunnar fyrir annan ársfjórðung, sem birtast á næstu dögum, staðfesta ofangreindan samdrátt mun það styrkja rökin fyrir því að verðþrýstingur innanlands fari minnkandi. Áhugavert verður einnig að sjá tölur um atvinnuvegafjárfestingu, en áætlað er að hún vaxi einungis um 1,6% á árinu í heild sinni eftir rúmlega 15% vöxt í fyrra.

Tvær mælingar á vísitölu neysluverðs verða svo birtar áður en peningastefnunefnd kemur aftur saman, en Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að verðbólgan hækki lítillega úr 7,6% í júlí og mælist 7,7% á yfirstandandi fjórðungi. Margt bendir til þess að þetta sé ofmat og virðist áhættan varðandi verðbólguna snúa niður á við næstu mánuði. Íbúðaverð hefur gefið eftir tvo mánuði í röð og má reikna með því að
framlag húsnæðiskostnaðar til verðbólgu fari hratt lækkandi næsta misserið. Framleiðsluverð á matvælum hefur aðeins hækkað um 0,3% síðustu þrjá mánuði og gæti 10% styrking krónunnar frá lægstu gildum vetrarins, samhliða hjöðnun verðbólgu á heimsvísu, leitt til verðlækkana á ýmsum innfluttum vörum.

Framsýn leiðsögn það sem koma skal

Raunstýrivextir á mælikvarða liðinnar verðbólgu eru nú um 1,7%. En þegar litið er til framsýnna mælikvarða líkt og verðbólguvæntinga eru þeir verulega háir, eða um 4%. Frekari hjöðnun verðbólgu mun því auka aðhaldsstig peningastefnunnar verulega næsta misserið á sama tíma og þensla fer minnkandi. Því er ljóst að við höfum nálgast hæsta tind stýrivaxtahækkunarferlisins. Fram undan er tími þar sem Seðlabankinn mun setja vaxtatækið til hliðar og styðjast í enn meiri mæli við framsýna leiðsögn. Slíkt mun m.a. fara fram í útgefnu efni bankans, viðtölum og öðrum tækifærisræðum. Grannt verður hlustað eftir merkjum um breyttan tón. Mun Seðlabankinn breyta sinni leiðsögn þegar hann sér til lands með að ná verðbólgu aftur í markmið, eða byggja sína afstöðu á sterkum leiðandi hagvísum? Að mínu mati verður það einhvers staðar á miðri leið – enda býr bankinn yfir bestu gögnum hverju sinni um alla þætti hagkerfisins.

Í þessu ljósi blasir það við að umræðan um takt peningastefnunnar mun fljótlega fara að snúast úr því að fjalla um hvort vextir hafi náð hámarki, í það hvenær og hversu hratt þeir geta lækkað.