Í Tjarnarbíói Leikhópurinn samdi sýninguna Sund saman inn í sviðsmyndina sem inniheldur 3.000 lítra af vatni.
Í Tjarnarbíói Leikhópurinn samdi sýninguna Sund saman inn í sviðsmyndina sem inniheldur 3.000 lítra af vatni. — Ljósmyndir/Owen Fiene
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við leikhópurinn vildum gera tilraun með samsköpunarverk og veltum fyrir okkur hvað væri gaman að hafa á sviði og hver gæti verið mögulegur skýr fagurfræðilegur heimur sem hægt væri að byggja sýningu inn í

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Við leikhópurinn vildum gera tilraun með samsköpunarverk og veltum fyrir okkur hvað væri gaman að hafa á sviði og hver gæti verið mögulegur skýr fagurfræðilegur heimur sem hægt væri að byggja sýningu inn í. Fljótlega kom upp að okkur langaði að gera verk um sund, af því það er heimur með skýrar reglur, skýr hegðunarmunstur og skýra fagurfræði. Við gátum ekki sleppt þessari hugmynd og þar fyrir utan er ég mikill sundáhugamaður, fer mikið í sund, hef lengi verið með árskort og nýti mér sundlaugar höfuðborgarsvæðisins,“ segir sviðslistamaðurinn Birnir Jón Sigurðsson, höfundur og leikstjóri sýningarinnar Sunds, sem frumsýnd verður í Tjarnarbíói á morgun fimmtudag. Sund er sjónrænt, spaugilegt og blautt leikrit sem fjallar um sundmenningu okkar Íslendinga.

„Við vorum fjögur sem byrjuðum að vinna saman að þessari sýningu, ég, leikkonurnar Eygló Hilmarsdóttir og Þórey Birgisdóttir og tónskáldið Friðrik Margrétar-Guðmundsson. Fyrsta skrefið var að við settum upp litla tilraunasýningu í Tóma rýminu í Skerjafirði, sem var í raun tuttugu mínútna skissa að þessari stærri sýningu núna. Við vorum með uppblásna litla laug og lítinn sánubekk, en við fengum fimmtíu áhorfendur inn og þetta sló í gegn. Í kjölfarið fengum við styrk úr Sviðslistasjóði til að stækka sýninguna og setja hana upp. Þá bættust í hópinn dansararnir Erna Guðrún Fritzdóttir og Andrean Sigurgeirsson, leikarinn Kjartan Darri Kristjánsson og leikmyndahönnuðurinn Kristinn Arnar Sigurðsson. Fyrsta skrefið eftir styrkinn var að hann hannaði leikmynd og byrjaði að smíða. Leikhópurinn skapar svo sýninguna inn í þessa leikmynd sundlaugarinnar.“

Hópurinn fékk inni hjá Tjarnarbíói og Birnir segir að þó nokkur tæknileg áskorun hafi verið að setja upp sundlaug inni í leikhúsinu, sem tekur rúmlega 3.000 lítra af vatni.

„Þetta var svakalega mikið vesen, sérstaklega í ljósi þess að það er ekkert niðurfall á sviðinu í Tjarnarbíói. Við erum fyrir vikið með alls konar lausnir, iðnaðardælur dæla vatninu út í port og það hefur verið mikið vesen að fyrirbyggja að vatn flæði út um allt, því ekki viljum við eyðileggja Tjarnarbíó. Mikill tími hefur farið í uppsetningu og frágang, enda er í raun búið að smíða heila sundlaug inni í leikhúsinu.“

Sex heilar fara saman á flug

Birnir segir að samsköpun sé ferli sem hann hafi mikla trú á og hafi mjög gaman af.

„Þó ég sé skráður höfundur og leikstjóri, þá skapar allur leikhópurinn saman þessa sýningu. Það gengur þannig fyrir sig að ég set fyrir verkefni. Það getur til dæmis verið að spinna atriði inni í gufubaði, eða ofan í heita pottinum og leikhópurinn tekur svo við og mótar hugmyndir innan þess ramma. Þau búa kannski til persónur, samtöl eða dans. Í upphafi snýst þetta um magn. Fyrstu vikuna bjuggum við sem dæmi til fimm klukkutíma af efni, svo valdi ég bestu bútana og við mótuðum þá áfram í sameiningu. Í staðinn fyrir að það vinni bara einn heili að þessu, þá erum við sex heilar sem náum að fara á flug með þetta saman. Út úr þessu kemur náttúrulegra tal en líka miklu súrrealískari atriði en annars væri. Við náum að slá í „últranatúralisma“ og algjöra sýru, eins og til dæmis að dansa ballett á froskalöppum. Í þessari samsköpun verða til fjölþætt atriði sem ná að spanna stórt litróf, spanna margar sundlaugar. Þar sem þetta er unnið beint inn í leikmyndina þá verður þetta mjög sjónrænt og passar fullkomlega inn í laugina. Sundlaugin leikur í raun aðalhlutverk sýningarinnar, en til að skapa sýningu þar sem aðalhlutverkið er leikmynd, þá þurfum við að vera í samtali við hana alla sýninguna.“

Heitur pottur af listafólki

Birnir segir að eitt af því sem
honum finnist frábært við sundmenningu okkar Íslendinga, sé að allir tengi við hana.

„Langflestir hafa farið í sund og þekkja aðstæður sem koma upp þar. Til dæmis er atriði í sýningunni þar sem erlendur ferðamaður leitar að stað til að leggja frá sér handklæðið sitt, en allir hafa séð túrista í sundlaugum vera í stökustu vandræðum með handklæði. Mér finnst sund vera einhvers konar samnefnari okkar Íslendinga. Við erum jú öll látin fara í skólasund og það eru sundlaugar í hverju einasta bæjarfélagi, sama hvort þar búa þrjátíu manns eða mörg þúsund. Við Íslendingar erum með einhvers konar þráhyggju fyrir sundlaugum. Sundlaugar eru almenningsgarðar okkar Íslendinga. Þetta er staðurinn þar sem við getum komið saman, hitt óvænt hinn og þennan og þar gilda alls konar reglur sem við þekkjum öll, frá blautu barnsbeini,“ segir Birnir og bætir við að pottaspjallið sé stórmerkilegt fyrirbæri sem allir þekkja sem í sund hafa farið en þar geti fólk orðið vitni að alls konar útgáfum af spjalli.

„Þetta er oft mikið tuð, en maður getur líka lent inn á mjög krassandi samræðum sem maður hefði ekki heyrt annars staðar. Það virðist vera í lagi að vera á trúnó í þessu almenningsrými sem sundlaug og heitir pottar eru. Við rannsökum þetta svolítið í sýningunni, hvernig við, í gegnum slík samtöl fáum svolitla innsýn inn í líf annarra, förum jafnvel að búa okkur til sögur af öðrum sundgestum. Sumir búa sér til sundkærasta eða -kærustu sem þeir sjá í lauginni,“ segir Birnir og bætir við að í sýningunni séu dansatriði og mögnuð tónlist.

„Andrean dansari stýrir kóreógrafíu í samstarfi við hópinn og Friðrik tónskáld leikur líka hlutverk sundlaugarvarðar í sýningunni. Allir leika og allir dansa. Þetta er hrærigrautur, heitur pottur af listafólki.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir