Víkingabáturinn Örninn hefur undanfarin misseri verið geymdur við Sundahöfn. Nú er búið að tryggja framtíðarstað fyrir hann við Hjörleifshöfða.
Víkingabáturinn Örninn hefur undanfarin misseri verið geymdur við Sundahöfn. Nú er búið að tryggja framtíðarstað fyrir hann við Hjörleifshöfða. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Nú er tryggt að víkingabáturinn Örninn fær framhaldslíf. Báturinn verður fluttur að Hjörleifshöfða á Mýrdalssandi, þar sem hann verður til sýnis.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Nú er tryggt að víkingabáturinn Örninn fær framhaldslíf. Báturinn verður fluttur að Hjörleifshöfða á Mýrdalssandi, þar sem hann verður til sýnis.

Morgunblaðið birti í mars á þessu ári frétt þess efnis að Reykjavíkurborg hygðist farga Erninum en bátinn fékk borgin að gjöf fyrir nærri hálfri öld. Báturinn væri metinn ónýtur og hefði hann afar takmarkað menningarsögulegt gildi. Mikil viðbrögð urðu við fréttinni og sýndu margir áhuga á að eignast bátinn. Förgun Arnarins var sett á bið og safnað saman nöfnum áhugasamra, sem höfðu gefið sig fram við Borgarsögusafnið.

Tenging við sögu bátsins

Nú liggur niðurstaða fyrir. Á síðasta fundi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs var samþykkt erindi frá Victori Berg Guðmundssyni og ferðaþjónustufyrirtækinu Viking Park Iceland um að þeir tækju að sér bátinn Örninn með það í huga að gera hann upp og hafa til sýnis við Hjörleifshöfða. Lögð verði áhersla á tengingu við sögu bátsins, sögu útgerðar og siglinga á svæðinu, landnámssögu Íslands og kvikmyndasöguna.

„Við viljum koma bátnum fyrir við Hjörleifshöfða þar sem fólk getur skoðað Örninn, kynnt sér landnámssöguna og sögu Mýrdalshrepps,“ segir m.a. í greinargerð Victors Berg. Í Landnámabók sé getið um einn fyrsta bústað norrænna manna á Íslandi í Hjörleifshöfða með komu Hjörleifs Hróðmarssonar, fóstbróður Ingólfs Arnarsonar, í upphafi landnáms.

Áformað er að hafa bátinn til sýnis við Hjörleifshöfða yfir sumartímann. Í hópi eigenda eru tveir faglærðir húsasmíðameistarar sem sérhæfa sig í byggingu timburhúsa og kunna því vel til verka, segir Victor. Ekki standi til að gera Örninn sjófæran. Að vetrarlagi verður bátnum komið í skjól.

Fram kemur hjá Victori að Viking Park Iceland sé að byggja upp sögutengda ferðaþjónustu við Hjörleifshöfða og Hafursey. Innviðauppbygging við Hjörleifshöfða verði í samstarfi við Sanna landvætti. Eigendur Viking Park Iceland komu að varðveislu bátsins Skaftfellings í Mýrdalshreppi. Skaftfellingur hélt uppi samgöngum frá Reykjavík um Vestmannaeyjar austur í Skaftafellssýslur á árunum 1918-1939 og eftir það milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur fram til ársins 1959.

Fjölmargir sýndu Erninum áhuga eins og fyrr segir.

Þorgrímur Ómar Tavsen hefur síðastliðin ár unnið að því að koma upp smábátasafni sem sérhæfir sig í sýningu súðbyrtra trébáta og veiðarfæra tengdum smábátum á Íslandi. Smábátasafnið er staðsett á Ytri-Húsabakka við Héraðsvötnin í Skagafirði. Þorgrímur hafði áhuga á að fá bátinn á safnið.

Sömuleiðis Svavar Sigmundsson á Akureyri. Hann hafði hug á að koma bátnum fyrir á lóð á Eyrinni. Þar yrði jafnframt sett upp aldagömul smiðja. Þetta yrði aðdráttarafl fyrir almenning.

Aðrir aðilar sem sýndu málinu áhuga og höfðu samband við Borgarsögusafn, en sendu ekki inn formlegt erindi: Davíð Lúther Sigurðarson er að gera upp torfbæ við Hafnir og vill styrkja ferðaþjónustuna. Hann hugðist hafa bátinn hjá tilgátutorfbænum, uppi á landi.

Gunnar Arngrímur Birgisson kafari viildi að bátnum yrði sökkt nærri Reykjavík, svo hann yrði aðdráttarafl fyrir kafara.

Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndaleikstjóri hafði áhuga á að fá bátinn á Laugarnestanga og hafa meðal annarra muna er tengjast kvikmyndagerð hans.

Kristinn Þór Egilsson, Hnjóti, óskaði eftir því að taka Örninn í sína vörslu öllum að kostnaðarlausu og gera hann upp við flugskýlið á Hnjóti.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson