Forysta Óskar Hrafn Þorvaldsson þakkar fyrir stuðninginn eftir fyrri leik liðanna, sem Blikar unnu 1:0, í Ohrid í Norður-Makedóníu í síðustu viku.
Forysta Óskar Hrafn Þorvaldsson þakkar fyrir stuðninginn eftir fyrri leik liðanna, sem Blikar unnu 1:0, í Ohrid í Norður-Makedóníu í síðustu viku. — Ljósmynd/Aleksandar Djorovic
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það hefur verið mjög auðvelt. Við höfum ekki gefið Víkingum eða þessum leik mikinn gaum eftir að honum lauk. Ég held að það séu aðallega fjölmiðlar sem eru uppteknir af því, frekar en við,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari…

Sambandsdeildin

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Það hefur verið mjög auðvelt. Við höfum ekki gefið Víkingum eða þessum leik mikinn gaum eftir að honum lauk. Ég held að það séu aðallega fjölmiðlar sem eru uppteknir af því, frekar en við,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið.

Þar var hann spurður hvernig hefði gengið að leggja leik liðsins gegn Víkingi úr Reykjavík í Bestu deildinni á sunnudag að baki.

Blikar höfðu óskað eftir því við mótanefnd KSÍ að leiknum yrði frestað vegna mikilvægis síðari leiks liðsins gegn Struga í lokaumferð undankeppni Sambandsdeildar UEFA á Kópavogsvelli í dag en þeirri beiðni var hafnað. Leikskýrsla Blika barst seint fyrir Víkingsleikinn auk þess sem leikmenn og starfslið mættu seint og um síðir í leikinn í Víkinni.

Leikurinn gegn Struga frá Norður-Makedóníu skilur á milli þess hvort liðið nælir sér í sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í fyrsta sinn, en Breiðablik vann fyrri leikinn ytra 1:0.

Óskar sagði stöðuna á leikmannahópnum fyrir leikinn góða þar sem allir nema Kristinn Steindórsson, sem er með rifinn liðþófa, eru klárir í slaginn.

Ekki fyrr en á reynir

Blaðamanni lék forvitni á að vita hvernig Blikum hefði gengið að stilla spennustigið fyrir gífurlega mikilvægan leik dagsins.

„Auðvitað veistu það aldrei fyrr en á reynir. Það hefur gengið ágætlega. Þessir drengir eru búnir að spila marga mikilvæga leiki á undanförnum árum. Við þurfum auðvitað að passa það að í grunninn er þetta bara eins og hver annar leikur sem við þurfum að standa okkur vel í.

Góð frammistaða hefur tilhneigingu til þess að skila góðri niðurstöðu. Við megum einhvern veginn ekki fara að sjá lokamarkið, við þurfum að passa það. Við megum heldur ekki fara að verja forskotið sem við erum með,“ sagði hann.

Eins og það sé markalaust

„Ég talaði um að það yrði gott að koma hingað heim og vera í forystusætinu fyrir seinni leikinn og það er ljóst að við erum í því með þessum sigri úti. En það getur síðan snúist ef við ætlum að fara að verja eitthvað, sitja og passa upp á eitthvað sem er ekki fast í hendi. Við eigum bara að líta á þetta þannig að það sé 0:0 og að við þurfum að keyra á þá.

Þeir eru með gott lið. Þeir eru, alveg eins og við, búnir að vinna fyrir því að komast í þennan leik þannig að við þurfum að eiga okkar allra besta leik til þess að fara áfram, sem er bara eðlilegt. Við erum íslenskt lið og íslensk lið verða að eiga toppleiki til þess að ná hagstæðum úrslitum í Evrópu,“ hélt Óskar áfram.

Okkar besti varnarleikur

Hann reiknar með því að halda sig við hefðbundið leikskipulag sitt.

„Það er planið. Við ætlum að pressa þá framarlega, ná frumkvæðinu eins fljótt og við getum í leiknum. Við þurfum að halda boltanum. Þeir eru aggressívir og pressa mikið þannig að við þurfum að passa okkur að finna jafnvægi á milli þess að spila ekki þangað sem þeir vilja að við spilum og spila þangað sem svæðin eru.

Við þurfum góða áhættustýringu, við þurfum góðar ákvarðanir og ég held að það mikilvægasta sé hvað við gerum við boltann þegar við erum með hann. Það verður held ég okkar besti varnarleikur.

Því betri ákvarðanir sem við tökum þegar við erum með boltann því auðveldara verður að verjast þeim því þeir eru mjög góðir þegar þeir vinna boltann hratt og geta farið hratt á óskipulagða vörn.“

Á von á betri fótboltaleik

Aðstæður í Norður-Makedóníu fyrir viku voru afar krefjandi og því býst Óskar við allt öðruvísi leik í dag.

„Svona fyrir fram myndi ég halda það. Aðstæðurnar voru mjög krefjandi úti. Yfirborð vallarins var erfitt, ákafur sviptivindur í seinni hálfleik og mjög heitt þannig að ég yrði hissa ef tempóið yrði ekki hærra. Ef við náum ekki að halda betur í boltann en við gerðum þar verð ég mjög hissa.

Ég á von á betri fótboltaleik. Það voru fáar heppnaðar sendingar í þessum fyrri leik og kannski lítil knattspyrnuleg gæði. Þótt einstaklingsframtakið sem tryggði okkur sigur hafi auðvitað verið frábært voru ekki mikil gæði í leiknum sjálfum,“ sagði hann.

Drögum ekki fjöður yfir það

„Ég held að það sé auðveldlega hægt að skella skuldinni á yfirborð vallarins en auðvitað er það líka spennan. Þetta er svo mikilvægur leikur og það verður verkefni hjá okkur öllum að koma rétt stilltir og rétt stemmdir til leiks. Það er risastór þáttur í þessu.

Maður verður að átta sig á mikilvægi leiksins, það er auðvitað gríðarlegt og þarf ekkert að draga fjöður yfir það. Við megum samt ekki láta það stjórna okkur og hvernig við mætum til leiks, að það heltaki allt.

Við þurfum að nota þá orku, sem kemur þegar þú ert undir pressu og kannski pínu hræddur við að mistakast, til þess að knýja okkur áfram til góðra verka frekar en að hún dragi okkur niður,“ sagði Óskar að lokum.