Elísabet Guðný Kristjánsdóttir, Bettý, fæddist á Ísafirði 22. október 1928. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 18. ágúst 2023.

Foreldrar hennar voru hjónin Margrét Finnbjörnsdóttir söngkona og húsmóðir og Kristján Tryggvason klæðskeri og kaupmaður í Hafnarstræti 6 á Ísafirði. Systur Elísabetar voru Hulda Bryndís, fædd 1927, dáin 1936, og Greta Lind, fædd 1931, dáin 2009. Eiginmaður Elísabetar var Björn Jónsson flugmaður, fæddur 1931, en lést í þyrluslysi í Jökulfjörðum árið 1983. Þau voru barnlaus en Björn átti þrjú börn með fyrri konu sinni.

Elísabet lauk grunnskólanámi á Ísafirði og stundaði síðan nám í píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá dr. Victori Urbancic og Rögnvaldi Sigurjónssyni. Hún kenndi um árabil við Tónlistarskólann á Ísafirði, sem þá var undir stjórn Ragnars H. Ragnar, og annaðist jafnframt undirleik fyrir einsöngvara og kóra bæjarins. Jafnframt starfaði hún sem gjaldkeri í Útvegsbankanum.

Árið 1962 fluttist Elísabet suður til Reykjavíkur og hóf störf sem bókari í Útvegsbankanum við Lækjartorg þar sem hún vann til loka starfsævinnar. Að auki annaðist hún um tíma undirleik fyrir Pólýfónkórinn og í Ballettskóla Eddu Scheving.

Elísabet og Björn bjuggu í Eskihlíð, en eftir lát hans flutti Bettý vestur í bæ, á Grenimel, og síðar í sambýli eldri borgara á Skólabraut 3 á Seltjarnarnesi, þar sem hún bjó síðustu árin.

Útför Elísabetar Guðnýjar fer fram í Seltjarnarneskirkju í dag, 31. ágúst 2023, klukkan 13.

Í minningu Elísabetar Kristjánsdóttur frá Ísafirði.

Undirritaður þakkar þær endurminningar sem Bettý mágkona mín gaf mér.

Mér er söknuður og þakklæti í huga nú er við ástvinir hennar kveðjum hana hinstu kveðju.

Hún missti eiginmann sinn, Björn Jónsson flugstjóra hjá Landhelgisgæslunni, eftir örstutt hjónaband í hinu sviplega þyrluslysi er varð í Ísafjarðardjúpi í nóvember 1983.

Hún bar harm sinn í hljóði-.

Í Fossvogskirkjugarði bjó hún eiginmanni sínum undurfagran legstein, er lagður var í fjölskyldugrafreit Björns. Þar átti hún sínar helgistundir.

Guð varðveiti í hjörtum okkar sem syrgjum Bettý minningu hennar.

Frosti Fjalar Jónsson.

Ég man ekki eftir því sjálf, en mér skilst að kynni okkar Bettýjar hafi hafist þegar ég var tveggja mánaða. Þá var jólaboð hjá ömmu Gretu (systur Bettýjar) og afa Sverri á Einimel. Bróðir minn hafði verið fyrsta barnabarnið í áratug og fékk því nær óskipta aðdáun og athygli eldri kynslóðarinnar í um tvö ár, eða þar til við bættumst þrjú við árið 1989. Ég var yngst þessara nýju frændsystkina, fædd í október. Þau voru stærri, öllu brosmildari og vöktu meiri athygli. Ég var víst agnarsmá og hljóðlát og féll í skuggann af þessum föngulegu frændsystkinum. Það fór fyrir brjóstið á Bettý sem mátti ekkert aumt sjá og sagði síðar við mömmu mína: „Það var þá sem ég ákvað að taka hana að mér,“ sem hún sannarlega gerði. Upp frá því hófst okkar samband sem einkenndist af gagnkvæmri ást og aðdáun alla tíð.

Öll mín æsku- og unglingsár bjó Bettý í sama húsi og við fjölskyldan. Ef ég meiddi mig úti í leik og kom heim á orgunum var það Bettý sem gekk á grátinn og huggaði. Ef ég var veik þá bjó Bettý um mig í rúminu sínu og gaf mér flóaða mjólk. Þegar bangsinn minn og besti vinur rifnaði í systkinarifrildi var það Bettý sem saumaði hann aftur saman og læknaði hjartasár.

Ein uppáhaldsminningin mín af Bettý er þegar verslunin Úlfarsfell var á Hagamelnum, en hún seldi ljósmyndavörur, bækur og leikföng, svo fátt eitt sé nefnt. Ég hafði séð svo fallega dúkku í glugganum, með hrokkið ljóst hár og í bláum kjól. Ég þrábað Bettý um að fara með mig að búðarglugganum því mig langaði svo að sýna henni fallegu dúkkuna. Svo loksins, eitt desemberkvöld, féllst hún á að fara með mig og kíkja í gluggann. Klukkan hefur verið orðin sex, því búðin var lokuð og niðdimmt úti. Hún leiðir mig að glugganum og þá sé ég mér til mikillar hrellingar að dúkkan er horfin. Ég ætlaði ekki að trúa þessu, loksins hafði mér tekist að fá Bettý til að kíkja á dúkkuna og þá var hún farin! Þau voru þung skrefin heim og mikil sorg. Þið getið svo rétt ímyndað ykkur gleðina og undrunina þau jólin þegar dúkkan, sem ég hélt að ég sæi aldrei aftur, kom upp úr jólapakkanum frá Bettý! Árin færðust yfir en Bettý var alltaf jafn skörp og klár. Síðustu árin snerust hlutverkin við og nú var það ég sem fór með Bettý í bíltúr, bauð henni í kaffi eða kvöldmat og fór með henni vestur til sumardvalar í bústaðinn hennar, Grund. Við mamma áttum góðar stundir með henni fyrir vestan síðustu árin. Eftir kvöldmat var iðulega tekið í spil og jafnvel drukkinn Baileys-dreitill með. Bettý spilaði okkur báðar alveg undir borðið og engu skipti hvort spilað var tromp eða nóló.

Ég hef notið hverrar stundar með henni og það kom aldrei fyrir að ég vildi ekki verja tíma með henni. Ég er innilega þakklát fyrir að hafa átt hana að og yndislegar minningar um hana fylgja mér alla tíð.

Edda Pétursdóttir.

Í dag kveð ég elsku Bettý. Hún var ömmusystir mín en gekk mér og systur minni í ömmustað enda bjó hún í sama húsi og við öll okkar uppvaxtarár. Bettý átti heima í Reykjavík, en hjarta hennar var á Ísafirði og hvert sumar hlakkaði hún til að komast í sumarbústaðinn Grund fyrir botni Skutulsfjarðar, sem foreldrar hennar byggðu árið 1932.

Svo lengi sem ég man var Bettý þar öll sumur með móður sinni, langömmu okkar, og seinna með ömmu okkar og afa. Það var alltaf gaman með Bettý, margar af mínum bestu minningum með henni eru að vestan. Þegar við vorum krakkar fór hún með okkur í ótal bíltúra um Ísafjarðarbæ og nálæga firði, enda Vestfjarðagöngin glæný þá, svo að það var sport að fara með Bettý til Flateyrar, Suðureyrar og víðar. Það var líka farið í Gamla bakaríið á Ísafirði og heilsað upp á Rut, vöfflukaffi til Jönu Sam og svo auðvitað inn í Skóg til Sigrúnar og Yngva. Á Grund var líka mikill gestagangur frændfólks og vina, sem fengu rausnarlegar móttökur.

Bettý var ótæmandi brunnur upplýsinga um staði og fólk og ég drakk það allt í mig. Það var einstakt hversu vel hún gat sagt frá og teiknað upp lifandi myndir, svo fólkið sem hún var að lýsa birtist manni ljóslifandi.

Bettý var bakhjarl okkar systkinanna. Hvort sem eitthvað bjátaði á eða ekki, þá vissum við að við ættum Bettý alltaf að. Ég gat talað við hana á léttu nótunum en líka rætt um flókin og erfið viðfangsefni í trúnaði, vitandi að ég fengi traustar ráðleggingar. Með æðruleysi sínu fyllti hún mig þeirri vissu að allt færi á besta veg.

Ég mun sakna þess að geta ekki talað við Bettý daglega og leyft henni að fylgja mér á lífsins stóru stundum, en er henni innilega þakklátur fyrir samfylgdina hingað til.

Í dag kveð ég ekki frænku mína, heldur ömmu mína og vin.

Kristján Sævald Pétursson.

„Góða nótt Ásthildur mín.“ Þetta voru síðustu orð elsku Bettýjar frænku til mín. Langri ævi lokið og komin kveðjustund. Ég geymi minningar í hjarta mínu um sterka og sjálfstæða frænku sem aldrei gafst upp. Þakka einnig fyrir hlýju og umhyggju alla tíð fyrir fjölskyldu minni.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Hjartans þakkir!

Þín

Ásthildur.

Mig langar að minnast Bettýjar, en henni kynntist ég fyrir tæpum fjörutíu árum þegar við Magga systurdóttir hennar fórum að rugla saman reytum.

Í dag eru mér efst í huga sambúðin með Bettý á Grenimel í Reykjavík og allar ferðirnar sem við fórum með henni vestur á Ísafjörð á sumrin. Húsið á Grenimel var hálfgert fjölskylduhús. Fyrstu árin bjuggu þar Margrét Finnbjörnsdóttir móðir Bettýjar á neðri hæðinni, en á efri hæðinni Bryndís dótturdóttir hennar og fjölskylda. Síðar flutti fjölskyldan til Svíþjóðar og keyptum við Margrét þá íbúðina af þeim og fluttum í húsið. Í og með var þessi ráðstöfun gerð til að tryggja Margréti öryggi í ellinni. Nokkrum árum síðar fer heilsu hennar að hraka og er Bettý fljótlega farin að líta til með henni daglega. Eftir að Margrét lést festi Bettý kaup á íbúðinni og flutti í húsið. Þá eru börnin okkar lítil og var hún þeim eins og amma upp frá því.

Systurnar Bettý og Greta áttu sumarbústaðinn Grund við Skutulsfjörð sem þær erfðu eftir foreldra sína og við Margrét húsið Kirkjubæ þar rétt hjá, svo öllum sumarfríum var varið fyrir vestan. Yfirleitt var ekið í samfloti vestur og eftir að Bettý fór að reskjast treysti hún sér illa til að aka svo langt og sá Margrét þá um aksturinn fyrir hana, enda vildi hún hafa bílinn sinn á staðnum til að vera ekki öðrum háð með snúninga.

Allan starfsferil sinn starfaði Bettý hjá Útvegsbankanum. Fyrst á Ísafirði, en síðan í Reykjavík eftir að hún flutti suður. Bettý var mjög minnug og talnaglögg enda voru henni falin ábyrgðarmikil verkefni, þótt tíðarandinn væri sá að konum var lítið hleypt áfram innan bankakerfisins. Ófáir voru þeir karlmenn sem hún þjálfaði til starfa sem síðan urðu deildarstjórar, útibússtjórar eða jafnvel bankastjórar innan fárra ára frá því þeir hófu störf. Á þeim árum var glerþakið töluvert neðar en það er í dag og var hún ein þeirra kvenna sem með atvinnuþátttöku sinni og hæfni náðu að þoka því aðeins upp.

Ég kveð Bettý með söknuði, en fyrst og fremst með þakklæti og vona að hún hafi loks fundið Björn sinn sem var stóra ástin í lífi hennar og hún saknaði sárt eftir að hann fórst ásamt þremur öðrum með Rán, þyrlu Landhelgisgæslunnar, í Jökulfjörðum, en 8. nóvember næstkomandi verða liðin 40 ár frá því hörmulega slysi.

Drottinn gefi dauðum ró og hinum líkn er lifa.

Pétur Sævald Hilmarsson.

Ég man fyrst eftir Bettý móðursystur minni á heimili afa og ömmu vestur á Ísafirði þegar ég var lítil stelpa á sjötta áratug síðustu aldar. Píanókennari og bankamær, lífleg og snör í snúningum. Hún fór til Parísar og kom heim með fallega kjóla og netta, háhælaða bandaskó í pastellitum. Ég vissi auðvitað ekkert um hennar ástamál þá, en seinna sagði hún mér að hún hefði kynnst Birni Jónssyni, sem síðar varð eiginmaður hennar, á þessum árum þegar hún var enn í föðurhúsum. Hann var þá myndarlegur stýrimaður með hvítan koll og kom í heimsókn í Hafnarstrætið og heilsaði upp á afa og ömmu á meðan skipið lá í höfn. Af einhverjum ástæðum varð ekkert meira úr sambandinu á þeim tíma en þau tóku upp þráðinn á ný löngu síðar, eftir að Björn skildi við fyrri konu sína, og giftu sig í Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd á fallegum sumardegi árið 1977. Þau fengu nokkur góð ár saman, en Björn lést af slysförum árið 1983.

Bettý annaðist undirleik á ýmsum skemmtunum í bænum, þar á meðal fyrir Sunnukórinn og Karlakór Ísafjarðar og einnig fyrir einsöngvara sem komu og héldu tónleika á Ísafirði. Stundum var fyrirvarinn hjá einsöngvurunum afar stuttur og hún fékk iðulega í hendur á síðustu stundu nótur að lögum sem hún hafði aldrei spilað fyrr, enda tölvupóstur ekki upp fundinn á þeim tíma. En einhvern veginn blessaðist þetta allt. Ég man eftir því þegar söngleikurinn Meyjaskemman eftir Bruno Hart, með sönglögum eftir Franz Schubert, var færður upp í Alþýðuhúsinu. Rjóminn af söngfólki bæjarins söng öll þessi fallegu lög og „undirleik annaðist frk. Elísabet Kristjánsdóttir af hinni mestu leikni“, eins og segir í blaðinu Ísfirðingi 5. júní 1962. Ég, þá níu ára, fékk að vera viðstödd æfingarnar og var svo gjörsamlega heilluð af tónlistinni að einu sinni þurfti ég að hlaupa út af æfingu hágrátandi með ekkasogum og var lengi að ná mér.

Bettý var stálminnug og slíkur þekkingarbrunnur um allt sem varðaði Ísfirðinga og ættingja okkar sérstaklega, að hún veitti mér innblástur til að setja saman litla bók um móðurfólkið mitt sem ég tileinkaði henni. Þar eru ýmsar upplýsingar og frásagnir sem hefðu vafalaust týnst annars.

Síðasta áratuginn vorum við Bettý nágrannar á Seltjarnarnesi. Þá varð samband okkar enn nánara en fyrr og börn okkar Guðna og barnabörn fengu tækifæri til að kynnast henni betur. Ég verð ávallt þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman og mun sakna hennar meira en orð fá lýst.

Hulda Bryndís Sverrisdóttir.

Við systur erum heppnar að hafa átt Bettý okkar að.

Við eigum svo mikið af dásamlegum minningum saman, síðan við vorum litlar. Margar af okkar bestu stundum voru þegar við sátum hjá henni við eldhúsborðið á Grund við Ísafjörð og spjölluðum um allt milli himins og jarðar, nútíðar og fortíðar.

Bettý okkar var ein fallegasta sál sem við þekktum. Við vorum heppnar að fá að kynnast henni og eiga minningar með henni, og hún mun alltaf eiga dýrmætan stað í okkar hjörtum.

Elísabet og Margrét Friðriksson.

Mig langar í örfáum orðum að minnast einstakrar manneskju sem hún Bettý svo sannarlega var. Okkar kynni hófust á Flórída fyrir nokkrum áratugum, en þar voru eiginmenn okkar í reglulegri flugþjálfun. Það vakti strax athygli mína hve mikill glæsileiki var yfir þessari fallegu og vel klæddu konu, það bókstaflega geislaði frá henni, en jafnframt skynjaði maður fljótlega léttleikann og hlýjuna sem var henni svo eiginleg og ósvikin og við náðum fljótt vel saman. Tvö af börnum mínum voru með í ferðinni og nutu þau líka samverunnar og athyglinnar sem Bettý sýndi þeim.

Örfáum árum seinna áttu bönd okkar eftir að styrkjast enn frekar þegar aðstæður okkar beggja breyttust og við orðnar ekkjur. Við vorum duglegar að vera í sambandi og heimsækja hvor aðra, okkur fannst báðum styrkur í því.

Það var alltaf svo notalegt að eiga stund og spjall með Bettý, hún hafði sérstakt lag á að skapa létt andrúm í kringum sig og hún var ein jákvæðasta manneskja sem ég hef kynnst. Á langri ævi varð hún eins og margir fyrir margs konar áföllum, en með jákvæðni, bjartsýni og þakklæti tókst henni svo vel að mæta því sem að höndum bar. Hún var bara sérfræðingur í lífsleikni hún Bettý og hún þurfti ekki að fara á námskeið til að læra það, henni var þetta bara svo eiginlegt. Eflaust hefur lífsviðhorf og jákvæðni stuðlað að langlífi hennar. Hún minntist oft á „stelpurnar“, það er systrabörnin, hvað þær bæru mikla umhyggju fyrir sér, það hefur auðvitað verið ómetanlegt þar sem hún var sjálf barnlaus. Svo átti hún líka „barnabörn“, kannski ekki síst „Möggubörn“ eins og hún nefndi þau oft sjálf, sem voru henni afar kær enda búandi í sama húsinu um árabil.

Þótt töluverður aldursmunur væri milli okkar var aldrei neitt sem gaf það til kynna eða hafði áhrif á okkar samskipti en ég naut þess auðvitað bara að hún var lífsreyndari og fróðari á margan hátt og ótrúlega minnug alla tíð. Hún sýndi börnum mínum líka alltaf mikinn áhuga og fylgdist með og spurði alltaf um hagi þeirra og annað.

Það var ánægjulegt að koma til hennar í bústaðinn vestur á Ísafjörð, bernskuslóðir hennar, augljóslega var þessi staður henni afar hjartfólginn. Einkar ánægjulegt var líka þegar ég fór að nefna við hana að heimsækja okkur Kolla til Lúxemborgar en hún tók strax vel í það og kom svo að sumarlagi. Við vildum nú reyna að sýna henni sem mest á þessari viku sem hún dvaldi en hún kaus miklu frekar að vera mest í rólegheitum með okkur í garðinum okkar þarna og ég held hún hafi notið ferðarinnar vel.

Það er eðlilegt að manneskjan ljúki sinni jarðvist í hárri elli og ég þykist vita að Bettý hafi kvatt sátt, hún bar gæfu til að geta notið lífsins að mestu leyti fram á síðasta dag.

Ég mun sakna þessarar góðu konu og bið þess að englar himnanna umvefji hana ljósinu og leiði hana inn í Sumarlandið. Góða ferð elsku trygga vinkona.

Aðalheiður
Ingvadóttir.